Hellisheiði Guðlaugur Þór var kátur eftir undirritunina í gær.
Hellisheiði Guðlaugur Þór var kátur eftir undirritunina í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Fimm íslensk fyrirtæki skrifuðu undir viljayfirlýsingu í Hellisheiðarvirkjun í gær um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX-vöruflutningabílum. Farartækin sem um ræðir eru dráttarbílar af stærstu gerð eða 44 og 49 tonn

Þorlákur Einarsson

thorlakur@mbl.is

Fimm íslensk fyrirtæki skrifuðu undir viljayfirlýsingu í Hellisheiðarvirkjun í gær um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX-vöruflutningabílum.

Farartækin sem um ræðir eru dráttarbílar af stærstu gerð eða 44 og 49 tonn. Orka náttúrunnar (ON) mun framleiða vetni á Hellisheiði til þess að knýja bílana og Blær – Íslenska vetnisfélagið dreifa því.

Í verkefninu eru því saman komin framleiðandi og innflytjandi bílanna, væntanlegir viðskiptavinir og fyrirtækin sem bæði framleiða og dreifa orkugjafanum.

Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Nýorku sagði í tilkynningu að hér væri um að ræða „eitt stærsta einstaka orkuskiptaverkefnið í sögu þjóðarinnar“, en eldsneytisnotkun 20 dráttarbíla jafnast á við ríflega þúsund fólksbíla.

Sagði hann að með innflutningi bílanna og kaupum á þeim væri því stórt skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á Íslandi. „Næstu skref eru að tryggja bæði framboð og samkeppnishæft verð á vetni til nota í samgöngum þannig að full orkuskipti geti átt sér stað,“ sagði Jón Björn enn fremur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is í gær að þetta væri mikill gleðidagur. „Og þótt einhver myndi segja að 20 trukkar séu dropi í hafið, þá er málið í raun gríðarstórt, sé litið til þess hversu mikið það sparar í útblæstri. Og eins þegar 20 trukkar eru komnir í gang, þá geta fleiri komið,“ sagði Guðlaugur Þór m.a. í gær.

Höf.: Þorlákur Einarsson