Sigurður Benedikt Stefánsson fæddist 5. október 1967. Hann lést 10. apríl 2024. Útför hans fór fram 18. apríl 2024.

Elsku Siggi okkar. Eftir langt veikindastríð hefur þú nú fengið hvíldina og ert kominn á betri stað. Því miður er það svo að sumum stríðum sem við heyjum á lífsleiðinni komumst við ekki lifandi frá. Með aðdáun höfum við fylgst með ykkur Önnu Rósu í veikindum þínum berjast af æðruleysi eins og stríðsmenn við krabbann. Það er sárt að sjá á eftir þér í blóma lífsins hverfa á braut. Það var svo margt sem við áttum eftir að ræða og gera saman.

Þegar litið er yfir farinn veg og hugsað til baka þá lýsa góðar minningar upp sorgina. Minningar um bróður sem gott var að leita til og var ávallt til staðar fyrir okkur systur. Það er ljúft að minnast æsku og uppvaxtar okkar í foreldrahúsum og góðra daga sem við áttum saman systkinin. Oft var fjör og glatt á hjalla og stutt í vitleysu og prakkaraskap. Þú gast alltaf séð spaugilegu hliðarnar á málunum og á stundum var húmorinn svolítið svartur.

Hjá börnum okkar systra varstu alltaf uppáhaldsfrændinn. Siggi frændi gaf svo flottar gjafir. Spidermannkall, rúlluskór og Bayern Munich-fótboltagalli svo eitthvað sé nefnt hitti svo sannarlega í mark hjá litlum frændsystkinum. Einnig þótti mikið sport að koma til Sigga og Önnu í Garðabæinn. Þá var boðið upp á ískalt kók í glerflösku og tekið vel á móti okkur.

Elsku Siggi okkar, góða ferð yfir í sumarlandið. Við vitum að pabbi og fleiri taka vel á móti þér. Í hjörtum okkar lifa ljúfar minningar um góðan bróður. Takk fyrir samfylgdina að sinni og vertu sæll, já góða ferð.

Þínar systur,

Sigrún og

Svanhvít.

Við kveðjum þig, elsku Siggi, og þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér. Fótbolti var þitt helsta áhugamál og skipaði alla tíð stóran sess í þínu lífi. Þú hafðir einnig mikinn áhuga á okkar árangri í boltanum og studdir okkur áfram. Við munum svo sannarlega minnst þín í sérhvert sinn er við horfum á leiki með þínum uppáhaldsliðum, ÍA, Bayern München og Liverpool.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Hvíl í friði, elsku frændi.

Þín frændsystkin,

Stefán Kristinn, Guðrún Katrín, Hlynur Kári,

Viktor Logi
og Þórður Elís.