Eyrún Antonsdóttir fæddist 24. mars 1954. Hún lést 19. mars 2024.

Útför Eyrúnar fór fram 12. apríl 2024.

Elsku vinkona mín til 63 ára, Eyrún Antonsdóttir, er farin í sumarlandið þar sem foreldrar og systur taka vel á móti henni. Það var svo sárt, þungt og vont að heyra um andlát þitt á Spáni.

Þessi yndislega vinkona mín og ég gengum saman lífsins veg þar sem vináttan var svo dýrmæt. Margt gerðum við í fjögurra vinkvenna hópi sem hlýjar manni um hjartarætur. Eyrún ólst upp á mjög framandi heimili í Efstasundi 70 í Reykjavík þar sem allir voru hjartanlega velkomnir. Toni faðir Eyrúnar sigldi um heimsins höf og færði dætrum sínum marga flotta og framandi hluti.

Æska okkar var yndisleg og mikið um að vera. Við vorum í Langholtsskóla, sungum með skólakórnum. Vorum báðar valdar í söngleikinn Litlu-Ljót þar sem Eyrún lék Litlu-Ljót en undirrituð eina af vondu systrunum fjórum. Þetta voru spennandi tímar því söngleikurinn var sýndur í sjónvarpinu og gefinn út á hljómplötu.

Vinkonuhópurinn gekk í skátahreyfinguna og vorum við mjög virkar þar. Fórum á landsmót, tjölduðum í Botnsdal í Hvalfirði, heimsóttum hreyfinguna á Akranesi og svona mætti lengja halda áfram. Lífið var heilt ævintýr.

Við kynntumst mökum okkar og eignuðumst börn. Eyrún eignaðist Rúnar og Arnar, yndislega drengi sem hugsuðu vel um mömmu sína og eru í dag fullorðnir menn með fjölskyldur og börn. Þeim hefur vegnað vel í lífinu og framtíð þeirra er björt en hræðileg sorg hefur bankað á dyr þeirra, að móðir þeirra skuli vera dáin, farin í sumarlandið. Missir þeirra er ólýsanlegur.

Eftir að vinkonuhópurinn stofnaði fjölskyldur voru útilegurnar teknar upp að nýju. Eitt sinn skáti ávallt skáti! Við fórum í margar útilegur, mjög oft í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Á hverju vori urðum við órólegar og útilegurnar kölluðu á okkur. Þörfin að komast í útilegur var slík að við urðum að tjalda utan þjóðgarðsins sem ekki hafði verið opnaður. Við tjölduðum oft fyrir utan þjóðgarðinn. Allar þessar útilegur voru algjört æði fyrir okkur og börnin okkar. Við fórum mjög oft makalausar.

Við gengum í Bústaðakirkjukórinn sem var ógleymanlegur og yndislegur tími.

Maðurinn í lífi Eyrúnar sem bar hana á höndum sér sem fallegustu drottningu í heimi er Sverrir Agnarsson. Þau kynntust fyrir 25 árum, tengdust sterkum og fallegum böndum og ástin blómstraði. Bestu ár Eyrúnar voru með Sverri sínum sem dekraði hana eins og prinsessu. Eyrún var aldrei eins hamingjusöm í lífinu og með Sverri sínum.

Elsku Sverrir, missir þinn er mikill og ólýsanlegur. Draumastúlkan þín er farin. Við Jóhannes vottum þér, Gullu og Gunnari og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Megi góður Guð styrkja ykkur á þessum sorgartímum í lífi ykkar.

Þín æskuvinkona,

Ásgerður Jóna
Flosadóttir.