Þórunn Stefánsdóttir fæddist 18. júlí 1949. Hún lést 10. mars 2024.
Útför Þórunnar fór fram 19. mars 2024.
Fallega vinkona mín, hún Tóta, er látin.
Við Tóta kynntumst í Menntaskólanum við Hamrahlíð og vorum um stund samtímis í námi við Háskóla íslands. Frá fyrsta degi tengdumst við vinaböndum og áttum eftir að bralla margt saman. Ein fyrsta ferð okkar var á stóra innkauparáðstefnu á Ítalíu, við ætluðum að flytja inn fallegan ítalskan fatnað fyrir íslenskar konur, enda Tóta mikil smekkkona og hefði sómt sér vel í því verkefni. En við tókum ekki þetta skref, sem betur fer sögðum við síðar enda stefndi hugur okkar annað. Ég heimsótti Tótu seinna til Benidorm þar sem hún var fararstjóri um tíma. Þar fundum við fjársjóð í sandinum á ströndinni. Í einni ferðinni var haldið til Madrid þar sem Tóta tók skemmtilegt viðtal við þann fræga spænska kvikmyndaleikstjóra Pedro Almodóvar Caballero á heimili hans. Við fengum hlýjar móttökur enda náði Tóta að sjarmera þann fræga alveg upp úr skónum. Við sátum í fallegum garði, sáum skjaldböku rölta um, Tóta tók viðtalið og ég fékk að vera ljósmyndari. Viðtalið birtist svo heima á Íslandi. Og ekki má gleyma heimsóknum okkar Önnu Páls til Barcelona, þar sem Tóta bjó um tíma. Þar leið henni best í hitanum og ævintýrunum. Við fórum til Sitges, skemmtum okkur konunglega. Tóta var mikil áhugamanneskja um tónlist og var óspör á að deila þeim fjársjóði með okkur. Hún lék á fiðlu og fór meðal annars ung til Svíþjóðar þar sem hún lék með öðru ungu tónlistarfólki á hátíðum.
Tóta var hæfileikarík kona, vann sem læknaritari, var blaðamaður, starfaði hjá Frjálsu framtaki og lengi á Rás 2. Eftir að hún flutti til Barcelona sendi hún heim pistla um lífið þar sem ómuðu á Rás 2. Skemmtilegir og einstaklega lifandi og fallegir eins og Tótu einni var lagið. Þá gaf hún út sína fallegu og sterku bók, Konan í köflótta stólnum, um baráttu sína við þunglyndi sem hún hafði glímt við. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001. Tóta var með svo skemmtilegan húmor og yndislega nærveru að ein vinkona okkar sagði þá við hana: „Tóta, þú ert algjört yndi og skemmtilegasti þunglyndissjúklingur sem ég þekki.“ Og Tóta hafði húmor fyrir þessu.
Tóta var einstök manneskja, falleg sál, hlý, ofurklár, hugmyndarík, húmoristi af guðs náð, frábær penni og íslenskukona og vinur vina sinna. Tóta elskaði dætur sínar, Hönnu Rut og Kötu, öll fallegu barnabörnin og barnabarnabörnin. Hanna Rut og Hekla, dóttir Kötu, og fjölskyldur þeirra bjuggu nálægt Tótu og voru henni mikill stuðningur síðustu árin. Og Hekla átti sérstakan stað í hjarta ömmu sinnar.
Því miður var samband okkar Tótu ekki eins reglulegt hin síðari ár vegna veikinda og anna. En mikið er ég þakklát fyrir að hafa átt yndislega stund með henni á Landakoti fyrir nokkrum vikum. Sama fallega Tóta, alltaf jafn klár og stutt í húmorinn. Við rifjuðum upp gamlar góðar minningar og fórum yfir stöðuna eins og hún var í dag.
Elsku Hanna Rut, Valur, Kata, Hekla, fjölskyldur og systkini Tótu. Mínar innilegustu samúðarkveðjur. Tótu verður sárt saknað.
Guðrún Árnadóttir.