Lilja Sigurgeirsdóttir fæddist 16. september 1929. Hún lést 30. mars 2024. Lilja var jarðsungin 20. apríl 2024.

Góða nótt, og láttu þér líða vel. Þannig kvaddi mamma mig alltaf þegar við höfðum átt okkar daglega símtal. Stundum aðeins nokkrar mínútur, stundum klukkutíma. Allt eftir því hvernig við vorum upplögð þann daginn.

Núna þegar við höfum átt okkar síðasta símtal er svo margs að minnast. Ferðirnar sem við fórum með þeim pabba út í félög, eins og það var kallað þegar erindast þurfti á Hvolsvöll og Hellu.

Reykjavíkurferðirnar, þegar við vorum í nokkra daga á Háveginum hjá Bóel og Hermanni.

Einnig er mér mjög minnisstæð ferðin sem var farin í ágúst 1974, þegar okkur eldri systkinunum og sumarbörnunum var skellt í Land Roverinn og svo var haldið í útilegu austur á Höfn í Hornafirði og Djúpavog yfir Lónsheiði í svartaþoku.

Mamma vann alltaf mikið utan heimilis megnið af sínum búskaparárum, þá aðallega í mötuneytum, lengst af í Skógaskóla og einnig á Hótel Eddu í Skógum. Ógleymanlegur er mér sá tími sem hún var ráðskona við Sultartanga og við systkinin fengum að skiptast á að vera með henni þar.

Það var mikið ævintýri í framandi umhverfi inni í óbyggðum.

Hún var þó alltaf húsmóðir fyrst og fremst og mikil fjölskyldukona. Henni leið best umvafin afkomendunum og gera vel við alla í mat og drykk. Það var ekki óalgengt að vakna við ilminn af nýbökuðum flatkökum eða pönnukökum snemma morguns, en hún gerði heimsins bestu flatkökur. Pönnukökurnar hennar voru líka á heimsmælikvarða, svo ljúffengar og svo þunnar að lesa mátti í gegnum þær. Þannig voru þær bestar, upprúllaðar með sykri.

Það var alla tíð mjög gestkvæmt í Dalnum og er mér í fersku minni hversu þétt var setið í eldhúsinu oft á sumrin, þegar vinir og ættingjar komu í heimsókn. Þá var oft glatt á hjalla, mikið skrafað og skeggrætt. Við krakkarnir sátum á gólfinu og hlustuðum á sögurnar.

Þau eru ófá sumarbörnin sem hafa verið hjá mömmu og pabba í gegnum tíðina og stór hluti þeirra haldið mikilli tryggð við þau og staðinn.

Mamma var mikil félagsvera, tók virkan þátt í félagslífinu í sveitinni, bæði í kvenfélagi og ungmennafélagi, og lét til sín taka þar. Henni var mjög annt um sveitina sína og sagði sína meiningu umbúðalaust ef þess þurfti.

Henni var sérlega umhugað um að Seljavallalaug og Dagsbrúnarhúsið fengju þann sess sem þeim bæri.

Mamma þurfti helst alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Og einstaklega handlagin og vandvirk. Það eru ófáar prjónapeysur, sokkar, vettlingar og húfur sem eftir hana liggja. Föndri alls konar hafði hún líka mjög gaman af, og eru til margir fallegir hlutir sem hún hefur búið til í gegnum tíðina.

Elsku mamma, nú skilur leiðir um stund. Ég trúi því að pabbi og barnabörnin þín tvö hafi tekið á móti þér.

Elsku mamma, góða nótt og láttu þér líða vel.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þökkum kærleika og elsku,

þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu,

okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var

og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

(GS)

Sigurgeir
Líndal.