Margrét Þorvaldsdóttir fæddist 23. september 1928. Hún lést 7. apríl 2024.
Útför Margrétar fór fram 19. apríl 2024.
Á lífsins göngu kynnist maður mörgum og ólíkum einstaklingum sem hafa mismunandi áhrif á líf og lífsskoðun manns. Margrét Þorvaldsdóttir, sem nú er kvödd hinstu kveðju, hafði með bjartsýni sinni, þrautseigju og jákvæðu hugarfari djúp áhrif á mín lífsviðhorf. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Margréti þegar ég gekk í Soroptimistaklúbb Kópavogs árið 1991, en klúbburinn var stofnaður 1975 og var Margrét ein af stofnendum hans. En hún og aðrir stofnendur klúbbsins voru hvatamenn þess að Sunnuhlíðarsamtökin voru stofnuð.
Á þessum tíma voru íbúar Kópavogs um 13 þúsund og þar af voru um 500 Kópavogsbúar 67 ára og eldri og um 30 þeirra lágu heima í brýnni þörf fyrir að komast á öldrunarheimili. Ekkert hjúkrunarrými var fyrir aldraða í bænum og ekkert sjúkrahús. Þegar Sjúkrasamlag Kópavogs réð tvo hjúkrunarfræðinga til að sinna heimahjúkrun snemma á sjöunda áratugnum voru Margrét Þorvaldsdóttir og Erna Aradóttir ráðnar, en þær voru báðar í Soroptimistaklúbbi Kópavogs. Þær unnu síðan lengi hjá Kópavogsbæ, fyrst hjá sjúkrasamlaginu og síðar Heilsugæslunni eftir að hún kom til.
Þessir tveir hjúkrunarfræðingar, Margrét og Erna, ásamt sjúkraliða og forstöðumanni, reyndu eftir bestu getu að sinna þessum öldruðu einstaklingum í bænum. Félagsmálastofnun Kópvogs hafði tveggja herberja íbúð í Neðstutröð 4 til umráða þar sem fimm aldraðir einstaklingar gátu fengið hvíldarinnlögn í stuttan tíma.
Öldrunarmál í Kópavogi voru því oft til umræðu á fundum Soroptimista og segja má að það hafi verið upphafið að stofnun Sunnuhlíðarsamtakanna því árið 1978 sendi stjórn Soroptimistaklúbbs Kópavogs bréf til nokkurra félagasamtaka í bænum þar sem boðið var til fundar til að ræða málefni aldraðra í Kópvogi. Boltinn fór þá að rúlla og ári síðar eða árið 1979 var skipulagsskrá fyrir Sunnuhlíð samþykkt. Árið 1980 var fyrsta skóflustungan að hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð tekin og tveimur árum síðar flutti fyrsti vistmaðurinn inn. Stjórnir og félagsmenn í þessum félögum, sem stóðu að byggingu Sunnuhlíðar, eiga mikið hrós skilið fyrir dugnað og framsýna hugsun. Árið 1986 var samþykkt í fulltrúaráði Sunnuhlíðar að byggja 36 þjónustuíbúðir fyrir aldraða á lóð fyrir vestan hjúkrunarheimilið.
Þeim Soroptimistasystrum sem ýttu þessu merka verkefni úr vör og fengu til liðs við sig félagasamtök í Kópavogi ásamt þeim fjölmörgu Kópavogsbúum sem lögðu fjármuni til verkefnisins verður seint þakkað eða metið til fulls.
Við verðum ævarandi þakklát hinni hjartahlýju og umhyggjusögu Margréti og öðrum systrum, sem þekktu málefni aldraðra í Kópavogi vel og komu þeim á framfæri innan klúbbsins sem varð til þess að stórvirki var unnið þegar hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð var byggt.
Ég kveð Margréti með söknuði og mun ætíð minnast hennar með þakklæti og virðingu.
Ég votta fjölskyldu hennar og öðrum ástvinum hennar mína dýpstu samúð og bið Guð að gefa ykkur styrk og stuðning í sorg ykkar.
Sigurrós Þorgrímsdóttir, Soroptimisti og ritari í stjórn Sunnuhlíðar-
samtakanna.