Jónína Þorsteinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 23. september 1944. Hún lést á Landakoti 11. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Ólafsson, f. 24. júní 1896, d. 13. apríl 1967, og Gíslný Jóhannsdóttir, f. 3. júlí 1911, d. 14. janúar 1993. Jónína var 11. barn foreldra sinna og átti 15 systkini. Þau eru: Jóhanna, f. 25. mars 1930, d. 21. nóv. 2000, Tryggvi, f. 13. maí 1931, Ólafía f. 9. nóv. 1933, d. 8. maí 2014, Trausti, f. 14. febr. 1935, Halla, f. 7. maí 1936, Lilja, f. 28. sept. 1937, Reynir, f. 8. nóv. 1938, Sólveig, f. 26. febr. 1940, Birgir, f. 9. mars 1942, Guðrún, f. 17. maí 1943, Smári, f. 18. mars 1946, Svanur, f. 2. okt. 1947, Sigurvin, f. 5. jan. 1950, d. 10. júlí 1980, Vilborg, f. 22. nóv. 1951 og Sigurbjörg, f. 6. febr. 1953.

Jónína giftist 4. október 1972 Guðjóni Þorbergssyni, f. 19.9. 1941, d. 5.12. 2012. Þeim varð ekki barna auðið.

Útför Jónínu fer fram frá Lindakirkju í dag, 29. apríl 2024, klukkan 13.

Jónína systir mín var fötluð frá fæðingu vegna ágalla á mjaðmarliðum. Hún gekkst undir aðgerð sem barn vegna þessa og hlaut nokkra bót en átti þó erfitt með gang alla ævi og hafði oft miklar þrautir vegna fötlunar sinnar. Jónína varð að verja drjúgum hluta æskuára sinna á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja en komst að lokum heim í hinn stóra systkinahóp á Vesturhúsum og þar ólst hún upp en dvaldi mörg sumur uppvaxtaráranna hjá frændfólki í Dufþaksholti í Rangárþingi. Hún lauk gagnfræðaprófi í Vestmannaeyjum árið 1961 og var á vinnumarkaði upp frá því. Fyrsti fasti vinnustaður Jónínu var Hraðfrystihús Vestmannaeyja þar sem hún vann við fiskverkun þar til hún hélt til Danmerkur árið 1963 en þar dvaldi hún í fimm ár.

Heimkomin eftir Danmerkurdvölina settist Jónína aftur að í Vestmannaeyjum og þar hitti hún Guðjón Þorbergsson, verðandi eiginmann sinn, á sjómannadaginn árið 1968. Þau fóru fljótlega að búa, Jónína og Guðjón, fyrst í Vestmannaeyjum þar sem þau áttu heimili fram til þess að eldgosið í Heimaey hófst 23. janúar 1973. Þau voru meðal þeirra sem ekki fluttu aftur til Eyja eftir gos. Fyrstu árin eftir brottflutninginn þaðan bjuggu þau í Reykjavík en síðan ávallt í Kópavogi.

Fljótlega eftir að þau Jónína og Guðjón voru komin til Reykjavíkur hóf hún störf hjá Heildverslun Halldórs Jónssonar og þar vann hún alla tíð eftir það, í 39 ár. Jónína var handlagin og varði miklum hluta tómstunda sinna við ýmiss konar hannyrðir, þau Guðjón stunduðu einnig stangveiði og skíðagöngu og bæði höfðu þau yndi af dansi sem þau iðkuðu mikið.

Guðjón veiktist af heilabilun og varð algerlega háður umönnun Jónínu síðustu árin. Hún brást honum ekki og þegar svona var komið þótti þeim gott að koma til okkar Þórðar heitins í sumarbústaðinn okkar við Skorradalsvatn. Þar leið þeim báðum vel.

Systursonur Jónínu, Magnús Sigurðsson heitinn, átti athvarf hjá þeim hjónum á unglingsárum. Var mjög kært með þeim Magnúsi og Jónínu alla tíð meðan bæði lifðu og sviplegt andlát Magnúsar fyrir nokkrum árum varð henni mikið áfall en það var raunabót að börn Magnúsar umgengust hana sem ömmu.

Ég kveð nú kæra systur mína. Henni mættu margvíslegir erfiðleikar á æviskeiðinu sem hún lét aldrei buga sig. Guð geymi hana.

Halla
Þorsteinsdóttir.