Laugardalur Anna Björk Kristjánsdóttir, Kristrún Rut Antonsdóttir og Hailey Whitaker í leik Þróttar og Vals á laugardaginn.
Laugardalur Anna Björk Kristjánsdóttir, Kristrún Rut Antonsdóttir og Hailey Whitaker í leik Þróttar og Vals á laugardaginn. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sandra María Jessen, framherjinn reyndi og fyrirliði Þórs/KA, skoraði öll fjögur mörk Akureyrarliðsins þegar það vann stórsigur á FH, 4:0, í annarri umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardaginn

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Sandra María Jessen, framherjinn reyndi og fyrirliði Þórs/KA, skoraði öll fjögur mörk Akureyrarliðsins þegar það vann stórsigur á FH, 4:0, í annarri umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardaginn.

Sandra hefur þar með skorað öll fimm mörk Þórs/KA á tímabilinu og 95 mörk samtals fyrir félagið í deildinni. Þetta er fyrsta fernan sem hún skorar í deildinni en Sandra hefur áður skorað fjórum sinnum þrennu, þá fyrstu árið 2012 og þá síðustu árið 2018.

Amanda Andradóttir var Valskonum áfram dýrmæt. Hún skoraði sigurmarkið í Reykjavíkurslagnum gegn Þrótti í Laugardalnum, 2:1, um miðjan fyrri hálfleik, eftir sendingu Katie Cousins, besta leikmanns vallarins og fyrrverandi Þróttara, og þar við sat.

Nýju bandarísku leikmennirnir hjá Stjörnunni tryggðu liðinu magnaðan sigur í Keflavík eftir að heimakonur voru 2:0 yfir í hálfleik. Hannah Sharts jafnaði með tveimur mörkum í byrjun síðari hálfleiks og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Caitlin Cosme, 3:2, rétt fyrir leikslok.

Breiðablik var lengi í talsverðum vandræðum með Tindastól en skoraði síðan tvívegis undir lokin og vann 3:0 á Kópavogsvelli. Agla María Albertsdóttir lagði upp fyrsta markið og skoraði það þriðja.

Báðir nýliðarnir, Víkingur og Fylkir, eru áfram ósigraðir eftir jafntefli þeirra í Fossvogi, 2:2. Sigdís Eva Bárðardóttir skoraði fyrra mark Víkings og lagði upp það síðara. Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Fylkis, varði vítaspyrnu frá Shainu Ashouri í fyrri hálfleiknum.

Valur og Breiðablik, liðin sem flestir spáðu tveimur efstu sætunum, eru með fullt hús stiga en Keflavík og Tindastóll, sem margir spáðu falli, eru án stiga á botninum.

Höf.: Víðir Sigurðsson