Á Bakka Björg með Öldu og Bjarka, börnum sínum.
Á Bakka Björg með Öldu og Bjarka, börnum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björg Gunnlaugsdóttir er fædd 30. apríl 1934 á Grund á Langanesi og er frumburður foreldra sinna. „Þegar ég var sex ára flutti fjölskyldan að Bakka í Kelduhverfi og því tel ég mig frekar vera Keldhverfing en Langnesing

Björg Gunnlaugsdóttir er fædd 30. apríl 1934 á Grund á Langanesi og er frumburður foreldra sinna.

„Þegar ég var sex ára flutti fjölskyldan að Bakka í Kelduhverfi og því tel ég mig frekar vera Keldhverfing en Langnesing. Það var gott að alast upp á Bakka sem var hefðbundið sveitaheimili með öllu sem því fylgir og nokkur gestagangur. Fljótt kom í ljós að ég var meira fyrir bókina en búskap og heimilisstörf en eftir því sem systkinunum fjölgaði þurfti ég að láta meira til mín taka heima við. Sem betur fer voru foreldrar mínir bókhneigðir og þar naut ég góðs af.

Öll mín skólaganga einkenndist af alls konar uppákomum og veikindum, en einhvern veginn hafðist þetta. Eftir barnaskóla, sem var á ýmsum heimilum í sveitinni, fór ég þrjá mánuði í unglingaskóla í Lundi í Öxarfirði og svo á Eiðar, beint í þriðja bekk. Landspróf kláraði ég 1951 vann svo í eitt ár við ýmis störf til að safna fyrir menntaskólanámi.

Haustið 1952 hóf ég nám við Menntaskólann að Laugarvatni sem þá var deild úr Menntaskólanum í Reykjavík. Dvölin á Laugarvatni var heldur ódýrari en í Menntaskólanum á Akureyri og því fór ég suður yfir heiðar. Það reyndist verða mikið gæfuspor að fara í ML og bindast þar vinaböndum sem nú hafa haldið í rúm 70 ár. Menntaskólanámið gekk heldur ekki áfallalaust fyrir sig, ég veiktist og var frá námi í töluverðan tíma. Þó náði ég að klára á réttum tíma og útskrifaðist sem stúdent vorið 1956. Sumrin voru notuð til að fjármagna menntaskólagönguna og vann ég til dæmis sem matráðskona hjá Vegagerðinni og hjá Kaupfélagi Árnesinga við skrifstofustörf.

Hugurinn stefndi á háskólanám. Draumurinn var að fara í læknisfræði, en það var bæði dýrt og langt nám og því hóf ég nám við viðskiptadeild Háskóla Íslands, mörgum til mikillar furðu. Ástæðan var að ég sá fram á að með hverju árinu sem ég lyki myndu atvinnu- og tekjumöguleikar mínir aukast. Í viðskiptafræðinni kynntist ég svo Sverri eiginmanni mínum. Það var ekki annað í boði en að vinna fyrir háskólanáminu og vann ég ýmis störf meðfram, t.d. í hagdeild Seðlabanka Íslands, hjá lögfræðideild Sambandsins, sem ritari hjá Hriflu-Jónasi og sem sætavísa í Þjóðleikhúsinu. Eitt sumar átti ég þess kost að vinna á vegum AIESEC í Innkaupamiðstöð smávöruverslana í Stokkhólmi.

Ég útskrifaðist 1962 og varð þar með þriðja konan til að útskrifast með Cand. oecon.-gráðu frá Háskóla Íslands. Í kjölfarið var ég sú fyrsta sem starfaði sem viðskiptafræðingur, er ég hóf störf í hagdeild Pósts og síma sama haust en þar vann ég með hléum til 1972. Nokkrum tíðindum þótti sæta að ung háskólamenntuð kona hæfi störf hjá Pósti og síma á þessum tíma. Til marks um breytta tíma hringdi ritari háskólarektors í mig stuttu eftir að ég útskrifaðist. Ung kona sem hugðist hefja nám í viðskiptafræði kom til hans og lék henni forvitni á að vita hvort þetta nám væri eitthvað fyrir konur. Í framhaldi starfsins hjá Pósti og síma vann ég svo hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum ásamt því að sinna heimilinu.

Um fimmtugt settist ég aftur á skólabekk, með vinnu, við endurskoðunarkjörsvið HÍ. Haustið 1985 hóf ég svo störf í rannsóknardeild ríkisskattstjóra og seinna á eftirlitsskrifstofu sama embættis þar sem ég starfaði þar til ég fór á eftirlaun 2002.

Ég verð víst seint talin eitthvert félagsmálatröll þó svo að ég hafi verið meðlimur í Soroptimistahreyfingunni síðan 1978 og heiðursfélagi síðan 2014. Þar hef ég sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn minn, hreyfinguna á Íslandi og var fulltrúi Íslands í verkefni á vegum Evrópusambands Soroptimista.

Í árdaga vorum við hjónin nokkuð á faraldsfæti, hérlendis og erlendis, en eftir að við komum okkur upp sumarbústað í Grafningnum sem við nefndum Kálfskinn vorum við þar flestar helgar yfir sumartímann. Bústaðurinn hefur því verið stór partur af lífi fjölskyldunnar í rúma hálfa öld. Fyrstu áratugina var ekkert rafmagn þar, vatnið kom af þakinu og til upphitunar var notast við olíuofn og kamínu. Allt var frekar frumstætt en afskaplega notalegt. Rafmagn og rennandi vatn kom ekki fyrr en um aldamótin. Því miður hefur heimsóknum mínum heldur fækkað með hækkandi aldri en allt á sér sinn tíma.“

Fjölskylda

Eiginmaður Bjargar er Sverrir Ólafsson, f. 1.11. 1938 í Reykjavík. „Hann er einnig viðskiptafræðingur og starfaði lengstum hjá IBM á Íslandi og síðar Nýherja. Við hófum okkar búskap í Skipholti 54 þar sem við bjuggum á neðri hæð, en tengdaforeldrar mínir, Ólafur Jónsson (Flosa), f. 1905, d. 1989, verslunarmaður og Svava Berentsdóttir, f. 1909, d. 1978, hárgreiðslumeistari, bjuggu á efri hæðinni. Árið 1982 fluttum við í Seláshverfið þar sem við búum enn.“

Börn Bjargar og Sverris eru 1) Bjarki, f. 1.2. 1966, kerfisstjóri hjá Umbru, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Anna María Gunnarsdóttir, f. 27.3. 1967, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Synir: Jón Gunnar, f. 1996, læknir, og Ari Gunnar, f. 2001, verkfræðinemi í HÍ; 2) Alda, f. 10.3. 1974, kennari í Árbæjarskóla, búsett í Reykjavík. Sonur: Hrói f. 2014, grunnskólanemi.

Systkini Bjargar: Aðalbjörn Sigurður, f. 26.2. 1936, d. 25.8. 1990, kennari og bóndi í Lundi í Öxarfirði; Magnús, f. 10.11. 1939, d. 3.8. 2006, íþróttakennari, búsettur í Kópavogi; Aðalbjörg, f. 18.6. 1943, atvinnurekandi í Rein í Reykjahverfi; Hulda, 7.7. 1944, kennari á Selfossi; Hildur, f. 21.6. 1947, bókasafnsfræðingur í Reykjavík; Drengur, f. 6.8. 1948, d. 6.8. 1948, og Valdís Gunnhildur, f. 23.3. 1950, skrifstofustjóri á Akureyri.

Foreldrar Bjargar voru hjónin Gunnlaugur Sigurðsson, f. 4.8. 1908, d. 24.7. 1973, bóndi og síðar skrifstofumaður hjá Sambandinu, og Guðbjörg Huld Magnúsdóttir, f. 2.7. 1910, d. 29.4. 2006, húsfreyja og síðar matráður hjá Samvinnutryggingum.