Óli Sigurður Jóhannsson fæddist 15. janúar 1933. Hann lést 31. mars 2024.

Útför hans fór fram 16. apríl 2024.

Margt var iðjað, aldrei hikað,

aldrei frá því góða hnikað.

Verkin mæra manninn vel.

Ríka hjálparlund hann átti,

hönd út rétti þar hann mátti.

Hans er gjöfult hugarþel.

Með þessari fallegu og lýsandi vísu Reyðfirðingsins Helga Seljan kveð ég hinstu kveðju kæran svila minn, Reyðfirðinginn Óla. Minnisstæð er mér sú stund er ég hitti öðlinginn þann fyrst. Ég, þá á sextánda ári, hafði stolist á ball á Reyðarfirði með Friðjóni kærasta mínum. Eftir ballið vildi hann ólmur heimsækja stóru systur sína, sem bjó þar í bænum með manni og börnum. Hann bankaði upp á hjá þeim seint að kvöldi með mig dauðfeimna í eftirdragi. Í eldhúsinu á Hjallavegi 1 sá ég í fyrsta sinn þau Óla og Sivu, hjónin sem síðar áttu eftir að verða mér svo kær. Óli sat við enda borðsins, glettnislegur á svip með konu sína á hnjánum, því þröng var þar á þingi og fleiri gestir en við á staðnum. Mér leist strax vel á fólkið og feimnin rjátlaðist ögn af mér.

Þó að Óli væri umtalsvert eldri en ég, einungis tveimur árum yngri en mamma mín, merkti ég þann aldursmun lítt framan af. Það var einungis hin síðari ár sem mér fannst hann vera að eldast að ráði. Hann var iðjusamur alla tíð, var sídundandi meðan heilsa og geta leyfðu. Þann tíma sem þau hjón bjuggu í fjölbýlishúsi á Reyðarfirði var það hann sem fór út á morgnana og hreinsaði snjó af gangstéttum og bílastæðum svo íbúar, sem sumir voru yngri en hann, ættu þar greiðan aðgang.

Allt sem hann tók sér fyrir hendur var unnið af natni og alúð, hvergi kastað til höndum. Hann var greiðvikinn og ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd. Við hjónin nutum ómældrar hjálpsemi hans eftir að við eignuðumst sumarbústað á Finnsstöðum. Neðan við bústaðinn er plan, þar sem þau hjón voru með hjólhýsi nokkur sumur. Það var segin saga, að væri Óli á staðnum þegar eitthvað var verið að brasa í kringum bústaðinn, var hann mættur til að hjálpa. Hann lagði hönd á plóg við pallasmíði, tröppugerð og ýmislegt fleira. Ekki ofbauð hann nokkrum manni með óþarfa fjasi né hávaða. Hann var lágróma og hæglátur en gat þusað ef honum var nóg boðið. Aðeins einu sinni á þessari rúmlega hálfu öld sem liðin er frá því ég kom inn í Finnsstaðafjölskylduna sá ég hann skipta skapi. Þá fauk í hann smástund og hann skammaðist, svo var það búið og gleymt. Um árabil áttum við hjón lítinn hund sem hreinlega tilbað hjónin í hjólhýsinu. Hann skottaðist þangað hvern morgun og lét hleypa sér inn í sæluna. Þar sat hann eins og prins með þeim til borðs og Óli gaf honum af mat sínum, klappaði honum og klóraði og stundum fékk krílið að leggja sig með húsbóndanum eftir matinn. Ekki var síðra að vera tvífættur gestur í hjólhýsinu. Óli uppgötvaði eitt árið að mér þætti Nóa-Kropp gott og eftir það átti hann einatt til poka af góðgætinu uppi í skáp og dró fram sposkur á svip í hvert sinn er ég rak inn nefið. Hjartans þökk fyrir allt minn kæri svili.

Elsku Siva, börn, tengdabörn, barnabörn og langömmubörn. Innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður (Sigga).