Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Mikil hreyfing er á fylgi meðal efstu manna sem boðið hafa sig fram til forsetakjörs, samkvæmt skoðanakönnun Prósents, og hið sama má greina af niðurstöðum annarra rannsóknarfyrirtækja, svo sem Maskínu og Gallup.
Þar sætir fylgisaukning Höllu Hrundar Logadóttur mestum tíðindum, en eins og sjá má hér að neðan hefur hún verið bæði mikil og ör. Aðrir frambjóðendur súpa seyðið af því en í mismiklum mæli. Þannig hafa bæði Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr dalað jafnt og þétt, en miðað við niðurstöður Prósents hefur fylgi Katrínar Jakobsdóttur fallið verulega í liðinni viku.
Erfitt er að slá nokkru föstu um þessa fylgisþróun eða hvernig henni vindur fram næstu vikur. Miðað við þróun svara milli daga í þessari könnun virðist þó óvarlegt að gera ráð fyrir að það sé farið að hægjast á fylgissókn Höllu Hrundar.
Miðað við fylgisaukningu Höllu Hrundar og mikla lækkun hjá Katrínu, sem fer úr 23,8% niður í 18% á milli vikna, virðist liggja beinast við að líta svo á að Halla sé að taka fylgi frá Katrínu.
Hafa verður þó í huga að töluverð vikmörk eru á fylgi frambjóðenda. Vikmörkin hjá Katrínu eru núna 15,8% til 20,4%, en ef miðað er við efri vikmörk lækkar Katrín um 3,4% á milli þessara mælinga Prósents.
Sé litið til efstu frambjóðenda má stilla því þannig upp að Halla taki mest fylgi frá Katrínu eða 5,8%, 2,2% frá Baldri og 1,4% frá frambjóðendum með minna fylgi.
Þá er freistandi að skýra það með því að í einhverjum mæli taki fólk Höllu Hrund fram yfir Katrínu frekar en aðra frambjóðendur, þar sem það þurfi að velja milli tveggja kvenna sem keppi um fyrsta sætið. Um slíkt er þó ógerningur að segja, í kosningabaráttunni hefur til þessa ekki mikið verið gert úr kynferði frambjóðenda.
Erindi annarra frambjóðenda
Út úr þessum niðurstöðum má lesa fleira en um efstu frambjóðendur, því hinir hafa líka fundið fyrir risi Höllu Hrundar. Þeir voru fæstir með umtalsvert fylgi fyrir, en hafa allir nema Ásdís Rán látið meira undan. Svo mikið að enginn þeirra nær nú 4% fylgi miðað við könnunina. Fylgi þeirra hefur hins vegar frá upphafi verið mjög hóflegt og enginn náð sér á strik til þessa. Þrátt fyrir að enn sé talsvert í kosningar verður að teljast ósennilegt að nokkur þeirra nái að snúa því tafli við svo um muni, þó auðvitað sé ekkert útilokað. Og mögulega verður árangur Höllu Hrundar síðustu vikur til þess að þeim hlaupi kapp í kinn.
Líkt og fram kemur í forsíðufrétt spurði Prósent einnig að því hver frambjóðendanna menn teldu líklegast að bæri sigur úr býtum óháð því hvern þeir sjálfir styddu. Slíkar spurningar hafa verið notaðar víða erlendis til þess að leiða fram „feimið“ fylgi fólks sem vill síður gefa sig upp eða er ekki harðákveðið.
Þær niðurstöður kunna einnig að hafa nokkurt forspárgildi ef fylgi hnappast um 2-3 frambjóðendur og fylgismenn annarra frambjóðenda kunna að leita sér að nýjum frambjóðanda frekar en að kasta atkvæði sínu á glæ ef „þeirra maður“ virðist ekki eiga sér nokkra sigurvon.
Líkt og áður hefur verið drepið á varðandi fylgismælingar af þessu tagi geta þær aldrei verið hárnákvæmar og rétt er að ítreka að þær veita innsýn í afstöðu fólks á þeim tíma sem kannanirnar eru gerðar, en veita ekki forsögn um hvernig kosningar fara eftir margar vikur, enda á dágóður fjöldi eflaust eftir að taka afstöðu eða skipta um skoðun og endanleg ákvörðun er ekki tekin fyrr en í kjörklefanum.
Framkvæmd
Prósent gerði netkönnun frá 23. til 28. apríl 2024. Úrtakið var 2.400 einstaklingar, 18 ára og eldri. 1.245 svör fengust og svarhlutfall var 51,9%.