Besta deildin
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Íslands- og bikarmeistarar Víkings hefja Íslandsmótið á sömu nótum og í fyrra og eru með fullt hús stig eftir fjórar umferðir.
Þeir lögðu KA að velli allörugglega í Fossvogi í gær, 4:2, og hóta því nú að stinga af á sama hátt og á síðasta ári þegar þeir unnu fyrstu níu leikina og komu í veg fyrir alla spennu í baráttunni um meistaratitilinn.
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö markanna, það fyrra úr frekar ódýrri vítaspyrnu. Ari Sigurpálsson krækti í hana og lagði líka upp þriðja markið fyrir Aron Elís Þrándarson rétt fyrir hlé.
KA situr eftir með aðeins eitt stig við botninn og hefur þegar leikið þrjá heimaleiki á tímabilinu.
Þrjú mörk undir lokin
Breiðablik eltir Víking og vann sinn þriðja sigur á grasinu á Meistaravöllum í gærkvöld, 3:2 gegn KR, þar sem fyrsta markið kom eftir klukkutíma og þrjú mörk voru skoruð á dramatískum lokakafla.
Annað mark Blika var umdeilt en aðstoðardómari var viss um að boltinn hefði farið inn fyrir marklínuna eftir skot Viktors Arnar Margeirssonar.
Jason Daði Svanþórsson skoraði lykilmarkið þegar hann kom Blikum í 3:1 með því að hirða boltann af Guy Smit markverði KR utan vítateigs.
Glæsimark Loga á Akranesi
FH er líka komið með þrjá sigra í fjórum leikjum, eftir ósigur í fyrstu umferðinni, og lagði Skagamenn í Akraneshöllinni, 2:1.
Logi Hrafn Róbertsson skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti snemma í síðari hálfleiknum en áður hafði Kjartan Kári Halldórsson skoraði fyrra mark FH úr aukaspyrnu af 30 metra færi.
Viktor Jónsson skoraði mark ÍA og er kominn með fimm mörk í fyrstu fjórum umferðunum.
Vestri með sex stig
Vestri vann annan leikinn í röð, 1:0 gegn HK, í fyrsta „heimaleiknum“ sem leikinn var í Laugardalnum í Reykjavík. Benedikt V. Warén skoraði sigurmarkið úr skyndisókn 20 mínútum fyrir leikslok.
Vestramenn eru því komnir með sex stig án þess að hafa enn spilað á heimavelli sínum á Ísafirði og geta verið ágætlega sáttir við byrjun sína á mótinu.
Staða HK er hins vegar strax orðin slæm en Kópavogsliðið hefur ekki skorað síðan í fyrri hálfleik í fyrstu umferðinni og spár um erfiða botnbaráttu liðsins í ár virðast ætla að ganga eftir.