Samtök atvinnulífsins (SA) hafa skilað inn umsögn um frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt, sem er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. SA leggja áherslu á að auknum tilfærslum fylgi skýr forgangsröðun og þær leiði ekki til skattahækkunar á atvinnulífið „enda er ekki gert ráð fyrir henni við kostnaðarmat þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir. Skattheimta er nú þegar óvíða, ef nokkurs staðar, meiri en á Íslandi og brýn þörf á að draga þar úr fremur en að bæta í.“

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa skilað inn umsögn um frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt, sem er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga. SA leggja áherslu á að auknum tilfærslum fylgi skýr forgangsröðun og þær leiði ekki til skattahækkunar á atvinnulífið „enda er ekki gert ráð fyrir henni við kostnaðarmat þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir. Skattheimta er nú þegar óvíða, ef nokkurs staðar, meiri en á Íslandi og brýn þörf á að draga þar úr fremur en að bæta í.“

Þá taka samtökin vaxtabótakerfið fyrir og benda á að í því felist óæskilegir hagrænir hvatar. Vaxtabætur dragi úr áhrifum vaxtaákvarðana Seðlabankans, sem sé sérstaklega óæskilegt um þessar mundir. Þá geti slíkur stuðningur „stuðlað að hækkun húsnæðisverðs þar sem hann beinist að eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins en ekki framboðshliðinni, þar sem vandinn liggur“.

Samtökin hvetja til að áhersla verði lögð á að auka „framboð íbúða á markaðslegum forsendum, s.s. með umbótum á umgjörð og regluverki byggingarmarkaðar, auknu lóðaframboði í samvinnu við sveitarfélög og ábyrgum ríkisfjármálum sem stuðla að stöðugra vaxtastigi. Slíkur stuðningur er til þess fallinn að draga úr byggingarkostnaði og þjónar því markmiðinu um viðráðanlegt húsnæðisverð til lengri tíma litið, á meðan stuðningur á eftirspurnarhlið er þvert á móti fremur til þess fallinn að hækka húsnæðisverð og gengur þannig gegn markmiði sínu.“