Örn Gunnlaugsson
Fylltu þig, borð er heiti á gömlu erlendu ævintýri sem ég las á barnsaldri. Það segir frá því að þegar eigandinn varð svangur þá setti hann töfraborðið sitt upp og sagði einfaldlega: Fylltu þig, borð! Og umsvifalaust fylltist borðið af alls kyns kræsingum. Þótt ég sé nú kominn á sjötugsaldur þá á þetta ævintýri sér ljóslifandi skírskotun í íslensku samfélagi. Pólitíkusar okkar daga virðast a.m.k. flestallir líta á skattgreiðendur sem svona töfraborð, ég segi pólitíkusar í virðingarskyni við þá örfáu stjórnmálamenn sem við höfum átt í gegnum okkar sjálfstæðistíma. Ávallt þegar pólitíkusum okkar dettur eitthvert dekurverkefnið í hug, sama hve vitlaust það er, þá kalla þeir: Fylltu þig, borð! Og um leið hugsa þeir: Það er nóg til og meira frammi, og umsvifalaust hækka álögur á skattgreiðendur. Þetta er jú fólk sem við kjósendur höfum kosið yfir okkur aftur og aftur og erum því ekki alveg saklaus af því að pólitíkusarnir okkar hegða sér eins og versti götulýður. Eða hvað, er eitthvað annað í boði? Nei, það er bara val um hvernig spillingu við kjósum og hver á að sitja að kjötkötlunum.
Þegar ég var yngri mætti ég fullur eldmóðs á kjörstað og kaus í samræmi við þau loforð sem frambjóðendur gáfu í aðdraganda kosninga. Þessi eldmóður eltist fljótt af mér þar sem mér varð smátt og smátt ljóst að allir frambjóðendur fóru ávallt fram með blekkingum og lygum og töldu sér alls óskylt að efna þau loforð sem þeir höfðu gefið kjósendum fyrir kosningar, og víst er svo enn. Í síðustu kosningum hef ég valið með útilokunaraðferðinni og kosið þá sem ég tel minnst vonda en enginn kosturinn er í raun ákjósanlegur. Að skila auðu kemur hins vegar þeim til góða sem ég síst vil að njóti brautargengis. Siðferðisvitund pólitíkusa okkar tíma er ekki meiri en svo að þeir vanvirða langflestir það umboð sem kjósendur veita þeim. Umboðið er nefnilega háð þeim loforðum sem frambjóðendur hafa gefið kjósendum. Frambjóðendur sem hljóta brautargengi kjósa hins vegar flestir að túlka þetta umboð sem fullt og ótakmarkað til alls kyns dekurverkefna og jafnvel til að pönkast á umbjóðendum sínum. Þá eiga frambjóðendur til að skipta um hest í miðri á eftir kosningar og láta þá umbjóðendur sína lönd og leið. Ragnar Reykás bara mættur í öllu sínu veldi.
Ekki er nema öld síðan við fengum sjálfstæði frá Dönum en þó erum við á góðri leið með að glutra því niður með algjörum sóðaskap og þarf ekki einu sinni ESB til. Hingað er mokað stjórnlaust inn útlendingum af stærðargráðu sem á engan sinn líka í nágrannalöndunum með ærnum tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Skítt með hvers eðlis þessir innflytjendur eru, hvort þeir hafi áhuga á að læra okkar tungumál og samlagast okkar samfélagi eða hvort þeir hyggist flytja inn með sér sína siði og menningu, sem stendur okkur í mörgum tilfellum öldum að baki. Á sama tíma vex svarta hagkerfið sem aldrei fyrr og glæpum fer fjölgandi. Viðskipti í verslunum þar sem greitt er fyrir stór óskráð viðskipti í reiðufé ber óyggjandi vitni um slíkt. Þá er ekki settur varnagli við að vísa megi þessu fólki úr landi fremji það glæpi eða sé byrði á þjóðfélaginu til lengri tíma. Á sama tíma eru innviðir samfélagsins í molum og ekki útlit fyrir að þeir muni batna á næstunni, jafnvel þótt töfraborðið góða verði kallað til.
Nei, pólitíkusarnir okkar og æðstu embættismenn síðustu ára eru arfaslakir og hafa farið afar illa með umboð sem kjósendur hafa veitt þeim. Kannski væri rétt að árangurstengja launagreiðslur til þeirra og spara skattgreiðendum þannig stórfé.
Nú eru forsetakosningar í nánd og hafa um 80 manns talið sig þann útvalda til þess embættis. Næðu þeir allir að safna tilskildum meðmælum væri raunveruleg hætta á því að sá forseti sem sæti á Bessastöðum næsta kjörtímabil skildi ekki íslensku. Forsætisráðherrann síðasti sagði af sér þingmennsku til að taka slaginn. Hún barði sér á brjóst og afþakkaði biðlaun fram að kosningum. Hvers vegna ætti hún að eiga rétt á biðlaunum fyrir að ákveða sjálf að stökkva af skútunni? Ekki rekur mig minni til að almennir launamenn fái eitthvað aukreitis við vinnuframlag sitt kjósi þeir að stinga af, reyndar voru menn hýrudregnir fyrir slíkt hér áður fyrr. Það þótti merki um yfirvofandi skipskaða hér áður ef pelsklædd kvikindi sáust flýja í land en það eru jú skynugar skepnur með afbrigðum.
Ef við horfum til þess fjölda forsetaframbjóðenda sem ná mun tilskildum meðmælendafjölda þá er hlutskipti kjósenda í komandi forsetakosningum jafn ömurlegt og það hefur verið í alþingiskosningum mjög lengi. Kjósandinn verður að líta fram hjá því hver honum hugnast best og velja þann sem er vel þekktur í þjóðfélaginu og nýtur mikils fylgis samkvæmt skoðanakönnunum og er minnst líklegur til að verða landi og þjóð til skammar. Hvers vegna? Jú vegna þess að kerfið er meingallað og sé atkvæðið veitt lítt þekktum aðila sem við vitum fyrir fram að á ekki möguleika getur slíkt orðið til að þjóðin sitji uppi með algjöran trúð á Bessastöðum. Kjósandinn situr samt alltaf uppi með Svarta-Pétur, sama hvað.
Höfundur er fyrrverandi atvinnurekandi.