Stúdentsefni Menntaskólastúlkur á dimmisjón fyrr í þessum mánuði.
Stúdentsefni Menntaskólastúlkur á dimmisjón fyrr í þessum mánuði. — Ljósmynd/ Trausti Þorgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Diljá Karen Kristófersdóttir Kjerúlf og Fjóla Ösp Baldursdóttir eru nýstirni í félagsmálum og forystu landsins; formenn í þeim félögum sem nemendur Menntaskólans í Reykjavík hafa með sér. Kosningar voru í skólanum á dögunum og þá valdist Diljá Karen í embætti inspectors scholae, þ.e. formanns í skólafélagi MR. Fjóla Ösp var kjörin formaður málfundafélagsins Framtíðarinnar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Diljá Karen Kristófersdóttir Kjerúlf og Fjóla Ösp Baldursdóttir eru nýstirni í félagsmálum og forystu landsins; formenn í þeim félögum sem nemendur Menntaskólans í Reykjavík hafa með sér. Kosningar voru í skólanum á dögunum og þá valdist Diljá Karen í embætti inspectors scholae, þ.e. formanns í skólafélagi MR. Fjóla Ösp var kjörin formaður málfundafélagsins Framtíðarinnar.

Í MR, Lærða skólanum sem svo hét forðum, er reglan sú að skólafélagið og stjórn þess hefur keflið á haustdögum; skipuleggur félagslíf nemenda en sinnir einnig hagsmunum þeirra gagnvart yfirstjórn skólans allt skólaárið. Á vormánuðum tekur Framtíðin við félagslífinu, en að auki sér hún um málfundastarf bæði að hausti og vori. Skipting þessi hefur gilt frá 1883, eða í 141 ár. Stundum er sagt að MR sé skóli sterkra hefða: fyrrgreindur háttur í félagsmálum endurspeglar slíkt vel.

Þekkt er að margir úr forystuliði nemenda MR hafa á síðari stigum valist til mikilvægra starfa í þjóðfélaginu; í stjórnmálum, menningarlífi, viðskiptum, heilbrigðisvísindum og fleiru slíku. Því er ekki úr vegi að rætt sé við hið unga fólk sem nú er helst áberandi í nemendahópi MR. Og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér!

Strákar og stelpur séu saman í íþróttum

„Samskipti við fólk og félagsstörf hafa alltaf heillað mig,“ segir Diljá Karen sem tók formlega við sem inspector scholae síðasta vetrardag. Embættinu segir hún að fylgi sú skylda að fylgjast með viðhorfum og sjónarmiðum nemenda og koma þeim á framfæri við stjórnendur; þriðju hæðina í gamla skóla sem hún kallar svo. „Í sjálfu sér er gangurinn hér í skólanum góður að flestu leyti. Sumt mætti þó færa nær nútímanum. Mörgum finnst til dæmis alveg fráleitt að strákar og stelpur séu í aðskildum hópum í íþróttum við skólann. Eðlilegra sé að þarna fylgist bekkirnir að eins og í öðrum námsgreinum,“ segir Diljá sem núna er að ljúka 5. bekk í MR og er á náttúrufræðibraut.

„Ég stefni á læknisfræði eða lífræna efnafræði og ætla þannig að fá góðan undirbúning fyrir slíkt hér í MR. Hinn möguleikinn er síðan að kúvenda algjörlega og fara í pólitík. Ég útiloka ekkert. Að minnsta kosti vil ég hafa áhrif á samfélag mitt og finnst stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú alveg fráleit. Slíkt hefur skert inntak námsins og aukið álag á nemendur mikið. Vinnuvikan er orðin miklu meira en 40 tímar,“ segir Diljá.

Boltinn rúllaði í félagsstörfum

„Ég fann mig strax í félagsstörfum og sá bolti fór að rúlla strax þegar ég var í grunnskóla. Þegar ég svo kom í MR var strax ætlun mín að starfa fyrir nemendur og þær fyrirætlanir hafa heldur betur gengið eftir,“ segir Fjóla Ösp Baldursdóttir forseti Framtíðarinnar. Hún segir margt fram undan innan félagsins, þar sem nú sé horft til næsta vetrar. Leiksýning á Frúardegi og þátttaka í rökræðukeppninni Morfís séu þar ofarlega á blaði. Hvort tveggja þurfi góðan undirbúning. Þá þurfi MR-ingar að gera betur í spurningakeppninni Gettu betur á RÚV. Þar hefur lið skólans löngum verið sigursælt, en tapaði í mars síðastliðnum í úrslitaviðureign á móti MH.

Fjóla Ösp er úr Árbæjarhverfi og er á nýmálabraut í MR. Nemur þar meðal annars latínu, frönsku og spænsku og segir nám í þeim tungum alltaf nýtast vel. Í framtíðinni stefnir hún svo á lögfræðinám.

„Tungumálakunnátta er mikilvæg; að geta talað við fólk víða frá úr heiminum á móðurmáli þess. Vigdís Finnbogadóttir sagði eitthvað á þá leið að slíkt væri lykillinn að veröldinni. En sú kunnátta kemur ekki af sjálfu sér; árangur í námi byggist fyrst og fremst á mikilli vinnu sem þó má ekki taka allt annað yfir,“ segir Fjóla Ösp Baldursdóttir.