Fljótsdalur Nýbyggingin góða sem senn verður tekin í gagnið.
Fljótsdalur Nýbyggingin góða sem senn verður tekin í gagnið. — Ljósmynd/Helga Eyjólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjónustuhús við bílastæðin nærri Hengifossi í Fljótsdal verður tekið í notkun í næsta mánuði. Þetta er 170 fermetra hús, þar sem meðal annars verða salarkynni til að taka á móti gestum sem og ágæt salernisaðstaða

Þjónustuhús við bílastæðin nærri Hengifossi í Fljótsdal verður tekið í notkun í næsta mánuði. Þetta er 170 fermetra hús, þar sem meðal annars verða salarkynni til að taka á móti gestum sem og ágæt salernisaðstaða. Heildarkostnaður er um 200 millj. kr. en húsið er reist eftir teikningum danska arkitektsins Eiriks Rønnings Andersens. „Þetta er mikilvæg framkvæmd. Á þessar slóðir komu um 112 þúsund manns í fyrra og fer fjölgandi,“ segir Helgi Gíslason sveitarstjóri Fljótsdalshrepps.

Fyrir helgina var tilkynnt um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en þar kom fram að alls voru veittir 29 styrkir upp á liðlega hálfan milljarð kr. Þar af fékk Fljótsdalshreppur 15,5 millj. kr. til að bæta stíga og umhverfi við Hengifoss. Sá er 128 metra hár og er einn af tignarlegri fossum landsins. Svolítill spölur er frá bílastæðum að fossinum og þar um brekkur að fara. Þessa aðstöðu segir Helgi Gíslason brýnt að bæta og að slíkt hafi á síðustu árum verið áherslumál af hálfu sveitarfélagsins. Einnig efling ferðaþjónustu og að nýlega hafi Helga Eyjólfsdóttir ferðamálafræðingur verið ráðin til þess að sinna umhverfinu við Hengifoss.

Í þjónustuhúsinu eru sjö salerni. Þetta hefur vakið athygli og á þorrablóti í Fljótsdal í vetur var húsið í gamni nefnt eftir sænskum framleiðanda hreinlætistækja og var að sjálfsögðu kallað Gustavsberg. sbs@mbl.is