Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst á sunnudag: „Heill og sæll Halldór, nú er vorið komið og veðrið er aldeilis fallegt hér syðra. – Vormorgunn“: Morgundísin milda merlar jökulhjúpinn

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst á sunnudag: „Heill og sæll Halldór, nú er vorið komið og veðrið er aldeilis fallegt hér syðra. – Vormorgunn“:

Morgundísin milda

merlar jökulhjúpinn.

Fjallabrúnir blika

blána himindjúpin.

Silfurbláar bárur

blunda á lygnum græði,

í grænu sefi synda

svanahjón í næði.

Björk og víðir bruma

blóm á engjum gróa.

Við klettinn lindin kliðar

kvakar fugl í móa.

Á Boðnarmiði yrkir Gunnar J. Straumland „Sléttubönd að vori“: „Þegar meint vor var hafið fyrir nokkru rak ég nefið út í óvissuna:

Hopar tíðin, kulda kjól

klæðist dagsins veður.

Dropar falla, sjaldan sól

sálu okkar gleður.

En viti menn! Síðdegis sama dag blésu hlýrri vindar og sólin fór að skína. Til að fagna því las ég vísuna afturábak:

Gleður okkar sálu sól,

sjaldan falla dropar.

Veður dagsins klæðist kjól,

kulda tíðin hopar.“

„Maríuerlan er mætt“ segir Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn:

Nú finnst mér loksins kuldans réna rugl

frá römmum vetri suðrið loksins raknað.

Á bæjarþekju birtist lítill fugl

sem ber sig vel og ég hef lengi saknað.

Íslensk þjóðvísa:

Kvöldúlfur er kominn hér

kunnugur innan gátta;

sólin rennur, sýnist mér,

senn er mál að hátta.

Gamall húsgangur:

Nú er úti veður vott

verður allt að klessu;

ekki fær hann Grímur gott

að gifta sig í þessu.

Gömul vísa:

Hún er suður í hólunum,

hefur gráa skýlu.

Meira veit ég ekkert um

ættina hennar Grýlu.

Öfugmælavísan:

Geitur hafa góða ull,

í galli er mesta sæta,

í krummanefi er kláragull,

í klónum silfrið mæta.