Ragnhildur Sigríður Eggertsdóttir fæddist í Tjarnargötu 30 í Reykjavík 9. mars 1939. Hún lést í Reykjavík 18. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Ragnhildur Ólöf Gottskálksdóttir læknamiðill, f. 11. mars 1903 á Syðstu-Görðum í Kolbeinsstaðasókn á Snæfellsnesi, d. 27. desember 1979 í Reykjavík, og Eggert Ólafsson lýsismatsmaður konungs, f. 5. febrúar 1896 á Litlaskarði í Stafholtssókn í Mýrasýslu, d. 26. júní 1968 í Reykjavík. Þau áttu sex börn og bjuggu lengst af í Tjarnargötu 30, Ragnhildur var yngst þeirra barna. Systkini hennar voru Sesselja Svana, Ólafur, Elínbjörg Hulda, Kjartan Þórir og Gottskálk Þorsteinn.

Ragnhildur lætur eftir sig fjögur uppkomin börn með fyrrverandi eiginmanni sínum Birgi Sigurjónssyni, f. 19. febrúar 1938; Hildu Gerd, f. 6. september 1956, Birgi Örn, f. 4. júlí 1959, Ragnhildi Sigríði, f. 21. júlí 1960, og Eggert Sigurjón, f. 2. ágúst 1972.

Ragnhildur ólst upp í Tjarnargötunni og gekk í Miðbæjarskólann og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún varð stúdent frá öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og BA í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún var í Samtökum um kvennalista og sat tímabundið á þingi sem varaþingmaður Kvennalistans, var í framboði fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði, sat í ritstjórn kvennablaðsins Veru, stofnaði samtökin Friðarömmur ásamt öðrum ömmum hér á landi og rak eigið fyrirtæki með fyrrverandi eiginmanni sínum og starfaði síðar meðal annars á skrifstofu Sálarrannsóknarfélagsins.

Hinsta kveðja fór fram í kyrrþey í Bænhúsi Fossvogskirkju.

Elsku mamma, Ragnhildur Sigríður Eggertsdóttir, lést í Reykjavík 18. mars sl. rúmri viku eftir 85 ára afmælið sitt eftir snarpa og stranga baráttu við elli kerlingu. Mamma var miðbæingur og fæddist við Tjörnina í Reykjavík í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Hún bjó nánast alla sína tíð í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur en bjó þó um tíma í Hafnarfirði.

Litla, fallega stelpan með bláu augun og ljósu lokkana var yngsta barn og yndi foreldra sinna sem hún elskaði og dáði alla tíð. Amma Ragnhildur var læknamiðill og Eggert afi var lýsismatsmaður. Þau voru duglegt fólk sem flutti til Reykjavíkur úr Borgarfirði í upphafi 20. aldar. Eggert afi braust úr mikilli fátækt, gerðist athafnamaður og efnaðist. Amma og afi keyptu sér einbýlishús í Tjarnargötu og þar fæddist mamma og eldri börnin hennar þrjú einnig. Húsið var sannkallað fjölskylduhús með mikla sögu.

Fallega, blíða og káta mamma. Alltaf sætust og fínust, hvar sem hún kom. Rétt rúmlega tvítug hafði hún gift sig og eignast þrjú börn, fjórða og yngsta barnið fæddist þegar mamma var rúmlega þrítug. Mamma elskaði okkur eins og allar mömmur elska börnin sín en hún var sjálf ung og hún var óendanlega blíð og kát. Mamma hafði ríka réttlætiskennd og stóð alltaf með lítilmagnanum og börnum alls staðar. Hún var sjálfstæð og dugleg og lét til sín taka í jafnréttisbaráttunni og lagði sannarlega sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri baráttu á níunda áratug síðustu aldar. Hún trúði á mátt menntunarinnar og meðfram heimilishaldi og annarri vinnu tók hún stúdentspróf frá Öldungadeildinni og síðan BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Nú er hún farin og við grípum í tómt. Söknuðurinn og minningarnar hellast yfir okkur og innilegt þakklæti til hennar sem gaf okkur lífið og studdi okkur alla tíð.

Hvíl í friði, elsku mamma.

Hilda Gerd Birgisdóttir,
Birgir Örn Birgisson.

Áskær mamma mín kvaddi þessa jarðvist 18. mars 2024 og er nú komin til foreldra sinna Ragnhildar og Eggerts. Mamma var fædd og uppalin í Tjarnargötu 30. Hennar nánasta og kærasta umhverfi var Tjörnin og miðbærinn og síðar vesturbærinn. Þar lék hún sér, í stóra garðinum við stóra húsið þeirra og niður við Tjörn með öndunum og öðrum dýrum sem voru þar á ferðinni, fyrir utan húsið sjálft sem var ævintýraheimur með sínum mörgum skúmaskotum, háalofti, geymslum og skápum, búri, stigagöngum og vaskahúsi. Þegar mamma fæddist voru foreldrar hennar Ragnhildur 36 ára og Eggert 43 ára og 5 ár á milli hennar og Gotta bróður hennar sem var næstur henni í systkinaröðinni. Hún var litla barnið og allan uppvöxt sinn upplifði hún afar sérstakt andrúmsloft heima í Tjarnargötunni. Amma mín Ragnhildur var afar trúuð og miðilshæfileikar hennar voru miklir og starf hennar sem Ragnhildur læknamiðill í Tjarnargötunni var stór þáttur í uppvexti mömmu. Gestagangur var mikill á heimilinu vegna þessara hæfileika hennar og á þessum tíma voru vinnukonur á heimili þeirra sem léttu undir með heimilisverkunum. Eggert afi minn var lýsismatsmaður og embættismaður konungs, það varð hans ævistarf. Mamma eins og við barnabörnin seinna meir ólumst upp við að mega skreppa með honum í bíltúra svo hann gæti sinnt sínu gæðamati og tekið stöðuna í lýsisframleiðslunni úti á Granda og að ekki mætti trufla ömmu þegar fólk leitaði lækninga til hennar. Þau áttu VW-bjöllu, þá voru engin öryggisbelti og sjálfsagt að reykja með alla glugga lokaða. Mamma minntist oft bílferða með foreldrum sínum m.a. til Borgarness og á Mýrarnar þar sem þeirra rætur lágu. Hún varð alltaf bílveik í þessum ferðum sem von var.

Mamma var ung þegar hún kynntist Birgi pabba mínum og þau giftu sig 17 ára og 18 ára með undanþágu frá forseta. Þegar mamma var 21 árs var hún orðin þriggja barna móðir. Kannski var það ekki óalgengt á þessum tíma en hún minntist þess oft að þegar hún var ófrísk að mér sumarið 1960 var bróðir minn í vagninum og systir okkar þriggja ára leiddi vagninn. Það var ekki laust við að horft væri eftir henni gangandi niður við Tjörn og Austurstrætið.

Fjölskyldulífið tók yfir en mamma beið færis til að mennta sig, það var henni mjög mikilvægt og hún fann sína hillu í heimspeki við Háskóla Íslands.

Þegar ég var komin til vits og ára áttum við mamma margar stundirnar í eldhúsinu. Ég er af þeirri kynslóð sem ólst upp við heitan mat á hverju kvöldi, fiskur eða kjöt alla daga vikunnar og læri eða hryggur á sunnudögum þrátt fyrir fullan vinnudag foreldra minna. Mamma sá alltaf til þess að ég fengi uppáhaldsmatinn minn, heimagerðar fiskibollur úr fiskhakki eða djúpsteikta ýsu og franskar við heimkomu eftir utanlandsferðir mínar.

Mamma var alltaf minn trúnaðarvinur í blíðu sem stríðu og leikhús-, kaffihúsa- og bókabúðafélagi svo eitthvað sé upptalið.

Elsku mamma, ég sakna þess að eiga ekki fleiri löngu símtölin og stundirnar með þér, en nú mun minning þín lifa með okkur börnum og afkomendum þínum.

Þín Dilla,

Ragnhildur Sigríður
Birgisdóttir.

Ransý frænka er látin. Hún kom í heiminn 9. mars á níu ára afmælisdegi Ellu systur sinnar sem var móðir mín. Þrátt fyrir aldursmuninn urðu þær nánar einkum eftir að Dedda sem var elst fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Ransý var þá ellefu ára. Þessar fallegu og hjartahlýju systur áttu stundum erfiðan uppvöxt hvað sem leið efnahag foreldranna. Því olli áfengisneysla á heimilinu sem hefur jafnan reynst svikul sárabót fyrir íslenska fátækt og sorgir í bernsku.

Ransý varð móðir sautján ára, aðeins ári á eftir Ellu sem ólíkt henni hafði haft tíma til að dveljast sem „au pair“ í Michigan, BNA, og ljúka hjúkrunarnámi hér heima. Ella giftist hálfdönskum manni frá Ísafirði, Ransý hálfnorskum af Melunum. Næstu fjögur árin fæddu þær tvö börn til viðbótar hvor, Ransý alltaf einu ári á eftir Ellu. Um tíma bjó Ransý inni á Ellu á Melabrautinni, tvenn hjón með sex smábörn á 120 fm. Ransý var að byggja á lóðinni fyrir neðan. Þar við hliðina var Gotti bróðir þeirra sem nú er einn á lífi af þeim systkinum. Eggert faðir þeirra sem var vélstjóri og lýsismatsmaður átti lóðir á Nesinu frá því hann bræddi þar lýsi. Minnugur eigin fátæktar í bernsku hjálpaði hann krökkunum að eignast húsnæði. Frú Ragnhildur og hann bjuggu í Tjarnargötu 30, reisulegu steinhúsi sem keypt var fyrir prósentur af gæðaflokkuðu lýsi til Bandaríkjanna. Á hverjum degi voru systurnar niðri í Tjarnargötu með börnin.

Óhamingjan líkt og seiddi þær til sín og Ella tók sig óvænt upp af Nesinu og flutti í kjallaraíbúðina þar sem Ransý hafði verið. Hálfkláruðu einbýlishúsi Ransýjar var skipt út fyrir blokkaríbúð á Fálkagötunni. Ella flutti í blokk í Álfheimum fáum árum síðar og þaðan í funkishús við Lækinn í Hafnarfirði sem var eins og ódýr eftirlíking af húsi foreldranna. Fljótlega var Ransý komin í Fjörðinn líka. Við frændsystkinin nutum umhyggju móður og móðursystur og nýttum tækifærin sem nálægðin veitti til að leika okkur saman. Ella ánetjaðist lyfjum á næturvöktum á Sólvangi, missti svefn og dómgreind. Ransý sýndi styrk sinn og fékk systur sína lagða inn sem bætti líf okkar bræðra um tíma. Á ýmsu gekk áður en mömmu tókst að hætta með hjálp AA-samtakanna og aðhaldi systur sinnar. Fráskilin flutti hún í Þingholtin á meðan Ransý bjó áfram í Hafnarfirði og eignaðist fjórða barnið. Ég var þá í Flensborg og fór stundum í mat til frænku eftir skóla. Hún gaf sér tíma til að spjalla við systursoninn og kímið bros hennar lýsti alltaf upp myrkrið í unglingssál minni. Seinna þegar ég var kominn aftur frá námi og hún í Háskólanum gafst okkur næði til að ræða frekar saman en nú oftast um kenningar og fræði. Þá bjó Ransý fráskilin í Þingholtunum ekki langt frá systur sinni. Þarna voru þær lengst af síðan hvor út af fyrir sig þungamiðja sinnar fjölskyldu. Ella dó fyrir níu árum skömmu áður en hún varð 85 ára en Ransý níu dögum eftir sinn 85 ára afmælisdag 9. mars, þeirra sameiginlega dag. Blessuð sé minning hennar og þeirra beggja og innilegar samúðarkveðjur til frændsystkina minna og fjölskyldna þeirra.

Gottskálk.

Elsku hjartans amma mín, Ragnhildur Sigríður Eggertsdóttir, er látin. Nú reyni ég að sleppa takinu og leyfa minningum og þakklæti að milda sorgina.

Ég var ekki gömul þegar ég ákvað að ég myndi vilja skrifa minningargrein um ömmu. Mér fannst hún eiga það skilið að vera þakkað fyrir hversu vel hún reyndist mér. Amma var bandamaður minn í blíðu og stríðu. Alltaf og alveg sama hvað. Enda hændist ég að henni og upplifði fullkomið öryggi, traust, nánd og virðingu á báða bóga. Amma dæmdi aldrei og var alltaf tilbúin að sýna skilyrðislausa ást.

Við amma fylgdumst lengi að. Hún var bara 17 ára þegar mamma mín fæddist og bara tæplega 41 árs þegar ég kom í heiminn. Ég var fyrsta barnabarnið hennar og amma og afi sýndu mér einstaka natni og blíðu og voru eins og sköpuð í ömmu- og afahlutverkin.

Æskan mín er samofin ömmu og afa. Alltaf höfðu þau tíma fyrir mig og alltaf upplifði ég að ég væri innilega velkomin. Þau bjuggu í stóru raðhúsi við fallega götu í Hafnarfirði, Lækjarhvammi. Þarna bjuggu margir krakkar og í minningunni var alltaf gott veður. Allt í kringum ömmu og afa var í mínum augum eitt stórt ævintýri. Húsið sjálft var glæsilegt og vel búið. Amma og afi sjálf svo falleg, vel klædd og töfrandi. Afi með bílskúrinn fullan af alls kyns verkefnum og hesthús stutt frá. Stutt fyrir utan bæinn var svo sælureiturinn við Selvatn. Afi byggði öll hús sjálfur og gat allt. Sjálfsöruggur og vinsæll. Amma svo heillandi í öllum sínum hlutverkum. Fullkomin í mínum augum.

Amma mín var yngst sex systkina og alin upp í Tjarnargötu 30. Foreldra sína elskaði hún og dáði. Langamma, Ragnhildur Gottskálksdóttir, var eftirsóttur læknamiðill og mikið um að vera á heimili ömmu vegna þess. Snemma tileinkaði ég mér þá trú að langamma verndaði okkur að handan og nú gerir amma það líka. Amma fann sterkt fyrir návist foreldra sinna og þau voru partur af hennar lífi alla tíð. Amma verður líka hjá mér áfram.

Í ömmu blundaði þrá um að mennta sig og láta að sér kveða. Amma tók stúdentspróf og lauk BA-prófi í heimspeki við HÍ. Henni var umhugað um réttindi kvenna og barna og það var upplifun að fylgjast með henni á þeim vettvangi. Amma var í Kvennalistanum og tók sæti á Alþingi. Hún starfaði hjá tímaritinu Veru og var í Friðarömmunum. Amma var miðbæjarkona sem las heimspeki og bókmenntir og réð krossgátur. Þvílík fyrirmynd.

Ég ætla að enda þetta á minningabrotum: Við amma erum saman í Lækjarhvamminum á fallegum degi og staddar í algjöru tímaleysi að njóta samverunnar. Amma gantast við mig og hlær dillandi hlátri. Hún syngur svo þetta lag, kitlar nefið mitt og við hlæjum:

Lækur tifar létt um máða steina.

Lítil fjóla grær við skriðufót.

Bláskel liggur brotin milli hleina.

Í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga,

ég inn um gluggann þreytti flugið mitt,

og þó ég ei til annars mætti duga,

ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

(Sigfús Halldórsson/
Sigurður Elíasson)

Takk amma mín fyrir þá ómetanlegu gjöf sem þú gafst með allri þinni ást.

Ragnhildur Sesselja
Georgsdóttir.

Elsku amma, tengdaamma og langamma Ransý. Það er erfitt að gera sér grein fyrir að þú sért farin. Þú varst alltaf tilbúin að taka á móti okkur barnabörnum þínum. Þú varst ekki bara amma okkar heldur besti vinur líka. Að hafa þig hefur verið okkur svo sjálfsagt, þú hefur verið svo lengi með okkur að einhvern veginn gerðum við bara ráð fyrir að þú yrðir alltaf til staðar. Undir það síðasta vorum við mjög tengd þér, þú upplifðir okkur hjá þér hvað eftir annað þó svo við værum hvergi nærri. Þetta voru mjög sérstakir tímar þar sem þú hafðir áhyggjur af okkur heima hjá þér þó svo við værum þar ekki. Held að þetta segi mikið um þig sjálfa gagnvart okkur barnabörnunum. Sem ungt fólk skutlaðir þú okkur eða sóttir, sama hvaða tíma sólarhrings það var, einnig í vinnu eða heim úr vinnu. Þegar við vorum komin með bílpróf var minnsta mál hjá þér að lána bílinn. Ef okkur vantaði húsaskjól var það aldrei vandamál. Öll fengum við lykla hjá þér til að eiga afdrep ef við þurftum. Eitt af því sem var þér svo hjartfólgið var að fara með okkur á bókasafnið og í bókabúðir þegar við vorum ung og síðar meir á kaffihús eða út að borða. Þér fannst alltaf besta gjöfin að gefa bók og hafðir sannarlega áhrif á bókaáhuga okkar og hve miklu máli þær skipta í uppeldinu. Nú þegar við barnabörnin sem erum orðin foreldrar eigum þetta að veganesti er þetta eitt af því sem fylgir í okkar uppeldi gagnvart langömmubörnum þínum. Mikil ósköp hvað þetta voru og eru miklar gæðastundir og mikilvægar í samveru litlu barnabarna þinna. Auðvitað gátum við gengið nærri þér með okkar bernskubrekum eða misbrestum en þú varst alltaf til staðar okkur til stuðnings. Nú reynir á okkur sjálf að leiða barnabörnin þín gegnum lífið, vernda þau og styrkja. Sjálf verðum við að standa á eigin fótum án þín og treysta á okkar foreldra að bera vit og gæfu þeirra fyrir brjósti. Þú munt verða okkar leiðarljós hvað þetta varðar elsku amma. Elsku amma takk fyrir þína umhyggjusömu aðkomu í okkar lífi og við erum viss um að þú fylgist grannt með okkur öllum, með okkur og þínum langömmubörnum á því tilverusviði sem þú ert nú á. Við systkinin söknum þín en vitum líka að þinn tími hér á jörðu var orðinn þér erfiður og við erum frelsi þínu fegin þótt vissulega fylgi einnig tregi. Þú varst komin á þann stað sem þér fannst erfiður og gekk þér nærri og kannski var eiginlega eigingirni í okkur að gera allt sem hægt var til að halda þér alltaf aðeins lengur.

Elsku amma Ransý, minning þín mun lifa með okkur.

Þín barnabörn, tengdabörn og litlu langömmu -hildarstelpurnar þínar,

Guðný, Þórður og Kári,
Geir og Sylvía Rós
og Ragnhildur Helga,
Matthildur Thea og
Brynhildur Fjóla.