Sádi-Arabía Utanríkisráðherra Bandaríkjanna leggur áherslu á vopnahlé og að forðast útbreiðslu átaka á meðan ótti við innrás Ísraela í Rafah eykst.
Sádi-Arabía Utanríkisráðherra Bandaríkjanna leggur áherslu á vopnahlé og að forðast útbreiðslu átaka á meðan ótti við innrás Ísraela í Rafah eykst. — AFP/Evelyn Hockstein
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hélt til Sádi-Arabíu í gær. Þar mun hann taka þátt í ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF). Bandarísk stjórnvöld binda vonir við að viðræður hefjist á ný um vopnahlé á Gasa með leiðtogum á svæðinu og…

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hélt til Sádi-Arabíu í gær. Þar mun hann taka þátt í ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (WEF).

Bandarísk stjórnvöld binda vonir við að viðræður hefjist á ný um vopnahlé á Gasa með leiðtogum á svæðinu og að komið verði í veg fyrir frekari útbreiðslu átakanna. Joe Biden Bandaríkjaforseti stendur frammi fyrir auknum þrýstingi heima fyrir vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael.

Á ráðstefnu WEF sagði Mahmoud Abbas forseti Palestínu að Bandaríkin væru eina ríkið sem gæti komið í veg fyrir yfirvofandi árás Ísraelshers á Rafah, syðstu borg Gasa, þar sem meira en ein og hálf milljón manna hefur leitað skjóls. Ísraelar hafa gefið til kynna að þeir hyggist halda áfram aðgerðum á jörðu niðri í suðurhluta Rafah.

Yfirvofandi innrás í Rafah

Áætlanir um að ráðast á borgina hafa vakið mikla andstöðu meðal bandamanna Ísraela, þar á meðal Bandaríkjamanna, sem sögðu að innrás myndi valda miklu mannfalli og koma í veg fyrir að hjálpargögn bærust til fólks á svæðinu. Samkvæmt John Kirby, talsmanni Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, hafa stjórnvöld í Ísrael samþykkt að hlusta á ráðleggingar og áhyggjur Bandaríkjamanna áður en ráðist verði á Rafah.

Blinken mun funda með leiðtogum Persaflóaríkja, þar á meðal Katar, sem ásamt Egyptum hafa haft milligöngu í viðræðum um vopnahlé og lausn gísla. Hamas-samtökin hafa gefið út að þau séu með gagntilboð Ísraela um vopnahlé til skoðunar og að þau muni svara tillögunni í dag.

Hamas hafa hingað til krafist varanlegs vopnahlés í viðræðunum, en því skilyrði hafa Ísraelar hafnað. Fréttamiðlar hafa nú greint frá því að gagntilboð Ísraela um vopnahlé feli í sér vilja til að ræða „endurreisn varanlegs friðar“ á Gasa eftir að gíslum hefur verið sleppt.

Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar Ísraels hafa gefið til kynna að þeir séu opnir fyrir því að ræða endalok stríðsins.

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir