Skoskir jafnaðarmenn halda áfram að hækka skatta

Hér var á dögunum vísað í viðtal Morgunblaðsins við leikarann Michael Caine sem þar hafði vikið að skattamálum. Hann rifjaði upp þegar jafnaðarmenn komust í stjórn og hækkuðu hátekjuskattinn upp úr öllu valdi, sem hefði orðið til þess að hátekjufólkið flutti úr landi. Og hann bætti því við að afleiðingarnar hefðu verið að fyrsta árið eftir þetta hefði ríkisstjórn jafnaðarmanna halað inn „einar lægstu skatttekjur nokkru sinni“.

Þessi orð leikarans, sem er svo lítið gefinn fyrir skattpíningu, rifjast upp nú þegar niðurstöður nýrrar skýrslu bresku ríkisstjórnarinnar um breytingar á skattheimtu hafa verið kynntar.

Stjórn Nicola Sturgeon, sem hraktist úr embætti fyrsta ráðherra Skotlands fyrir rúmu ári, hafði á árunum 2018-19 hækkað skatta á Skota með þeim afleiðingum, að því er segir í skýrslunni, að rúmlega eitt þúsund hátekjumenn fluttu suður og varð Skotland við þetta af tugmilljóna skatttekjum það ár.

Skattbreytingarnar fólu í sér að fjölga skattþrepum úr þremur í fimm og hækka tvö af fyrri þrepum að auki. Fyrr í þessum mánuði tóku svo gildi enn frekari breytingar og hækkanir í boði skoskra jafnaðarmanna og þurfa Skotar nú að þola sex skattþrep en aðrir Bretar þrjú. Þá er búið að hækka efsta þrepið þannig að í Skotlandi er það komið í 48%, þremur prósentum meira en á Englandi, sem þó verða seint talin afsláttarkjör.

Þá njóta um 500.000 Skotar þess einnig að lægri viðmiðunarmörk tekna í skattþrepum valda því að skattgreiðslur þeirra hækka við nýgerðar breytingar.

Telegraph greinir frá því að stjórnendur fyrirtækja hafi varað við því að þessi mikli munur sem orðinn sé á skattgreiðslum í Skotlandi og annars staðar á Bretlandi geri það að verkum að erfitt sé orðið að fá til starfa hæfa starfsmenn í Skotlandi eða halda í þá sem fyrir eru. Og skoski skugga-fjármálaráðherra Íhaldsflokksins bendir á að þessi öfugi hvati sem fyrirtæki í Skotlandi búi við muni halda aftur af hagvexti og þar með getunni til að standa undir opinberri þjónustu.

Hér á landi er einn tekjuskattur ríkisins um allt land, en við hann bætist útsvar sveitarfélaganna sem breytir myndinni lítillega, en þó allt of lítið. Langflest sveitarfélög halda útsvari í lögleyfðu hámarki og virðast sveitarstjórnarmenn lítinn áhuga hafa á að laða til sín þá skattgreiðendur sem kunna að meta lægri álögur. Einstaka sveitarfélag gerir þetta þó og nýtur þess gjarnan í hærri skatttekjum á mann þrátt fyrir lægra skatthlutfall.

Meginsjónarmiðið á bak við skatta hlýtur þó að verða að vera að hið opinbera taki til sín eins lítið og það kemst af með. Hér á árum áður gættu sveitarfélög, sem stýrt var af hægrimönnum, þess að halda sköttum eins lágum og frekast var leyfilegt enda sjálfsagt að virða það grundvallarsjónarmið að taka ekki meira skattfé af fólki en brýna nauðsyn ber til. Hið opinbera á ekki að reyna að hámarka tekjur sínar heldur að hámarka velferð almennings og almenna hagsæld.

Svo vel vill til að þetta fer almennt saman við það sjónarmið að afla hinu opinbera hærri tekna, því að hófleg skattheimta verður almennt til þess að örva atvinnulíf og auka hagvöxt. Sömuleiðis verður ólík skattheimta á sveitarstjórnarstiginu til að þeir sem hærri tekjur hafa sækja frekar í þau sveitarfélög sem gæta hófs sem verður til þess að þau njóta hárra tekna þrátt fyrir að bjóða lægri skatthlutföll.

Jafnaðarmenn í Skotlandi, líkt og jafnaðarmenn hér á landi og víðar, eru uppteknari af því að skipta kökunni en að baka hana. Hugsunin á bak við það er ekki slæm, en afleiðingarnar eru það engu að síður. Hærri skattar draga úr þrótti efnahagslífsins og þar með úr velferð allra. Það kemur ekki alltaf fram strax og reyndar yfirleitt ekki fyrr en að mörgum árum liðnum, því að skattgreiðendur þurfa oft tíma til að bregðast við. En það má treysta því að þeir gera það fyrr eða síðar, því að þó að skattgreiðendur sætti sig við að skattheimta er nauðsynleg þá sýnir reynslan að enginn er sáttur við skattpíningu, nema sumir þegar aðrir eiga í hlut.