Sigurður Arnar Jónsson fæddist á Egilsstöðum 31. júlí 1972. Hann lést 17. apríl 2024.

Hann var sonur Ingibjargar Sigurðardóttur, f. 15. ágúst 1954 og Jóns Inga Arngrímssonar, f. 8. mars 1955. Eiginkona Jóns er Arna Soffía Dal Christiansen, f. 10. maí 1957.

Systkini Sigurðar eru Óli Rúnar, f. 27. október 1980, eiginkona hans er Erna Gunnþórsdóttir, f. 14. maí 1984 og eiga þau fjögur börn, og Sigurlaug, f. 15. september 1986, eiginmaður hennar er Andri Ólafsson, f. 7. febrúar 1987, og eiga þau fjögur börn.

Fyrri eiginkona Sigurðar er Guðbjörg Oddsdóttir, f. 20. mars 1972. Börn þeirra eru Karlotta, f. 19. mars 1997, sambýlismaður hennar er Sean Anthony Emeka Thomas, f. 23. nóvember 1989, og Oddur Vilberg, f. 22. ágúst 1999. Sambýliskona hans er Metta Margrét Muccio, f. 28. júlí 1996.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Hlín Ósk Þorsteinsdóttir, f. 29. apríl 1971. Foreldrar Hlínar eru Þorsteinn Sigurður Þorsteinsson, f. 17. júlí 1938 og Hjörleif Einarsdóttir, f. 7. apríl 1941. Dætur Hlínar og Sigurðar eru Malen Ósk, f. 14. september 2004, kærasti hennar er Börkur Darri Hafsteinsson, f. 29. janúar 2003 og Elsa Hlín, f. 19. febrúar 2009. Stjúpsonur Sigurðar og sonur Hlínar er Kristófer Eyleifsson, f. 27. júlí 1997. Sambýliskona hans er Anna Margrét Benediktsdóttir, f. 16. október 1997.

Sigurður Arnar ólst upp í Fellabæ, gekk í grunnskóla á Egilsstöðum og útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1992. Á yngri árum sinnti hann ýmsum forystuhlutverkum innan íþrótta- og félagsstarfa, til dæmis í nemendafélagi í grunnskóla, sinnti formennsku íþróttafélags ME og var fyrirliði Hattar í yngri flokkum í knattspyrnu.

Sigurður útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996, með endurskoðun og reikningsskil sem sérsvið. Seinna lauk hann einnig löggildingu sem verðbréfamiðlari, leigumiðlari og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali.

Samhliða námi starfaði Sigurður sem verkefna-, viðburða- og framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands á árunum 1988-1996. Frá árinu 1997-2021 starfaði Sigurður sem forstjóri Motus (intrum Justitia). Á þeirri vegferð tók Motus m.a. yfir 25-30 smærri einingar samhliða því að byggja upp net útibúa á Íslandi, í Færeyjum og í Kanada. Sigurður starfaði svo sem framkvæmdastjóri Eigna- og aðstöðustýringa hjá FSRE (Framkvæmdasýslunni-Ríkiseignir). Einnig sat Sigurður í stjórnum hinna ýmsu félaga.

Sigurður varði stórum hluta frítíma síns við íþróttaiðkun, áður fyrr mest í knattspyrnu, handbolta og á skíðum. Í seinni tíð voru stundirnar með fjölskyldunni honum kærastar, ferðalög bæði innanlands og utan, ásamt golf- og skíðaiðkun. Hann var mikill golfáhugamaður og var meðlimur bæði í GKG og GR.

Sigurður var einnig mikill áhugamaður um persónulega framþróun og hverjar þær leiðir sem fólk getur nýtt sér til að þróa sig og þroska á lífsleiðinni.

Útför Sigurðar Arnars fer fram frá Lindarkirkju í dag, 30. apríl 2024, klukkan 13.

Hvað er hægt að segja?

Ekki neitt en samt svo ótal margt.

Hér er fátækleg kveðja til þín með loforði um að virða þessa ákvörðun þína eins og allar hinar.

Seint um kvöld ég sit með mynd af þér

svart og kalt mér finnst nú vera hér

hvergi bros þitt blítt nú skín

og birtu færir inn til mín

seint um kvöld ég sit með mynd af þér.

Seint um kvöld ég sit með mynd af þér

sveima minningar um huga mér

um ungan dreng og drauma hans

dansa þennan lífsins dans

seint um kvöld ég sit með mynd af þér.

Seint um kvöld ég sit með mynd af þér

sérhvert líf hér eilíft ekki er

þú kvaddir þína kvöl og pín

kærleik sendi ég til þín

seint um kvöld ég sit með mynd af þér.

Seint um kvöld ég sit með mynd af þér

sorgin barði hér á dyr hjá mér

söknuð finn ég sáran nú

síðan lífið kvaddir þú

seint um kvöld ég sit með mynd af þér.

(Jón Ingi Arngrímsson)

Pabbi.

Þú varst öryggið mitt í óvissunni. Þú varst ráðgefandi í öllum stórum ákvörðunum sem ég hef tekið. Þú varst verndandi afl í aðstæðum sem þú komst mér hjá því að upplifa. Þú varst kröfuharður á rök fyrir ákvörðunum, svo allar forsendur væru skýrar.

Þú varst hlustandi þegar tárin runnu. Þú varst faðmurinn í niðurbrotinu. Þú varst leiðbeinandi í sjálfsvinnunni. Þú varst áhugasamur um menntun mína. Þú varst hvetjandi afl í starfsframanum. Þú varst stoltur af árangri mínum. Þú varst stóri bróðir minn með skynsömu röddina.

Þú varst risastór áhrifavaldur í lífi mínu …

… og nú ertu farinn.

Minningar sem sótt hafa á mig síðustu daga eru annars vegar gleðistundir með þér og hins vegar stundir þar sem þú hefur gripið mig og haldið þétt í gegnum erfiðustu tímabilin.

Ég hringdi alltaf í þig með fréttir af einkunnum í annarlok, hefð sem myndaðist í fyrstu bekkjum grunnskóla þegar ennþá var ódýrara að hringja til Reykjavíkur eftir kl.19. Stundum fékk ég hrós, stundum erfiðar spurningar. Einu sinni sagði ég stolt frá 8 sem ég fékk í stærðfræði og viðbrögðin voru „Nú? Af hverju fékkstu ekki 10?“ Ég varð svo móðguð, rótaði í geymslunni eftir gömlu einkunnunum þínum og sá að þínar höfðu ekkert verið betri. Með leynivopnið hringdi ég til baka og slengdi fram nýfundnum upplýsingum til þess eins að vera svarað með því að ég ætti að geta gert betur en þú. Þessi hefð kostaði líka sársaukafull samtöl þegar námsárangurinn stóð á sér. Ég vildi að þú værir stoltur af mér.

Þú gerðir allt sem þú gast til að auðvelda mér menntun og sjálfsrækt. Þú gafst mér fyrstu fartölvuna og fyrstu hlaupaskóna. Þú kynntir mér efni til sjálfsræktar. Velferð mín, árangur og öryggi var þér alltaf mikilvægt.

Þú áttir inni mikið af hugmyndum, ekki síst um hvernig þig langaði að hjálpa öðrum.

Það er erfitt að lýsa þeim miklu áhrifum sem þú hafðir á líf mitt. Frá því að gefa mér pela, þjálfa mig í knattspyrnu, keyra saman suður á haustin, fara til Hollands, halda jól, Bræðslurnar, samverustundir á Laufásnum, brúðkaupin, óvæntir krísufundir eftir pöntunum.

Eftir stúdent tók ég ár í frí frá skóla. Þú brást við með dæmisögum um fólk sem þú þekktir sem hefði ætlað það sama en aldrei farið aftur í nám. Þú sættist þó á það að lokum og bauðst mér starf í Reykjavík. Eitthvað segir mér að þú hafir vitað upp á hár hvað þú varst að gera því einhæfara og einfaldara starfi hef ég ekki sinnt á mínum starfsferli. Líklega varstu þar að tryggja að ég færi til baka í nám eftir árið.

Ég hugsa um þig þegar ég heyri í Sálinni og Bubba. Ég hugsa til þín þegar ég sé dós af Magic, leik með Liverpool og þegar ég keyri framhjá Eiðum. Þegar ég sé skærgræna litinn. Þegar ég fer framhjá Ekkjufelli, Háafelli og Laufásnum. Þegar börnin mín fá einkunnir. Þegar þau takast á við áföll. Á stundum með börnunum þínum.

Ég vildi að við hefðum haft lengri tíma elsku Siggi og í huga mér kom ekki annað til greina. Ég vildi að ég hefði getað verið brotabrot af þeim stuðningi fyrir þig, sem þú varst fyrir mig.

Takk fyrir allt.

Silla systir.

Meira á www.mbl.is/andlat

Sigurlaug Jónsdóttir.

Það nísti inn að beini að fá þær hörmulegu fréttir að bróðursonur minn og vinur Sigurður Arnar væri fallinn frá langt fyrir aldur fram. Siggi var ákaflega traustur, greiðvikinn og góður vinur og ég fæ aldrei fullþakkað allt sem hann gerði fyrir mig í gegnum tíðina.

Þrátt fyrir að vera elsti sonur Nonna bróður míns var Siggi árinu eldri en ég. Hann ólst upp í Fellabænum en ég á Borgarfirði eystra og það fylgdi því alltaf talsverður spenningur þegar ég vissi að hann væri væntanlegur í heimsókn. Þegar hann síðan mætti á svæðið var það nú víst ekki alltaf þannig að við næðum reglulega vel saman til að byrja með. Við vorum báðir ákveðnir ungir menn og sennilega hefur mér stundum fundist að hann sýndi föðurbróður sínum ekki tilhlýðilega virðingu. En ævinlega var það samt þannig að við vorum orðnir bestu vinir rétt um það bil þegar komið var að því Siggi þyrfti að fara aftur heim. Við þroskuðumst síðan báðir og aldrei varð okkur sundurorða á fullorðinsárum. Siggi stóð framar mér á mörgum sviðum í uppvextinum. Hann var afburðanámsmaður enda eldklár, metnaðarfullur og duglegur. Hann var mikill keppnismaður og það var augljóst á öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ég hef víst oft rifjað það upp þegar við fórum með foreldrum mínum á Sumarhátíð á Eiðum, þá smápjakkar. Siggi var ekki lengi að koma auga á hversu góð viðskiptahugmynd það væri að safna flöskum á svæðinu og metnaður hans varð til þess að við söfnuðum að tjaldi foreldra minna svo gríðarlegu flöskufjalli að gömlu hjónin urðu hálfvandræðaleg vegna allrar athyglinnar sem þetta vakti.

Stundum tók Siggi að sér að kenna mér eitthvað sem eldri bræður mínir hefðu kannski kennt mér ef styttra hefði verið milli okkar í aldri. Einu sinni man ég að ég var í heimsókn í Fellabænum með foreldrum mínum og þá kemur til tals að ég væri ekki búinn að læra að hjóla. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég var gamall en ég man allavega að ég hálfskammaðist mín fyrir það. Siggi taldi þetta nú ekki mikið mál og dreif mig út og upp á hjólið sitt. Svo ýtti hann mér á talsverða ferð og sleppti en ég flaug auðvitað beint á hausinn. Hann gafst ekki upp og ýtti mér ferð eftir ferð þar til ég loksins fann jafnvægið. Ég fór ákaflega glaður heim til Borgarfjarðar þennan dag þó ég væri bólginn og blár.

Siggi var mikill félagsmálamaður og starfaði ötullega fyrir UÍA í mörg ár og hélt áfram að styðja við íþróttastarfið hér fyrir austan alla sína tíð. Þegar knattspyrnulið UMFB á Borgarfirði vantaði búninga síðast var það Siggi sem reddaði málunum. En þó Siggi hafi verið öflugur bæði í félagsstarfi og viðskiptalífinu þá var augljóst að hann setti fjölskylduna alltaf skilyrðislaust í fyrsta sæti. Hugur minn er hjá ykkur foreldrum Sigga, systkinum, börnum og eiginkonu. Ég vona að þið finnið kraft innra með ykkur til að styðja hvert annað í sorginni. Blessuð sé minning Sigurðar Arnars Jónssonar.

Ásgrímur Ingi
Arngrímsson.

Minn kæri vinur Sigurður Arnar eða Siggi eins og hann var kallaður er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Við Siggi höfum verið bestu vinir síðan við kynntumst fyrir rúmlega 30 árum sem sambekkingar á fyrsta ári í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Ég fann fljótt hvað þessi strákur frá Fellabæ norðan Lagarfljóts var traustur og skemmtilegur og það tókust með okkur sterk vinabönd sem hafa haldið síðan. Siggi var öflugur námsmaður og eftir útskrift af endurskoðunarsviði árið 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Intrum Justita á Íslandi sem heitir Motus í dag. Þegar Siggi var ráðinn til félagsins var það lítið fyrirtæki með aðeins nokkra starfsmenn en með miklum dugnaði leiddi hann fyrirtækið til að verða það öflugasta á sviði innheimtu og kröfustýringar á Íslandi.

Ég minnist margra gleðistunda með Sigga. Sameiginlegt áhugamál okkar var að spila golf og einnig áttum við það til að stunda saman líkamsrækt. Við fórum í útilegur víða um landið með okkar fjölskyldum og þær voru ófáar útilegurnar á afmælisdegi Sigga. Mér er sérstaklega minnisstæður einn afmælisdagurinn fyrir nokkrum árum þegar allt var á yfirsnúningi á Íslandi og ég hvatti Sigga til að halda í landsbyggðarmanninn í sjálfum sér og við fjölskyldan gáfum honum ullarsokka og gúmmískó í afmælisgjöf við mikil hlátrasköll.

Við Siggi eigum börn á svipuðum aldri og áttum við mörg innihaldsrík samtöl um það sem börnin okkar voru að takast á við í námi, íþróttum, tónlist og fleiru. Siggi var óendanlega stoltur af öllum börnunum sínum og studdi þau í hverju því sem þau tóku sér fyrir hendur. Einnig dáðist Siggi að hæfileikum Hlínar tengdum skartgripunum sem hún hefur hannað og selt í mörg ár við góðan orðstír.

Siggi var einstaklega gestrisinn og það eru margar veislurnar sem við hjónin höfum fengið að njóta með þeim hjónum Sigga og Hlín. Þau voru sannarlega höfðingjar heim að sækja á fallega heimilið sitt í Kópavogi og einnig í sumarhúsið sitt á Egilsstöðum.

Siggi barðist við veikindi á undanförnum árum. Hann gerði allt hvað hann gat til að ná bata og það er óendanlega sárt að sjá á eftir kærum vini kveðja lífið og alla ástvini sem elskuðu hann og dáðu. Elsku Hlín, Karlotta, Kristófer, Oddur Vilberg, Malen Ósk, Elsa Hlín og aðrir ástvinir, guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina.

Blessuð sé minning Sigga, míns kæra vinar.

Valtýr Guðmundsson.

Góður drengur, mikill fjölskyldumaður og farsæll viðskiptamaður er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Ég hafði fyrst kynni af Sigurði Arnari fyrir síðustu aldamót er ég starfaði fyrir Landsbankann á Suðurnesjum og hann var tekinn við sem framkvæmdastjóri hjá Intrum Justitia, nú Mótus, sem í þá daga var lítið fyrirtæki. Mér er minnisstætt hvað geislaði af honum krafturinn og áræðið sem einkenndi hann alla tíð. Ekki löngu síðar urðum við svilar og tókust með okkur góð kynni sem héldust alla tíð. Við deildum áhuga og ástríðu á viðskiptum og áttum oft löng samtöl þar sem við fórum vítt og breitt yfir sviðið og deildum áskorunum og sigrum í okkar störfum. Þessi samtöl voru alltaf gefandi enda Siggi mikil „pælari“ og öll skref sem hann tók voru úthugsuð og leiddu til framúrskarandi árangurs í uppbyggingu og rekstri á Mótus sem hann helgaði, meira og minna, sína starfsævi. Við deildum líka áhuga á golfinu og fórum í fjölmargar golfferðir saman með góðum félögum, þar var aldrei langt í keppnina og Siggi naut sín við þær aðstæður enda keppnismaður.

Siggi var mikil fjölskyldumaður og hlúði alla tíð vel að sínu fólki. Hann og Hlín Ósk byggðu sér heimili í Kópavogi sem alltaf var gott að heimsækja. Rætur Sigga lágu fyrir austan, á Borgarfirði eystra, og var hann mjög stoltur af sínum uppruna. Okkur Siggu, eiginkonu minni, þótti sérlega gaman að heimsækja Sigga og Hlín Ósk fyrir austan og eigum við margar verðmætar minningar frá þeim tímum.

Lífið er ekki alltaf fyrirsjáanlegt eða sanngjarnt, en síðustu fáein misserin dró ský fyrir sólu, og Siggi glímdi við veikindi sem hann náði ekki að sigrast á. Ég hugsa með jákvæðni og hlýhug til Sigga sem var einstakur maður. Hann var dugnaðarforkur, mikill fjölskyldumaður og tryggur vinur vina sinna. Það var alltaf gott að vera í liði með Sigga. Hans verður svo sannarlega sárt saknað.

Elsku Hlín Ósk og fjölskylda, missir ykkar er mikill, guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina og lífið framundan. Minningin um góðan eiginmann, föður, tengdaföður, son og bróður mun lifa um ókomna tíð.

Blessuð sé minning Sigurðar Arnars.

Viðar Þorkelsson.

Ég byrjaði að kynnast Sigurði Arnari þegar ég stofnaði Fjártækniklasann fyrir rúmum fimm árum. Hann rak fyrirtækin Motus og Greiðslumiðlun og hafði gert margt gott á sviði fjártækni. Hann studdi það sem við vorum að gera í Fjártækniklasanum á óeigingjarnan hátt, því það starf gengur oft út á að gefa sprotafyrirtækjum betri tækifæri. Við kynntumst betur með tímanum og í raun best eftir að hann hætti í fjártækninni en var mér kær ráðgjafi og kom reglulega í heimsókn. Ég er þakklátur fyrir stundirnar með honum, t.d. í göngutúrum í hverfinu þar sem við bjuggum báðir. Við ræddum bæði gildi í viðskiptum og andans mál. Siggi var á þeirri skoðun að tilgangur skipti miklu máli í lífinu. Segja má að sú sýn hafi birst í slagorði og gildum fyrirtækis hans, „ekki gera ekki neitt“. Hann talaði um mikilvægi gilda í rekstri þekkingarfyrirtækis, því valdinu er dreift og það er ekki starfað með valdboði nema að hluta, þannig að allir þurfa að starfa eftir gildum til að ganga í takt til góðs. Hann gaf mér litla bók um gildin og hugsunina á bak við þau. Gildin hans – og fyrirtækisins – voru hjálpsemi, frumkvæði, jákvæðni, vinnusemi og umburðarlyndi. Í hverju og einu þeirra birtist hugsun um tilgang – að ekki gera ekki neitt. Og í hverju og einu þeirra birtist kærleikur í verki og hjarta.

Siggi afrekaði mikið á ævi sinni og byggði upp mikla starfsemi. Á bak við það allt var drifkraftur í þágu fjölskyldunnar hans sem hann elskaði mikið. Þau eiga um sárt að binda núna en hafa sýnt mikinn styrk og samstöðu og ég veit að hann myndi ekkert vilja frekar en að þau fyndu gleðina aftur eftir að hann er genginn.

Nú er hann farinn á annan stað, þar sem við hittumst aftur í ljósi og kærleika Guðs. Þangað til nær maður vonandi að fylgja fyrirmynd hans í svo mörgu góðu og minnast góðra stunda og góðs manns í þakklæti.

Gunnlaugur Jónsson.