Þúsundir fólks víða um land tóku til óspilltra málanna og hreinsuðu rusl á stóra plokkdeginum, sem nú var haldinn í sjöunda sinn. Segja má að landið allt hafi verið undir; í flestum stærri bæjum landsins var lausadrasl á víðavangi hreinsað upp og sett í stóra sekki, sem starfsfólk sveitarfélaga mun svo fjarlægja. Að þessu sinni lagði Rótarýhreyfingin á Íslandi málinu lið og tóku liðsmenn hennar, sem eru í meira en 30 klúbbum víða um land, þátt í starfinu.
Síðdegis í gær sást svo hvað áorkast hafði: víða hafði umhverfið öðlast nýjan svip. Búið var að tína upp rakettuprik, plast, papparusl og gosflöskur svo eitthvað sé nefnt.
Hugmyndin og frumkvæðið að stóra plokkdeginum er frá Einari Bárðarsyni, sem enn stendur vaktina. „Þetta er gott verkefni og þarft,“ segir Ómar Bragi Stefánsson umdæmisstjóri Rótarý um aðkomu hreyfingarinnar að þessu máli – sem hann segir falla vel að öllum megingildum hennar. sbs@mbl.is