Vinsældir Mikið er horft á útsendingar frá Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Ekki er þó víst að allir geri það eftir löglegum leiðum í dag.
Vinsældir Mikið er horft á útsendingar frá Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Ekki er þó víst að allir geri það eftir löglegum leiðum í dag. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Notkun á ólöglegri sjónvarpsþjónustu er stærsta ógnin sem íslenskt áskriftarsjónvarp býr við og kann að hafa áhrif á kaup á sjónvarpsréttindum og framleiðslu innlends efnis á næstu árum. Talið er að tugþúsundir Íslendinga notist við svokallaðar IPTV-efnisveitur sem þeir greiða lágt gjald fyrir en fá aðgang að sjónvarpsstöðvum um allan heim.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Notkun á ólöglegri sjónvarpsþjónustu er stærsta ógnin sem íslenskt áskriftarsjónvarp býr við og kann að hafa áhrif á kaup á sjónvarpsréttindum og framleiðslu innlends efnis á næstu árum. Talið er að tugþúsundir Íslendinga notist við svokallaðar IPTV-efnisveitur sem þeir greiða lágt gjald fyrir en fá aðgang að sjónvarpsstöðvum um allan heim.

„Það er orðið svo auðvelt að koma sér upp svona þjónustu og á síðustu árum finnst mörgum það alveg sjálfsagt. Sem er kannski ekkert skrítið því þegar þú kaupir þér nýtt sjónvarp er eitt það fyrsta sem þú sérð app þar sem þú getur fengið allar sjónvarpsstöðvar í heimi fyrir lítinn pening,“ segir Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður íþróttadeildar hjá Stöð 2 og tengdum miðlum.

Undir þetta tekur Guðmundur Jóhannsson samskiptafulltrúi Símans en hann segir að eflaust hafi aldrei verið einfaldara að nálgast allt heimsins sjónvarpsefni þökk sé aukinni snjall- og appvæðingu. „Kaupendur að slíkri þjónustu átta sig þó ekki á því að fjárhæðirnar enda oftar en ekki hjá skipulögðum glæpasamtökum,“ segir Guðmundur sem bætir því við að um 17 milljónir Evrópubúa segist hafa nýtt sér ólöglega þjónustu til að horfa á sjónvarpsþætti eða kvikmyndir árið 2022.

IPTV stærsta ógnin

Eiríkur Stefán kveðst finna mikið fyrir uppgangi IPTV. „Við glímum við alls konar ógnir og samkeppni en stærsta ógnin við okkar tekjustoðir er þessi stuldur á útsendingum okkar og ólögleg dreifing á sjónvarpsmerkjum.“

Hann segir að samkvæmt könnunum sem FRÍSK, Félag rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum, hefur gert séu kannski 25-30 prósent heimila sem nýta sér slíka ólöglega þjónustu hér á landi. „Miðað við það gætu þetta verið hátt í 40 þúsund heimili. Það eru rosalega háar tölur.“

Líklegt má telja að stór hluti þeirra sem sækja sér sjónvarpsefni í gegnum IPTV sé á höttunum eftir beinum útsendingum frá íþróttum. Þótt áskriftarverð á íþróttarásum hér á landi sé ekki hátt ef horft er til verðlagningar á annarri afþreyingu kjósa greinilega margir ólöglegu leiðina í dag. Það er kannski ekki skrítið þegar horft er til þess að algengt verð fyrir IPTV er á bilinu 1.500-2.000 krónur á mánuði en ef íþróttaáhugafólk vill bæði vera með enska boltann og sportpakkann hjá Stöð 2 Sport kostar það tæpar 17.000 krónur. Ekki þarf flókna útreikninga til að sjá að íslensku stöðvarnar munar um nokkur þúsund áskriftir.

Hefur áhrif á framleiðslu efnis

Ef sífellt fleiri kjósa ólöglegu leiðina mun það þó á endanum hafa afleiðingar, að mati viðmælenda blaðsins. „Á sama tíma hafa löglegir kostir til að njóta sjónvarpsefnis aldrei verið fjölbreyttari eða samkeppnin meiri. Ólögleg dreifing sem þessi skapar ekki aðeins tekjutap hjá sjónvarpsstöðvum sem kosta til framleiðslu á innlendu efni og setja háar fjárhæðir í leikið erlent efni og íþróttaefni. Tekjutap hjá hinu opinbera er einnig mikið í formi skatta og gjalda ásamt því að íslenskur sjónvarps- og kvikmyndaiðnaður tapar einnig umtalsverðum fjárhæðum þar sem framleiðsla innlends efnis getur orðið minni,“ segir Guðmundur hjá Símanum.

Ná ekki lengur upp í kostnað

Hann segir að aukin notkun á ólöglegum sjónvarpsþjónustum geti gert það að verkum að sjónvarpsstöðvar bjóði síður í vinsælt efni eins og til að mynda útsendingar frá íþróttaviðburðum þar sem þær sjái ekki fram á að ná upp í kostnað með seldum áskriftum. Borið hafi á því í nokkrum tilfellum í Evrópu að engin tilboð hafi borist í útsendingarrétt að vinsælu íþróttaefni, einfaldlega því að slíkt er mjög dýrt og ekki fyrirséð að náðst hefði upp í kostnað þar sem notkun á ólöglegum sjónvarpsþjónustum sé það algeng í dag.

Eiríkur Stefán segir að þróunin kunni að breyta einhverju um greiðslugetu fyrirtækisins fyrir sýningarrétti þegar kemur að innkaupum. „Stöð 2 Sport er með stóra samninga í íslensku íþróttalífi og þetta hefur áhrif á hvernig við getum réttlætt ákveðnar fjárfestingar á þeim vettvangi. Áhrifin eru víðar en bara hjá okkur, þetta hefur áhrif á alla keðjuna.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon