Njarðvík og Keflavík eru með undirtökin í undanúrslitaeinvígjunum á Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik eftir sigra í fyrstu leikjunum um helgina.
Njarðvík lagði Grindavík í miklum spennuleik í Smáranum í Kópavogi í gærkvöld, 83:79. Sveiflurnar voru ótrúlegar en Njarðvík komst yfir undir lokin, 79:76, með ellefu stigum í röð og hélt forskotinu eftir það.
Selena Lott skoraði 30 stig fyrir Njarðvík og átti 11 stoðsendingar en Danielle Rodriguez skoraði 28 stig fyrir Grindvíkinga.
Keflavík vann heimasigur á Stjörnunni á laugardaginn, 93:65, þar sem Daniella Wallen skoraði 27 stig fyrir Keflavík, Birna Benónýsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir 20 hvor. Denia Davis-Stewart skoraði 16 stig fyrir Stjörnuna.
Leikir númer tvö fara fram á miðvikudag og fimmtudag.