Guðbjörg Jónsdóttir (Gulla) fæddist í Hafnarfirði 28. júlí 1931. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 22. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Rósant Jónsson og Hallbera Petrína Hjörleifsdóttir. Bræður hennar voru Kristján og Hjörleifur Hákon.

Eiginmaður Guðbjargar
var Þórarinn Sigurður Þórarinsson, f. 16. maí 1930, d. 20. júlí 2000. Synir þeirra eru: Jón Rósant, f. 26. apríl 1953; Pétur, f. 20. maí 1957, d. 4. ágúst 2021; Sveinþór, f. 15. júlí 1962;
Þórarinn, f. 19. ágúst 1967. Guðbjörg lætur eftir sig átta barnabörn og þrettán barnabarnabörn.

Útför Gullu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 29. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ömmu Gullu uppskrift:

4 bollar ást (hveiti)

3 bollar jákvæðni (sykur)

4 msk. umhyggja (kakó)

4 tsk. þolinmæði (lyftiduft)

2 tsk. húmor (natron)

200 g hjartahlýja (brætt
smjörlíki)

2 stk. bros (egg)

4 bollar útgeislun (mjólk)

Bakað við 175°C í ca. 45 mín.

Krem:

50 g gestrisni (brætt smjörlíki)

2 bollar traust (flórsykur)

1 msk. jafnaðargeð (kakó)

Skreytt með fegurð (marglitað kökuskraut).

Það voru alltaf allir hjartanlega velkomnir heim til ömmu Gullu og oftast var vinsæla skúffukakan hennar á boðstólum. Skúffukaka sem í dag gengur undir nafninu Ömmu Gullu skúffukaka hjá barnabörnum og barnabarnabörnum.

Heimili ömmu einkenndist af mikilli ró og notalegheitum. Þar mátti iðulega heyra Rás 1 í bakgrunni og malið í kaffivélinni á meðan hún lagði kapal eða púslaði. Rólegheitin og jafnaðargeð hennar smitaði út frá sér og hjá henni fundu allir fyrir mikilli vellíðan.

Alltaf var hægt að ræða við ömmu um allt sem manni lá á hjarta, grínast eða spjalla um lífið og tilveruna. Aldrei blöskraði henni umræðuefnið jafnvel þó við sonardæturnar ræddum málefni sem fæstir myndu vilja ræða við ömmu sína. Amma var líka dugleg að segja sögur af sjálfri sér og sínum yngri árum og var ekkert endilega að skafa utan af hlutunum.

Veganestið sem við tökum með okkur frá ömmu út í lífið er jákvætt viðhorf gagnvart lífinu, að vera ekki langrækin eða hafa óþarfa áhyggjur.

Það er með miklum söknuði en hjartað fullt af þakklæti yfir ótal dásamlegum og ljúfum minningum sem við kveðjum ömmu Gullu.

Ragnheiður Sveinþórdóttir,
Þórhildur Sveinþórsdóttir, Sigrún Yrja Klörudóttir, Petrína Rós Borg
Sveinþórsdóttir.

Elsku amma Gulla er fallin frá. Amma mín, sem var svo umhyggjusöm og hlý. Hún hafði einstakt lag á að láta öllum í kringum sig líða vel, hvort sem það var með vingjarnlegu brosi eða hughreystandi faðmlagi.

Ég á ótal margar góðar minningar um ömmu Gullu úr æsku minni. Það var alltaf gott að fara í heimsókn til ömmu í Hafnarfjörðinn, spila við hana og að sjálfsögðu fá eitthvað gott í gogginn. Allra best var þegar amma hafði bakað skúffuköku, enda bakaði hún bestu skúffuköku í heimi og það var ógjörningur að standast þá freistingu. Ég fór alltaf glaður og saddur heim frá ömmu Gullu. Við amma fórum einnig í mörg ferðalög saman og þykir mér afskaplega vænt um þær minningar.

Síðustu árin í lífi ömmu hitti ég hana sjaldnar en ég hefði viljað, enda búsettur erlendis. Ég hlakkaði hins vegar alltaf til að heimsækja ömmu Gullu þegar ég kom til Íslands og jafnvel enn meira eftir að ég eignaðist sjálfur börn. Henni þótti svo vænt um langömmubörnin sín og hafði unun af því að fá að hitta þau og sjá þau vaxa og dafna.

Amma Gulla var einstök kona með hjarta úr gulli og minning hennar mun halda áfram að færa öllum sem þekktu hana hlýju og gleði. Hvíl í friði, elsku amma.

Arnþór Jóhann Jónsson.