Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Best væri fyrir sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs að leggja enn meiri áherslu á að framkvæmdum við nýja Lagarfljótsbrú verði flýtt.

Guðmundur Karl Jónsson

Síðustu 40 árin hafa verið til umræðu hugmyndir um uppbyggðan hálendisveg milli Reykjavíkur og Akureyrar sem tryggir aldrei öruggar vetrarsamgöngur á snjóþungu og illviðrasömu svæði í meira en 800 m hæð. Útilokað er að fámenn sveitarfélög á landsbyggðinni geti ein og sér staðið undir kostnaðinum við rándýr samgöngumannvirki með innheimtu veggjalds á hvern bíl.

Á þessu ári bendir allt til að enn erfiðara verði fyrir íslenska ríkið að útvega fjármagn til að standa undir kostnaðinum við lagfæringar á hringveginum og samfelldan snjómokstur í meira en 500 m hæð, sem fjárveitingarvaldið og Vegagerðin forðast eins og heitan eld. Skynsamlegra væri fyrir sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs að brjóta fyrst odd af oflæti sínu og afskrifa endanlega hugmynd sína um uppbyggðan veg yfir Sprengisand alla leið til Reykjavíkur, eftir að eldgos í norðanverðum Vatnajökli komst í fréttirnar seint á árinu 2013.

Þá grípa náttúruöflin inn í án þess að gera boð á undan sér og taka strax ráðin af stuðningsmönnum hálendisvegarins, þegar allar tilraunir til að fjármagna þessa einkaframkvæmd með vegtolli á snjóþungum og illviðrasömum svæðum renna út í sandinn. Fljótlega sitja þeir uppi með skömmina þegar það sannast að meðalumferð ökutækja á sólarhring um Sprengisand verður aldrei jafnmikil og í Hvalfjarðargöngum. Þá sýna allir fjölmiðlar fram á misheppnaða tilraun til að fjármagna þetta samgöngumannvirki með vegtolli á eldvirku svæði norðan Vatnajökuls þegar ný sveitarstjórn í Múlaþingi reiknar vitlaust.

Þingmenn Norðvestur- og Norðausturkjördæmis sem taka þennan veg fram yfir jarðgöng skulu búast við því að illt verði að eiga við Vegagerðina og fjárveitingarvaldið eftir að Alþingi samþykkti fyrir tíu árum þingsályktunartillögu um að hraða undirbúningsrannsóknum á gangagerð milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Til þess að samgöngumál Austfirðinga komist í viðunandi ástand skal Alþingi samþykkja nýja vegaáætlun, sem yrði aðgengilegri en sú eldri fyrir alla landsbyggðina. Fullvíst þykir að hugmyndin um einkaframkvæmd á Sprengisandi verði dæmd dauð og ómerk á meðan enginn veit hvað hættuástandið norðan Vatnajökuls stendur lengi. Þar er uppbyggður vegur vitlaus framkvæmd sem menn munu iðrast síðar meir.

Það segir ekkert að Sprengisandur verði alla vetrarmánuðina í 900 m hæð snjóléttari og enn minni samgönguhindrun en vegirnir beggja vegna Oddsskarðsins og á Fjarðarheiði. Til eru of margir landsbyggðarþingmenn sem sigla undir fölsku flaggi og halda að veggjald á hvern bíl standi undir fjármögnun Sprengisandsvegar á jafnlöngum tíma og Hvalfjarðargöngin.

Best væri fyrir sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs að leggja enn meiri áherslu á að framkvæmdum við nýja Lagarfljótsbrú verði flýtt vegna slysahættunnar á gömlu brúnni sem er alltof mikil. Við þessu vandamáli verða ríkisstjórnin og þingmenn Norðausturkjördæmis að bregðast hið snarasta eins og kjósendur þeirra ætlast til.

Í stað þess að vekja falskar vonir Austfirðinga um rekstur einkaframkvæmdar á eldvirku svæði norðan Vatnajökuls skal sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs berjast fyrir því að viðkomustaður Norrænu fái öruggari vegasamgöngur við byggðirnar norðan Fagradals vegna fiskflutninganna sem eyðileggja veginn á Fjarðarheiði. Of mikið illviðri í 640 m hæð á þessum snjóþunga farartálma kemur í veg fyrir að Seyðfirðingar geti treyst á sjúkraflugið, sem Héraðsbúar hafa greiðari aðgang að.

Ég spyr: Þykir sveitarstjóra Fljótsdalshéraðs það sjálfsagt að þungaflutningarnir eyðileggi fljótlega vegtenginguna milli Egilsstaða og Fellabæjar á meðan engin ákvörðun liggur fyrir um að flýta framkvæmdum við nýja Lagarfljótsbrú sem þolir enga bið? Næsta skref er að ljúka rannsóknum og öðrum undirbúningi fyrir veggöng sem tengja viðkomustað ferjunnar og sjúkrahúsið í Neskaupstað betur við allt svæðið norðan Fagradals. Án jarðganga milli Norðfjarðar og Héraðs, sem eru ekki í sjónmáli, verður óhjákvæmilegt að senda barnshafandi konur með sjúkraflugvél frá Egilsstaðaflugvelli til Akureyrar eða Reykjavíkur, án þess að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng séu í sjónmáli. Afskrifum Sprengisandsveg endanlega.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmundur Karl Jónsson