Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Þegar almannavarnaástand er ríkjandi svo árum skiptir hljóta eðlilega að vakna spurningar um hve lengi nauðsynlegri gæslu og öryggisráðstöfunum sé sinnt af sjálfboðaliðum,“ segir Borghildur Fjóla Kristinsdóttir formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Þanþolið í þeim efnum er ekki óendanlegt, enda þótt okkar fólk sé jafnan reiðubúið að koma til aðstoðar við leit, björgun og afmörkuð verkefni í mjög skamman tíma. Nú þarf að endurskoða mál og samtal um slíkt er hafið.“
Þurfa að hlaupa frá vinnu og fjölskyldu
Í eldgosum og umbrotum við Grindavík síðustu árin hafa björgunarsveitir af öllu landinu sinnt þar öryggisgæslu og öðrum slíkum verkefnum. Alls eru um 4.500 manns á útkallsskrá sveitanna, um 1,2% landsmanna. Stór hluti þess fólks hefur einmitt verið á vaktinni suður með sjó. „Fólk getur auðvitað ekki alltaf hlaupið frá vinnu og fjölskyldu til þess að fara í útköll eða verkefni,“ segir Fjóla.
„Við höfum því leitað eftir því að einhverju sé af okkar fólki létt, svo sem að manna lokunarpósta. Slíku er í dag sinnt af öryggisfyrirtækjum og fleira þyrfti að taka með líku lagi, rétt eins og við höfum rætt við lögreglu og fleiri. Eftir umbrot í Grindavík sem nú hafa staðið með hléum í þrjú ár þarf að hugsa málin upp á nýtt. Ekki er hægt að ætlast til þess að vinnuveitendur björgunarsveitafólks eða fjölskyldur þess gefi endalaust eftir.“
Fjóla hefur starfað í björgunarsveitum í áraraðir og setið í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá 2019. Formennskuna fékk hún í fangið síðasta haust þegar Grindvíkingurinn Otti Rafn Sigmarsson formaður félagsins fékk leyfi frá störfum vegna anna við eigin verkefni í heimabæ sínum. Nýlega gaf Otti endanlega frá sér formannsembættið, sem Fjóla hefur nú með höndum að minnsta kosti fram á næsta ár. Hún hefur síðustu árin unnið með björgunarsveitinni Gerpi í Neskaupstað, en er nú í Ársæli í Reykjavík þar sem hún var áður.
Endurnýjun skipa ekki í hendi
„Endurnýjun á flota björgunarskipa hefur verið eitt stærsta verkefni félagsins síðustu árin. Fjórða nýja skipið kemur til landsins í sumar og fer á Rif á Snæfellsnesi. Hvert þessara skipa kostar tæplega 400 millj. kr. og samkvæmt samkomulagi greiðir ríkið helming af kaupverði hvers þeirra. Nú höfum við ekkert fast í hendi um stuðning við kaup á fleiri skipum. Fyrir björgunarsveitir í fámennum byggðum úti á landi er líka talsverð áskorun að safna kannski 200 millj. kr. Þetta er verkefni sem því þarf hugsanlega nýja nálgun,“ segir Fjóla og að lokum:
„Einnig getur verið svolítil brekka fyrir björgunarsveitir að endurnýja sérútbúna bíla sína; nýir öflugir jeppar með öllum búnaði kosta allt að 40 millj. kr. og nú er einmitt kominn tími á að skipta mörgum eldri þeirra út. Af þessari ástæðu viljum við að ríkið komi betur til móts við björgunarsveitirnar, svo sem með því að þær verði undanþegnar virðisaukaskatti eða fái hann endurgreiddan. Eins og staðan er nú fær ríkið meiri tekjur frá félaginu en til þess er lagt samkvæmt þjónustusamningum sem gilda um ákveðin verkefni sem félagið hefur með höndum.“