Íraksþing hefur samþykkt lagafrumvarp sem felur í sér allt að 15 ára fangelsisrefsingu fyrir samkynja sambönd. Trans fólk getur einnig búist við allt að þriggja ára fangelsi samkvæmt nýjum lögum.
Stuðningsmenn breytinganna segja lögin hjálpa til við að viðhalda trúarlegum gildum í landinu. Mannréttindasamtök hafa lýst yfir áhyggjum sínum og segja lögin þunga atlögu að mannréttindum. Samkvæmt fyrri drögum frumvarpsins átti samkynhneigð að vera refsiverð með dauðadómi. Þessu var hins vegar breytt eftir mikla andstöðu frá Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum.
Hinsegin einstaklingar hafa lengi verið skotmörk yfirvalda í Írak og hafa önnur siðferðislög verið notuð til að refsa hópnum.