Geir Ólafsson fæddist 7. júní 1940. Hann lést 15. apríl 2024.

Geir var sonur hjónanna Hlífar Stefaníu Þórarinsdóttur, f. 1.10. 1911 í Vestmannaeyjum, hárgreiðslukonu, d. 21.8. 1998, og Ólafs Sigurgeirssonar, f. 16.8. 1914, d. 16.8. 1960, skrifstofumanns.

Bræður Geirs eru: Þórarinn, f. 27.10. 1937, maki hans er Marta Bjarnadóttir, f. 7.7. 1944. Börn hans eru Ásdís, Þyrí Ólöf, Kristín, Viðar, Jónína, börn hennar eru Marta Karen og Viktor Ísak Kristjónsbörn, og Eva Guðný. 2) Ragnar, f. 15.2. 1947, maki hans er Matta Rósa Rögnvaldsdóttir, f. 20.3. 1949, börn þeirra eru Ólafur, börn hans eru Ragnar, Magnús Bjartur, Kolbeinn Höður, Melkorka Ýr og Victor Breki, og Ragnheiður Hlíf, börn hennar eru Ólafur Darri og Hákon Orri.

Geir giftist 5.12. 1964 Ingibjörgu Bjarnardóttur, dóttur hjónanna Þórunnar Magnúsdóttur, f. 12.12. 1920, d. 24.12. 2008, sagnfræðings og Björns Guðmundssonar, f. 17.6. 1914, d. 24.7. 1972, bifreiðastjóra. Systkini Ingibjargar eru: Eygló, f. 18.9. 1941, sonur hennar er Björn Loftsson; Erla Bil, f. 12.4. 1947, hennar börn eru Guðröður Ágústsson, Valgerður Guðlaugsdóttir og Magnús Guðlaugsson; Magnús, f. 4.12. 1950, hans börn eru Arna, Helgi, Kristín, Þór og Ingigerður; Guðrún Helgadóttir, f. 9.3. 1959, maki Helgi Þór Thorarensen, börn þeirra Jóhanna og Ólafur Helgi.

Börn Ingibjargar og Geirs eru: 1) Björn, f. 18.8. 1971. Hann lauk lögfræðiprófi frá HÍ árið 2003. Hann er yfirlögfræðingur hjá Fjarskiptastofu. 2) Þórunn, f. 27.12. 1972. Hún lauk prófi sem sýningarstjóri frá Bristol Old Vic Theater School í Englandi árið 1999. Hún hefur unnið við sýningarstjórnun m.a. í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, er skipulags- og sýningarstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Maður hennar er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, f. 3.3. 1966, tónskáld og framkvæmdastjóri SinfoniaNord/Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þeirra börn eru: Herdís Hlíf, f. 26.4. 1999, sambýlismaður hennar er Broddi Gautason, og Rökkvi Týr, f. 29.4. 2004.

Geir lauk stúdentsprófi frá Mennaskólanum í Reykjavík árið 1962 og síðan læknanámi við HÍ 1969. Árið 1972 fluttu þau hjón til Svíþjóðar þar sem Geir stundaði sérfræðinám í skurðlækningum og þvagfæraskurðlækningum. Þau fluttu til Íslands árið 1980 og hóf hann vinnu á Borgarspítalanum sem síðar varð að Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Hann starfaði þar allt til ársins 2013. Ingibjörg útskrifaðist með embættispróf í lögfræði 1987. Að námi loknu stundaði hún lögmannsstörf hjá Lögfræðiþjónustunni en síðan á eigin stofu, Lögsátt. Hún stóð að innleiðingu á sáttameðferð á Íslandi.

Áhugamál Geirs voru einkum ferðalög um byggðir og óbyggðir Íslands sem og til erlendra áfangastaða. Um árabil átti hestamennskan hug hans allan og fór hann í margar hestaferðir svo sem yfir Kjöl á landsmót á Vindheimamela og um Fjallabaksvegi með viðkomu í Hlíð í Skaftártungu þar sem hann hafði miklar tengingar og var í sveit frá 8-16 ára. Geir hélt sambandi við þau systkinin Gauja og Siggu í Hlíð til æviloka þeirra.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Systur minnast mágs síns Geirs Ólafssonar læknis. Geir kom inn í fjölskyldu okkar fyrir um sex áratugum, alla tíð hefur sambandið verið gott. Þar sameinaðist Geir samstilltum fjórum systrum, sem á stundum voru fyrirferðarmiklar að áliti hins hægláta mágs okkar. Þau Ingibjörg systir okkar bjuggu víða, s.s. á Sauðárkróki á kandídatsárum hans, í Reykjavík, Svíþjóð meðan hann stundaði framhaldsnám í læknavísindum, eignuðust tvö börn, tengdason og tvö barnabörn. Öll heimili þeirra hjóna einkenndust af mikilli gestrisni, ekki síst af hálfu Geirs sem vildi bjóða upp á góðan og mikinn mat.

Við nutum þess að ferðast saman erlendis og ekki voru ferðir um landið okkar síður ánægjulegar, við minnumst eftirminnilegrar ferðar upp á Sveinstind og að Langasjó. Vorið 2006 fórum við systkin og makar í eftirminnilega pílagrímsferð um slóðir Ebró á Spáni til að komast í snertingu við sögusvið borgarastríðsins á Spáni, sem faðir okkar systra tók þátt í.

Þau hjónin reistu sér bústað fyrir austan fjall þar sem fjölskyldan á öllum aldri átti margar gæðastundir. Þar kepptumst við systur við að klæða landið skógi af fjölbreyttum trjátegundum. Það var því sorglegt að þau þurftu að selja bústaðinn þegar heilsu systur okkar hrakaði svo mjög. Það var þeim hjónum mikið áfall er þau hugðust hætta störfum og njóta lífsins þegar systir okkar greindist með MND-sjúkdóminn sem dró hana til dauða á tæpum þremur árum. Geir hefur því búið einn síðasta áratuginn. Við systur vorum ánægðar með að Geir flutti ofan úr Grafarholti hingað á Garðatorgið síðustu árin í nálægð við okkur systur, þó við höfum talað meira en góðu hófi gegndi gegnum tíðina, að áliti okkar ágæta mágs.

Nýlega í heimsókn rifjaði Geir upp minningar af fyrstu ferð í sveitina, þegar hann var sendur einn með rútu sjö ára polli austur í Skaftártungu. Þá lá leiðin um Höfðabrekkuheiði og yfir Mýrdalssand sunnan við Hafurey. Að sjálfsögðu var bílstjórinn beðinn fyrir drenginn, þá var ekkert óalgengt að senda börn í sveit. Rútan stoppaði á gatnamótum langt frá bænum sem reyndar sást heim til og bílstjórinn sagði honum bara að bíða, hann yrði sóttur, svo hann settist á töskuna sína. Hann sá traktor keyra á túninu neðan við bæinn og stefna niður afleggjarann á þjóðveginn. Þar stekkur bóndinn úr traktornum og svipast um, ekki eftir drengnum, og segir svo „hvar er varahluturinn?“ sem hann átti von á og hafði þess vegna ekið niður á þjóðveg er hann sá rútuna stoppa. Það hafði víst misfarist að milliliðurinn léti vita af komu drengsins. Síðan var þetta sveitin hans og var gott samband meðan systkinin á bænum lifðu.

Sendum afkomendum og bræðrum hins látna samúðarkveðjur.

Eygló og Bil.

Einhverju sinni varð hjúkrunarfræðingi á slysadeild Borgarspítalans að orði: „Það vildi ég að Geir Ólafsson hefði verið hjartalæknir því hann kemur um leið og maður hringir!“ Sem hluti af harðsnúnu liði skurðlækna á Borgarspítalanum í byrjun níunda áratugarins var hann einn af þeim gæflyndu og var með eindæmum samviskusamur og dagfarsprúður. Hummaði gjarnan fyrir munni sér stef eins og úr gömlum húsgangi og var einhverju sinni spurður hvort tónverkið væri mögulega sellókonsert eftir Shostakovitsj.

Ég kynntist honum fyrst þegar ég kom sem læknanemi á skurðdeild Borgarspítalans en síðar urðum við nánir samstarfsmenn á þvagfæraskurðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur eftir sameiningu Landakots og Borgarspítala. Þegar deildin fluttist svo á Landspítalann upp úr aldamótum þótti Geir nóg að gert í sameiningum og bauðst til að verða eftir og passa húsið! Honum var talið hughvarf og átti síðan mjög farsælan feril á Landspítalanum við Hringbraut þar sem hann sinnti aðallega meðferð nýrnasteina með nýrnasteinbrjótnum. Þar lá áhugasvið hans innan fagsins.

Eðliskostir Geirs komu vel fram við dagleg verkefni sérgreinarinnar. Hann bar með sér kyrrláta festu og traust sem vel voru metin af skjólstæðingum deildarinnar sem og samstarfsfólki. Fylgdist vel með hvað var í gangi hverju sinni. Hægt var að eiga við hann fyrirvaralausar samræður um pólitík, bókmenntir, tónlist og umfram allt hvernig hag deildarinnar væri best borgið í lengd og bráð.

Með þessum orðum fylgja kveðjur kollega í sérgreininni sem þakka ánægjulegt samstarf og góð viðkynni í gegnum árin. Hans verður minnst þegar góðs er getið.

Eiríkur
Jónsson.