Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Sorpa þarf að kaupa um 100 nýja grenndargáma til að geta tekið við söfnun á textíl á grenndarstöðvum hinn 1. júní næstkomandi. Kostnaður við kaup á gámum nemur um 16 milljónum króna. Auk þess þarf að kaupa sérhæfða pressu til að pakka textíl í gáma til útflutnings og kostar hún um 15 milljónir króna. Þá þarf að kaupa skynjara á um tvær milljónir króna. Alls nemur kostnaður við þessa innleiðingu um 33 milljónum króna auk virðisaukaskatts.
Eftir breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs á síðasta ári bera sveitarfélög ábyrgð á söfnun og meðhöndlun á textíl. Hingað til hafa mannúðarsamtök safnað textíl á höfuðborgarsvæðinu, ýmist á grenndarstöðvum eða öðrum svæðum. Áætlað er að um 2.100 tonn af textíl falli til á höfuðborgarsvæðinu í ár, að því er fram hefur komið í kynningu í stjórn Sorpu. Með því að taka við umræddri söfnun er stefnan að Sorpa geti aukið aðgengi ýmissa aðila á borð við listaháskóla, nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla að textíl. „Samhliða því mun Sorpa hefja útflutning á textíl til ábyrgrar afsetningar hjá erlendum samstarfsaðilum,“ segir í kynningunni.
Þar segir að gert hafi verið ráð fyrir tæplega 40 milljóna króna kostnaði við söfnunina í áætlunum endurvinnslustöðva í ár. Nú sé hins vegar búist við að kostnaður á síðari hluta ársins verði um 15 milljónum hærri en áður var áætlað. Ekki sé þó þörf á að endurskoða rekstrar- eða fjárfestingaráætlanir Sorpu. „Áætlaður móttöku- og vinnslukostnaður í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu við móttöku og útflutning á textílnum er áætlaður 25-30 krónur á kíló. Tekjur af útflutningnum kunna hins vegar að skila sambærilegum tekjum, og því ekki gert ráð fyrir kostnaði við þennan hluta verkefnisins í ár,“ segir í kynningu.