Formaður Leiðir og möguleikar til að koma til móts við fólk með aðstoð og stuðningi eru miklu betri en áður, segir Steinunn Bergmann.
Formaður Leiðir og möguleikar til að koma til móts við fólk með aðstoð og stuðningi eru miklu betri en áður, segir Steinunn Bergmann. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Viðhorf hafa breyst og nú má ræða um félagsleg vandamál og hvað betur megi fara í velferðarmálum. Slíkt hefur svo skapað jarðveg fyrir breytingar. Úrræðin sem bjóðast í dag eru mun fleiri en áður og lausnirnar sömuleiðis

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Viðhorf hafa breyst og nú má ræða um félagsleg vandamál og hvað betur megi fara í velferðarmálum. Slíkt hefur svo skapað jarðveg fyrir breytingar. Úrræðin sem bjóðast í dag eru mun fleiri en áður og lausnirnar sömuleiðis. Í þróun þeirra hafa félagsráðgjafar lagt sitt af mörkum; stétt sem svo sannarlega hefur gert samfélagið betra,“ segir Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands.

Sextíu ára afmæli Félagsráðgjafafélags Íslands var fagnað á dögunum, en stofndagur þess var 19. febrúar 1964. Við stofnun félagsins voru fjórir starfandi félagsráðgjafar á Íslandi en í dag eru félagsmenn um 600. Þar af eru konur alls 94%. Frumherjarnir fjórir voru konur sem störfuðu við barnavernd, í þágu fatlaðs fólks, í vinnumarkaðsmálum og á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Þetta segir Steinunn Bergmann að enn í dag endurspegli ágætlega hve fjölbreyttum störfum fólk í faginu sinni. Velferðarmál almennt hafi sömuleiðis meira vægi og að þar takist vel til sé undirstaða margs. Titill fagþings sem tengt var afmælinu hafi því í raun komið af sjálfu sér: Félagsráðgjöf og farsæld í 60 ár.

Valdefla fólk í viðkvæmri stöðu

Valdefling svo að fólk í viðkvæmri stöðu nái frumkvæði í eigin málum er leiðarljós í starfi félagsráðgjafa. „Aðstoð við fólk til að gera breytingar í eigin þágu; leiðbeiningar um hver séu réttindin og hvert skuli þau sækja. Þetta er mikilvægt,“ segir Steinunn Bergmann. Nefnir í þessu sambandi hlutverk sveitarfélaga sem veita fólki fjárhagsaðstoð í vissum aðstæðum. Þau mál hafa félagsráðgjafar með höndum en einnig svo nokkuð sé nefnt að aðstoða fólk sem þarf endurhæfingu eða að komast í meiri félagslega virkni.

„Mikilvægt er að finna lausnir sem hæfa stöðu hvers og eins og þar er um sífellt meira að velja. Margt af því hefur verið þróað meðal annars af félagsráðgjöfum,“ segir Steinunn. Hún nefnir í því sambandi ýmis verkefni sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur komið með og haldið úti. Þar er margt sett saman í einn pakka – fræðsla og styrkur – og oft verður slíkt til þess að skjólstæðingar ná vopnum sínum og komast fyrir vind.

Réttur til lífs með reisn

Á Félagsráðgjafaþingi á dögunum voru mansalsmál rædd og sú nálgun sem þar þarf að vera; það er, þjónusta og stuðningur á forsendum þolenda. Þetta segir Steinunn mikilvægt að skoða í samhengi við stöðuna í heiminum almennt og í tengslum við alþjóðlegar áskoranir. Í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg í Reykjavík, þar sem er móttaka fyrir þolendur ofbeldis, hefur verið tekið á móti fólki í þessari stöðu; þolendum sem hefur fjölgað mikið á síðustu árum. „Til Íslands kemur í dag fjöldi fólks sem sækir um alþjóðlega vernd en þekkir kannski sjaldnast, komið úr öðrum menningarheimum, hvernig samfélagið á Íslandi virkar og hvaða stuðningur er í boði. Að grípa þolendur mansals er mikilvægt og að gera upplýsingar aðgengilegar,“ segir Steinunn.

Á þinginu var einnig rætt um hvaða áhrif flutningur eldra fólks á hjúkrunarheimili hafi á almenn mannréttindi þeirra sem þá hugsanlega skerðast. Mál af þeim toga hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu eins og Steinunn telur vera brýnt. Að tryggja réttindi fólks svo að það geti lifað með reisn sé útgangspunktur í félagsráðgjöf.

Félagsþjónusta hluti af almannavörnum

Síðasta haust dró til þeirra tíðinda að rýma þurfti Grindavík vegna aðsteðjandi hættu. Steinunn Bergmann segir að í þeirri atburðarás hafi strax verið horft til félagslegra aðstæðna íbúa og reynt hafi verið að mæta þeim eftir föngum. Þetta hafi verið til fyrirmyndar, en til samanburðar megi nefna að þegar skriðurnar miklu féllu á Seyðisfjörð í árslok 2020 hafi velferðarþjónustan í Múlaþingi ekki verið talin til fyrstu viðbragðsliða við rýmingu bæjarins. Hafi starfsfólk þess sviðs – svo sem félagsráðgjafar – þó haft mikilvægu hlutverki að gegna til dæmis við að koma fólki í húsnæði. Veita því, nánast allslausu, nauðsynlega þjónustu.

„Í aðstoð við Grindvíkinga gegndu félagsráðgjafar mikilvægu hlutverki. Kallað var eftir fólki úr stéttinni til að sinna margvíslegum verkefnum og voru á tímabili tugir félagsráðgjafa á vakt í þjónustumiðstöð Grindvíkinga sem komið var upp í Tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík. Við sáum líka í heimsfaraldrinum að þar komust velferðarmál og félagsþjónusta á blað sem hluti af almannavarnakerfinu. Og nú er þetta víða orðið hluti af skipuriti viðbragðsliða. Allar leiðir og möguleikar til að koma til móts við fólk með aðstoð og stuðningi eru svo miklu betri en áður. Slíkt er einfaldlega hluti af þeirri þróun sem kennd er við norræna velferð,“ segir Steinunn sem fyrir margt löngu var félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og starfaði þá í Breiðholti.

„Þar voru alls konar úrlausnarefni sem sinna þurfti, í hverfi sem var þó frekar einsleitt félagslega. Nú er Breiðholtið fjölmenningarsamfélag. Og í því eins og öðru bregðast félagsráðgjafar við með störfum; afla þekkingar, þróa vinnubrögð og koma með lausnir til velferðar,“ segir Steinunn að síðustu.

Hver er hún?

Steinunn Bergmann er fædd árið 1963. Hún hefur starfað að velferðarmálum í yfir þrjá áratugi, fyrst við félagsþjónustu og barnavernd hjá Reykjavíkurborg, síðan hjá Barnaverndarstofu. Hefur jafnframt sinnt stundakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (HÍ) og verið prófdómari hjá Félagsráðgjafardeild HÍ.

Steinunn hefur komið að margvíslegum verkefnum á sviði fræðslu- og velferðarmála. Hún hefur verið fulltrúi BHM í Velferðarvaktinni og stjórn Menntasjóðs námsmanna.