Guðmundur Ingi Ingason fæddist 2. október 1956. Hann lést 14. apríl 2024. Útför hans fór fram 26. apríl 2024.
Þann 14. apríl sl. hringdi Hafsteinn vinur okkar í mig og tjáði mér að Gummi æskuvinur hefði látist á gjörgæslu LSH síðdegis þann dag. Þetta voru daprar fréttir að heyra, að annar af bestu æskuvinum mínum væri nú fallinn frá.
Við Gummi lékum okkur saman frá barnæsku og vorum tengdir djúpri vináttu fram á síðustu stundu. Við félagarnir fórum í hjólreiðartúra en Gummi átti forláta DBS-reiðhjól eins og voru vinsæl þá. Á unglingsárunum stofnuðum við TK, Talstöðvaklúbb Kópavogs, en höfuðstöðvar hans voru í skúr á Skjólbraut 11. Gummi vildi gera klúbbinn að hjálparsveit, áttum við að finna dúkku sem var falin en skipt var upp í leitarhópa. Átti hinn hópurinn að láta vita af sér með því að skjóta upp flugeldum.
Gummi var mjög eljusamur, alltaf að starfa og baksa eitthvað. Hann eignaðist Volkswagen-bjöllu, reyndar áður en hann var búinn að fá bílprófið, sem var hans fyrsti bíll. Gummi fór í að kaupa tjónabíla og þurfti Kjartan afi hans stundum að hlaupa í skarðið við lagfæringar, en Gummi var ekki alltaf sá vandvirkasti í heimi en það varð að duga. Gummi var útsjónarsamur í að útvega sér hluti á hagstæðu verði.
Gummi byrjaði 19 ára í lögreglunni en þar áður vann hann á bensínstöðinni á Kópavogshálsi en ég fór í HÍ og lagði stund á verkfræði. Gummi var mikill matgæðingur. Eitt skipti þegar hann var seinn fyrir í mötuneyti lögreglunnar þá snýr sér lögreglumaður að honum og segir: „Gummi, hvað myndirðu gera ef ég væri að keyra bíl og það væri einhver alltaf að drekka í gengum mig?“ Gummi svaraði að bragði: „Já, ég þekki þetta vandamál því það er alltaf einhver að borða í genum mig.“
Í september 2022 fórum við félagarnir Hafsteinn, Atli, ég og Gummi til Tenerife í vikuferð. Þetta var mjög eftirminnileg og skemmtileg ferð. Áttum við þar góðar stundir saman. Eitt skipti vildi Gummi vildi frekar koma með mér og fara til Santa Cruz og skoða plötubúð og kaupa plötur.
Gummi átti fallegt heimili með Björk konu sinni í Hveragerði. Við kynntumst því þegar hann bauð okkur vinunum í 65 ára afmælið sitt. Þetta var falleg og vegleg móttaka hjá þeim hjónum.
Gummi var gull af manni, hjartahlýr og alltaf tilbúinn til að aðstoða vini sína. Hann var tilfinninganæmur og tók það mjög nærri sér þegar vinir hans veiktust alvarlega. Okkar síðustu samskipti voru þegar Gummi sendi mér SMS um kvöldið laugardaginn 13. apríl eftir að ég hafði hringt í hann um hádegisbilið: „Sæll vinur minn, get ekki tekið símann, er á spítala. Reyni að hringja á morgun. MBK Gummi.“ Ég sendi um hæl til baka: „Sæll Gummi minn, ég bara vona að þú sért í góðum höndum. Bið Guð um að styrkja þig kæri vinur. Batakveðjur Konni.“ Þetta sýnir greinilega hvað það getur verið stutt milli lífs og dauða.
Að lokum vil ég votta Björk konu Gumma, sonum hans Kjartani og Halldóri ásamt systkinum hans og öllum aðstandendum mína innilegustu samúð um leið og ég þakka Gumma fyrir þá yndislegu vináttu sem hann veitti mér í gegnum tíðina. Gummi mun ávallt eiga stórt pláss í hjarta mínu.
Hans-Konrad Kristjánsson.
Það fylgdi því mikil gleði þegar hann Gummi kom inn í líf Bjarkar vinkonu okkar. Hann auðgaði líf hennar með ást og umhyggju, því ástfangin voru þau alveg upp fyrir haus til síðasta dags.
Við fundum það fljótt þegar hann kom inn í hópinn okkar að þar var réttur maður á réttum stað. Við hittumst við ýmsar aðstæður, fórum saman í útilegur og fleiri ferðir, öll saman eða í minni hópum. Hann var mikill sóldýrkandi og í brúnkukeppni við okkur hin vann hann alltaf.
Fljótlega stofnuðum við matarklúbb enda öll með mikinn áhuga á lystisemdum lífsins og góðum mat. Í einum slíkum klúbbi barst tal drengjanna að bjúgum og ást þeirra á þeim þjóðlega rétti. Þá komust þeir að því að eiginkonurnar áttu það sameiginlegt að vera lítt hrifnar af bjúgunum svo þeir stofnuðu sérstakan matarklúbb áhugamanna um bjúgnaveislur. Þeir hittust nokkrum sinnum á ári og Gummi sá alltaf um að gera jafning af sinni alkunnu natni. Bjúgnaklúbburinn var drengjunum öllum mikils virði og hann efldi vináttu þeirra þar sem Gummi hélt þeim við gleðiefnið. Bjúgnaklúbburinn var líka góður vettvangur fyrir annað sameiginlegt áhugamál þeirra sem eru bílar af öllum stærðum og gerðum.
Gummi var mikill húmoristi og gerði mikið en góðlátlegt grín að okkur og ekki síður að sjálfum sér. Hann sneri flestu upp í grín, var hnyttinn og skemmtilegur og gamansögur mundi hann og sagði frá af mikilli list. Það var alltaf gleði og gaman þar sem Gummi var.
Hann hafði yndi af tónlist og var mikill söngmaður með fallega tenórrödd, brast í söng af litlu tilefni og naut þess að þenja raddböndin. Mest fannst honum þó gaman að syngja í Lögreglukórnum sínum og var afskaplega stoltur af honum.
Gummi var mjög góðhjartaður en líka hjálpsamur með afbrigðum. Hann var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd enda afskaplega umhyggjusamur fyrir velferð sinna nánustu og annars samferðafólks. Hann auðgaði líf allra sem kynntust honum og var afskaplega vinamargur. Það eru margir sem hann snerti með gleði sinni og góðmennsku og því eru margir sem sakna hans sárt.
Hann var stoltur eiginmaður, pabbi og afi og góður vinur vina sinna. Hann var duglegur og afkastamikill og þau Björk gerðu margt saman á þeim stutta tíma sem þeim var gefinn. Eftir að þau fluttu í Hveragerði sást vel hvað þau voru samtaka og bæði með græna fingur. Þau unnu hörðum en glöðum höndum að því að gera garðinn sinn og húsið fallegt enda fengu þau verðlaun fyrir fallegasta garðinn í bænum í fyrra. Það var alltaf margt að gerast hjá þeim hjónum og stundirnar yndislegar. Minningarnar eru því margar og góðar.
Elsku Björk, Kjartan, Halldór, Birna, Ingi Þór og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Söknuðurinn er mikill en minningar um góðan dreng lifa.
Ásta Júlía og Ágúst,
Elísabet (Lísa) og
Jóhann,Lilja
og Ívar Agnar.