Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
„Tilefnið er gríðarleg fólksfjölgun síðustu tíu ár,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar aðspurður í tilefni þess að bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að innheimta innviðagjald.
„Svona hröð og mikil uppbygging, sem er að jafnaði um sex prósent á ári, kallar á gríðarlega mikla uppbyggingu innviða,“ segir hann og nefnir skóla, íþróttamannvirki og menningarstofnanir sem dæmi. „Það er ekkert í spilunum annað en að fólksfjölgunin haldi áfram og við finnum það í eftirspurn eftir húsnæði.“
Innviðagjald er lagt á verktaka sem byggja húsnæði á lóðum sveitarfélaga. Kjartan segir að þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi náð aftur vopnum sínum eftir að hafa glímt við fjárhagserfiðleika áður dugi framlegðin úr rekstrinum ekki til að byggja upp innviðina.
Hugnast ekki lántaka
„Þá eigum við tvo möguleika. Annars vegar að taka lán, sem við viljum ekki gera, og hins vegar að innheimta innviðagjald,“ segir Kjartan. „Við erum að áætla að byggja upp innviði fyrir 50 til 60 milljarða á næstu tíu árum.“
Kjartan segir að ef allt gengur eftir sé áætlað að tekjurnar af gjaldinu skili sveitarfélaginu 25 til 30 milljörðum á næstu tíu árum.
Mörg sveitarfélög hafa tekið upp innviðagjald og nefnir Kjartan sem dæmi Reykjavíkurborg, Kópavog og Hafnarfjörð. Þræta Reykjavíkurborgar og Sérverks ehf. um innviðagjaldið rataði á borð Hæstaréttar þar sem verktakinn krafðist viðurkenningar á því að gjaldið væri ólögmætt. Var Reykjavíkurborg sýknuð af öllum kröfum verktakans.
Kjartan tekur fram að samstaða ríki um innheimtu gjaldsins í bæjarráði og var hún samþykkt með fimm atkvæðum af fimm. Tillagan verði vonandi til umræðu í bæjarstjórn í næsta mánuði og bindur Kjartan vonir við að það gangi vel.
Aðspurður segist hann ráðgera að gjaldtaka hefjist um leið og tillagan verði samþykkt.