[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meðalskattbyrði launafólks þyngdist almennt í meirihluta aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á síðasta ári. Ísland er í hópi landa þar sem skattbyrði meðallauna léttist á milli ára en hér á landi minnkaði hún lítið eitt ef…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Meðalskattbyrði launafólks þyngdist almennt í meirihluta aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á síðasta ári. Ísland er í hópi landa þar sem skattbyrði meðallauna léttist á milli ára en hér á landi minnkaði hún lítið eitt ef reiknað er hlutfall skatta af meðallaunum frá árinu á undan. Þetta má lesa út úr nýjum samanburði OECD á skattlagningu launa í aðildarlöndunum.

Í árlegum skattasamanburði OECD eru notaðir ýmsir mælikvarðar til að leggja mat á skatta af launatekjum. Ef litið er á samanburð á hreinni skattbyrði launafólks, þ.e.a.s. hversu hátt hlutfall af heildarlaunum sínum launþegar greiða í skatta og önnur opinber gjöld, kemur m.a. í ljós að einhleypur og barnlaus einstaklingur greiddi í fyrra að jafnaði 27,4% af heildartekjum sínum í skatta samanborið við 24,9% að meðaltali innan OECD-landanna.

Skatthlutfall hans var 28,2% á árinu á undan. Hélt þessi einstaklingur því eftir að jafnaði 72,6% af tekjum sínum, að teknu tilliti til bóta eftir að hafa greitt sína skatta og skyldur, en meðallaunþeginn í OECD fékk 75,1% í vasann eftir greiðslu skatta.

Einstaklingur með meðallaun sem var í hjónabandi eða sambúð, átti tvö börn og naut barnabóta greiddi að jafnaði 15,4% í skatta af heildarlaunum sínum í fyrra samanborið við 16,2% á árinu 2022. Er það nítjánda hæsta skatthlutfallið í þessum hópi launþega meðal allra aðildarlanda OECD. Meðaltalið í öllum OECD-löndunum var 14,2%. Þetta þýðir að meðal-launamaður hér á landi með tvö börn á framfæri sínu hélt eftir 84,6% af heildarlaunum sínum þegar tekið hafði verið tillit til bótagreiðslna á borð við barnabætur við álagningu skatta, samanborið við 85,8% meðaltal í ríkjum OECD.

Skattfleygurinn á Íslandi undir meðaltali OECD

OECD notar fleiri aðferðir við mat á skattlagningu launa og á skattbyrði og reiknar svonefndan skattfleyg. Hann sýnir mismuninn á samanlögðum sköttum og launatengdum gjöldum launagreiðanda vegna starfsmanns annars vegar og hvað launþeginn ber úr býtum fyrir vinnu sína eftir að öll gjöld hafa verið dregin frá. Því hærri sem skattfleygurinn er, því minna ber launþeginn úr býtum eftir skatta.

Hlutdeild skatta og launatengdra gjalda af meðallaunum einhleyps og barnlauss einstaklings breyttist örlítið á Íslandi á milli ára og var 31,7% í fyrra, talsvert undir meðaltalinu innan OECD, sem var 34,8%. Var Ísland með 27. lægsta skattfleyginn í þessum hópi launþega í OECD-löndunum í fyrra.

Þegar borin er saman skattbyrði og skattfleygur af meðallaunum hjóna eða sambýlisfólks með tvö börn, þar sem annað er útivinnandi, er Ísland í 28. sæti í samanburðinum fyrir seinasta ár en Ísland vermdi 29. sætið á árinu 2022. Skattfleygur þessara launþega var 20,4% í fyrra en meðaltalið innan OECD var 25,7%.