Pálmi V. Jónsson
Pálmi V. Jónsson
Líkamleg hreyfing er hornsteinn heilbrigðrar elli, bæði með því að lengja líf og bæta lífsgæði.

Pálmi V. Jónsson

Í fyrri greinum hef ég fjallað um sjúkdóma ellinnar, tilurð þeirra og þróun, ásamt með þeim fjölmörgu tækifærum í útfærslu þjónustunnar sem enn eru vannýtt til þess að bæta lífsgæði á skilvirkan og hagkvæman hátt. Hér skal ítrekað að forvarnir eru grundvallaratriði og bent á það hversu víða þær koma inn frá upphafi lífs og allt til loka. Áhugi á forvörnum getur þó ekki yfirskyggt þá staðreynd að einn góðan veðurdag láta sjúkdómar til sín taka. Valið stendur ekki milli forvarna og meðferða sjúkdóma. Hvort tveggja krefst ýtrustu athygli.

Ellin er óumflýjanlegt líffræðilegt ferli sem einkennist af hægfara hnignun líkamlegrar og vitrænnar getu, sem leiðir til viðkvæmni fyrir sjúkdómum, færnitapi og andláti. Elliferlið einkennist af uppsöfnun skemmda í frumum, vefjum og líffærum. Engu að síður er hægt að draga verulega úr áhrifum ellinnar með fyrirbyggjandi aðgerðum. Forvarnir gagnvart ellinni fela í sér fjölbreyttar aðgerðir og inngrip sem geta seinkað því að aldurstengdir sjúkdómar komi fram, viðhaldið heilsu og vellíðan á efri árum og lengt líftíma. Samband forvarna og ellinnar er flókið og samofið erfða-, umhverfis- og lífsstílsþáttum.

Forvarnir með tilliti til ellinnar byrja með góðu atlæti foreldra og öflugri mæðra- og ungbarnavernd. Sýnt var fram á í öldrunarrannsókn Hjartaverndar að börn sem fæddust létt glímdu frekar við vitræna skerðingu á efstu árum en þau sem fæddust þyngri. En rannsóknin sýndi einnig að börnin sem fæddust létt viðhéldu vitrænni getu á efstu árum ef þau nutu menntunar. Aðgengi að menntun, námi í tónlist og þátttaka í íþróttum, sem hæfir hverjum og einum, er ein mikilvægasta forvörnin gegn heilsubresti síðar á ævinni. Vert er að minna á íslenska forvarnarverkefnið gegn tóbaks- og áfengisneyslu ungmenna, sem hefur skilað gríðarlegum árangri. Því þarf að viðhalda frá ári til árs og ef til vill mætti útvíkka það, til dæmis gagnvart yfirþyngd og skjánotkun. Börn og ungmenni sem glíma við geðrænan vanda þurfa greiningu og meðferð og stuðning án tafa. Árangur sem næst í æsku skilar sér upp á efstu ár.

Nokkrir líffræðilegir lykilferlar liggja til grundvallar öldrunarferlinu, þar á meðal stytting telómera, oxunarálag og frumuöldrun. Telómerur eru hlífðarhettur á endum litninga sem styttast við hverja frumuskiptingu. Að lokum verða þær of stuttar, sem veldur því að frumur eldast og hætta að skipta sér. Oxunarálag á sér stað þegar ójafnvægi er á milli sindurefna og andoxunarefna í líkamanum. Með tímanum getur þetta ójafnvægi skaðað frumur og vefi, stuðlað að ellibreytingum og þróun sjúkdóma. Elliærar frumur eru frumur sem hafa hætt að skipta sér en deyja ekki. Þær safnast fyrir í vefjum og seyta skaðlegum efnum sem valda bólgu og skemma nærliggjandi frumur og stuðla þannig að skertri starfsemi líffæra.

Erfðaefni einstaklingsins gegnir án efa mikilvægu hlutverki við að ákvarða líftíma og næmi fyrir aldurstengdum sjúkdómum. Ekkert eitt gen hefur enn fundist sem kalla mætti langlífisgen. Hins vegar getur erfðabreytileiki í fáeinum genum haft mikil áhrif.

Til dæmis hefur breytileiki í FOXO3-geninu verið tengdur við aukinn líftíma hjá mönnum.

FOXO-genin eru í lykilstýrihlutverki við að þýða umhverfisáreiti frá insúlíni, vaxtaþáttum, næringu og oxunarálagi og virkja gen sem veita mótstöðu við slíku áreiti, en í því felst vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af gerð tvö, krabbameinum og taugahrörnunarsjúkdómum.

Neikvætt umhverfi og neikvætt lífsstílsval spilar á móti þeirri erfðafræðilegu tilhneigingu sem við berum og hefur áhrif á það hvernig við eldumst. Hins vegar geta jákvæðir umhverfis- og lífsstílsþættir, eins og næringarríkt mataræði, regluleg hreyfing, það að forðast reykingar, seinkað hrörnunarferli ellinnar og lengt ævilíkur, óháð erfðafræðilegri tilhneigingu einstaklingsins.

Orðtakið „Þú ert það sem þú borðar“ á sérstaklega vel við ellina. Yfirvegað, næringarríkt mataræði er grunnur að því að koma í veg fyrir aldurstengda sjúkdóma og viðhalda almennri heilsu. Matvæli sem eru rík af andoxunarefnum, eins og ávextir, grænmeti, hnetur og heilkorn, geta hjálpað til við að berjast gegn oxunarálagi. Omega-3 fitusýrur sem finnast í feitum fiski, valhnetum og hörfræjum draga úr bólgu, sem tengist mörgum langvinnum sjúkdómum. Flestar rannsóknir benda til jákvæðs ávinnings af aukinni próteininntöku umfram það sem yngra fólk neytir, eða 1,5-2,0 g/kg/dag. Eldri vöðvar svara ekki því próteinmagni sem yngra fólk neytir en með því að neyta aukinna próteina yfirvinnst þessi tregða sem leiðir til framleiðslu á vöðvapróteinum og bælingar á niðurbroti vöðvapróteina.

Líkamleg hreyfing er hornsteinn heilbrigðrar elli, bæði með því að lengja líf og bæta lífsgæði. Hreyfing dregur úr hættu á langvinnum sjúkdómum, eins og hjartasjúkdómum, sykursýki og krabbameini, og hefur einnig mjög jákvæð áhrif á líðan. Þegar vöðvafrumur draga sig saman seyta þær smápróteinum sem hafa áhrif á eigin frumu og nálægar frumur til örvunar og vaxtar en einnig hormónlík áhrif með því að virkja viðtæki í fjarlægum vefjum: heila, fituvef, beinum, lifur, görn, brisi, æðaþeli og húð. Áhrifin á heila eru einkar áhugaverð og virka eins og þunglyndislyf. Þau bæta andlega líðan og hreyfigetu, auðvelda lærdóm og vernda gegn taugahrörnun. Það er því ekki að undra að heilsugæslulæknar bjóði nú upp á hreyfiseðla fremur en lyf í ýmsum tilvikum. Lykiltegundir þjálfunar eru styrktar- og þolæfingar ásamt með liðleika- og jafnvægisæfingum. Fólk gerir vel í því að flétta hreyfingu inn í daglega lífið sem má fylgja eftir með markvissri líkamsrækt, helst þrisvar í viku.

Margir upplifa minnkuð svefngæði með aldri en góður svefn er öllum einn mikilvægasti þátturinn til viðhalds heilsu. Slakur svefn tengist aukinni hættu á langvinnum sjúkdómum, yfirþyngd og þunglyndi. Um eða yfir þriðjung ævinnar sofum við og á efri árum er svefnþörfin enn 7 til 8 klukkustundir. Þriðja stig svefns af fjórum er kallað hægbylgjusvefn, út frá heilalínuriti, og er endurnærandi svefn. Á þessu svefnstigi losar heilinn sig við niðurbrotsefni heilastarfsemi liðins dag og undirbýr sig undir næsta dag. Þá stuðlar þetta svefnstig einnig að stjórn ónæmiskerfisins, minnisstyrkingu, tilfinningalegri úrvinnslu og innsærri hugsun. Samræmi í svefn- og vökutíma hjálpar til við að stjórna innri klukku líkamans og bæta svefngæði og rólegt, dimmt og svalt svefnherbergi stuðlar að bættum svefni. Örvandi drykkir og áfengi trufla svefn en hugleiðsla getur aukið svefngæði með því að draga úr streitu og kvíða.

Geðheilbrigði og félagsleg tengsl gegna mikilvægu hlutverki í öldrunarferlinu og hafa áhrif á langlífi og lífsgæði. Þunglyndi, kvíði og vitræn skerðing er algengt áhyggjuefni eldra fólks. Reglubundin hreyfing og líkamsrækt, ástundun áhugamála og ögrandi hugræn verkefni eru fyrirbyggjandi. Áföll og ofbeldi, hvort heldur er í nánum samböndum, tilfallandi eða á stríðstímum, hafa djúpstæð áhrif. Ég minnist þriggja kvenna sem ég kynntist. Í blóma lífsins í seinni heimsstyrjöldinni voru þær hnepptar í fangabúðir. Þær litu ekki glaðan dag eftir það og á tíræðisaldri upplifðu þær hörmungarnar daglega eins og þær hefðu gerst í gær.

Félagsleg einangrun og einmanaleiki er skaðlegur heilsu eldra fólks og jafngildir því að reykja allt að 15 sígarettur á dag. Þátttaka í samfélaginu, sjálfboðaliðastarfi og viðhald náinna fjölskyldu- og vinatengsla bætir andlega og líkamlega heilsu og stuðlar að lengra og innihaldsríkara lífi.

Heilbrigðisþjónustan leggur til forvarna eldra fólks. Skimun fyrir hækkuðum blóðþrýstingi, hækkuðu kólesteróli, sykursýki, gáttatifi, beinþynningu og völdum krabbameinum, einkum legháls-, brjósta- og ristilkrabbameinum, hefur sannað sig á ákveðnum tímabilum ævinnar.

Tíðni og tegund skimunar fyrir öðrum heilsufarsvanda getur verið háð fjölskyldusögu og lífsstíl. Að líkindum munu erfðarannsóknir leggja mikið til málanna á næstu árum og áratugum. Bólusetningar gegn inflúensu, lungnabólgubakteríunni, covid- og RS-veiru og ristli eru mikilvægar fyrir eldra fólk, þar sem það er í aukinni hættu á fylgikvillum. Að viðhalda bólusetningum frá ári til árs er lykilráðstöfun.

Sameiginlegt átak einstaklinga, heilbrigðisstarfsmanna og samfélaga er nauðsynlegt til að stuðla að heilbrigði á efri árum og gera eldra fólki kleift að lifa fullnægjandi, virku lífi.

Fólk er farið að eldast þegar það hættir að hugsa um framtíðina. Fólk er ungt í anda þegar það lætur sig dreyma, langa og hlakka til.

Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands.

Höf.: Pálmi V. Jónsson