Ísafjörður Jón Gnarr stendur fyrir máli sínu á sviðinu í Edinborgarhúsinu, en blaðamennirnir Stefán Einar Stefánsson og Andrés Magnússon spurðu.
Ísafjörður Jón Gnarr stendur fyrir máli sínu á sviðinu í Edinborgarhúsinu, en blaðamennirnir Stefán Einar Stefánsson og Andrés Magnússon spurðu. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
Jón Gnarr varð í gærkvöld fyrstur forsetaframbjóðenda til þess að hitta kjósendur á forsetafundi hringferðar Morgunblaðsins. Jón svaraði fyrst spurningum blaðamanna en tók svo við spurningum úr sal, en að fundi loknum brá hann sér út í sal og spjallaði við fólk

Jón Gnarr varð í gærkvöld fyrstur forsetaframbjóðenda til þess að hitta kjósendur á forsetafundi hringferðar Morgunblaðsins. Jón svaraði fyrst spurningum blaðamanna en tók svo við spurningum úr sal, en að fundi loknum brá hann sér út í sal og spjallaði við fólk.

Nánari grein er gerð fyrir fundinum í blaðinu í dag, en upptaka af fundinum í heild sinni er öllum opin á mbl.is.

Forsetafundurinn á Ísafirði var sá fyrsti í aðdraganda forsetakosninganna, en næstu vikur verða haldnir forsetafundir með sama sniði í hinum fjórðungunum þremur, á Egilsstöðum, Akureyri og Selfossi. Þar munu aðrir efstu frambjóðendur svara spurningum á sviði og úr sal, en þar er miðað við þá frambjóðendur sem mælast með meira en 10% fylgi í könnunum.

Í lokaviku kosningabaráttunnar munu efstu frambjóðendur svo mæta til kappræðna í beinu netstreymi á mbl.is.

Kosningabaráttan hefst

Segja má að kosningabaráttan hafi hafist fyrir alvöru í gær þegar landskjörstjórn kynnti gild framboð og þar með hverjir yrðu á kjörseðlinum í forsetakjörinu 1. júní.

Ellefu framboð reyndust gild, en grein er gerð fyrir frambjóðendunum á síðu 2 í blaðinu í dag. Nöfn þeirra flestra eru vel kunn af umræðu undanfarinna vikna, en þó kom einn óvæntur frambjóðandi fram, Eiríkur Ingi Jóhannsson, 47 ára sjómaður.

Skoðanakannanir hafa verið á einu máli um að baráttan standi helst milli fjögurra frambjóðenda, en þær hafa ekki verið á einu máli um hvernig röðin á þeim er. Í blaðinu í dag er að finna fylgisgreiningu þeirra.