Vorið er komið og víðast hvar um land var hið besta veður um helgina. Vel viðraði til garðvinnu og bústarfa í sveitum. Í borginni fóru líka margir í gönguferðir. Vænta má þess að margir nýti sér aðstæður allra næstu daga til útiveru því veður mun haldast svipað; það er að ríkjandi verða hægar áttir af norðri og austri og þá einkum um norðanvert landið.
Um miðja viku má búast við breytingum á veðri. Strax 1. maí og þar á eftir er útlit fyrir lægð sem verður suðvestur af landinu og með henni snýst til sunnanáttar. „Við fáum kærkomna rigningu strax á miðvikudag. Þó að loft verði ekki sérstaklega hlýtt skiptir þessi breyting miklu þegar snýst í suðlægar áttir. Þá tekur fyrir næturfrost í byggðum landsins og hiti fyrir norðan fer í 7-8 stig að deginum á fimmtudag og föstudag,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Horfur lengra fram í tímann segir hann svo þær að snúist geti til norðlægrar átta um næstu helgi. sbs@mbl.is