Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Áform um að tekin verði upp rafræn borgarkort fyrir snjallsíma sem veiti fólki aðgang að margvíslegri þjónustu Reykjavíkurborgar eru vel á veg komin og er undirbúningur í gangi. Einnig eru uppi hugmyndir hjá borginni um mannlausa sólarhringsopnun bókasafna utan hefðbundins opnunartíma og að nýta til þess stafrænar lausnir en þær eru þó enn á frumstigi. Skúli Helgason, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs borgarinnar, á von á að tímalína fyrir innleiðingu rafræna kortsins skýrist í sumar.
Fulltrúar menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs kynntu framtíðarsýn sviðsins í stafrænum málum og þjónustuumbætur á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs í seinustu viku. Þar kom fram að forprófanir eru fyrirhugaðar á rafræna borgarkortinu sem íbúar geti fengið í snjallveski símans og muni veita í fyrsta fasa aðgengi að sundlaugum, ylströndinni, fjölskyldu- og húsdýragarðinum og að söfnum borgarinnar á borð við Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafnið.
„Við höfum lengi haft áhuga á að koma rafræna borgarkortinu í gagnið til hægðarauka fyrir borgarbúa, að vera með stafræna lausn þannig að menn þurfi ekki að vera að sveifla plastkortum í sundlaugum eða menningarstofnunum borgarinnar, heldur geti nýtt sér nýjustu tækni. Þetta er eitt þeirra verkefna sem við getum flokkað undir stafræna umbreytingu og er það í mjög góðum og skýrum farvegi. Við vonumst eftir því að það verði komin niðurstaða í þetta á allra næstu mánuðum,“ segir Skúli. „Menn eru búnir að koma auga á ákveðnar lausnir sem líta vel út og gætu hentað en það þarf að álagsprófa þær svo öruggt sé að þær gangi upp með þeim gagnagrunnum sem borgin vinnur með, með greiðslukerfum og svo framvegis,“ bætir hann við.
Að sögn Skúla fylgja þessu ýmsir spennandi möguleikar á þjónustu við íbúa sem eru með rafræna borgarkortið í símanum. „Þá býður þetta m.a. upp á að vera með tilboð þannig að þeir sem eru fastagestir njóti þess í verðlagningunni í meiri mæli en gert hefur verið,“ segir hann. Unnt verði að koma á samtengingu á milli þjónustuþátta svo þeir korthafar sem fara t.d. bæði í sundlaugarnar og á listasöfnin geti notið þess í verði. „Það er því líka ákveðin vöruþróunarhugmynd á bak við þetta,“ segir hann.
Spurður um hugmyndina um mannlausa sólarhringsopnun bókasafna segir Skúli að hún sé á byrjunarreit en hún yrði liður í að auka þjónustu við notendur bókasafna í borginni. Á fundi ráðsins var menningar- og íþróttasviði falið að leggja fram tillögu að útfærslu á þessu verkefni þar sem því verði við komið. Settur verður á fót starfshópur með fulltrúum menningar- og íþróttasviðs og þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sem á að skila af sér tillögum fyrir lok þessa árs.
Spurður segir Skúli að mannlaus sólarhringsopnun bókasafna eigi ekki að leiða til fækkunar starfsfólks heldur sé þarna eingöngu um viðbót að ræða við hefðbundinn opnunartíma bókasafna. Einnig þurfi að tryggja að öllum öryggiskröfum verði mætt. Ýmsar áhugaverðar hugmyndir hafi komið fram t.d. um að kennarar gætu farið með nemendahópa á bókasafn í fyrstu tímum skóladagsins áður en söfnin eru opnuð.
„Við nálgumst yfirleitt svona ný verkefni með það í huga að skynsamlegt sé að byrja með tilraunaverkefni á einum stað og útvíkka það svo ef reynslan er góð. Það væri t.d. mjög nærtækt að byrja í Úlfarsárdalnum, þar sem við erum nú þegar komin með samstarf á milli bókasafnsins og sundlaugarinnar og ákveðna sjálfvirkni því auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um sjálfvirkni og ómannaða þjónustu á tímum utan almenns vinnutíma fólks.“