Eilífðin Stilla úr kvikmyndinni For evigt, eða Að eilífu, sem er framleidd af dönskum og íslenskum fyrirtækjum.
Eilífðin Stilla úr kvikmyndinni For evigt, eða Að eilífu, sem er framleidd af dönskum og íslenskum fyrirtækjum.
„Hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam núna í lok janúar,“ segir Grímar Jónsson, einn af framleiðendum kvikmyndarinnar For evigt sem sýningar eru nú hafnar á hér á landi

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam núna í lok janúar,“ segir Grímar Jónsson, einn af framleiðendum kvikmyndarinnar For evigt sem sýningar eru nú hafnar á hér á landi. „Hún var þar í keppni sem heitir Big Screen Competition og fór beint þaðan til Gautaborgar og keppti um Drekaverðlaunin sem besta myndin þar. Þannig að hún fékk svolítið flott start hvað hátíðir varðar. Síðan var hún frumsýnd í Danmörku 18. apríl og hefur verið að fá rosalega fína dóma þar,“ segir Grímar.

Með sterka danska taug

Myndin er framleidd af íslenskum og dönskum fyrirtækjum, Hyæne Film í Danmörku og Netop hér á Íslandi, og telst því dansk-íslensk. Valgeir Sigurðsson er höfundur tónlistar og íslenskir leikarar eru þau Halldóra Geirharðsdóttir, Pálmi Gestsson og Helga Kristín Helgadóttir. Leikstjóri og handritshöfundur er Ulaa Salim, Dani fæddur árið 1987 sem á að baki eina kvikmynd í fullri lengd, Danmarks sønner eða Syni Danmerkur.

Grímar bjó lengi vel í Danmörku sem barn og unglingur og vann líka þar í landi öll sumur. Hann býr því að góðum tengslum við Danmörku. „Ég tala reiprennandi dönsku, hef búið þar lengi og unnið og er með mjög sterka danska taug í mér,“ útskýrir Grímar. Þessi tengsl hans við Danmörku hafi komið sér vel í starfi hans sem kvikmyndaframleiðandi.

Valgeir „algjör snillingur“

Grímar segist hafa komið frekar snemma inn í framleiðsluferlið. „Það þurfti ekkert að rembast til að þessi samframleiðsla væri góð fyrir verkefnið,“ segir hann. „Bæði vorum við að skjóta hérna á Íslandi í fimm daga og Halldóra Geirharðs er með flott hlutverk og líka Pálmi Gests og íslenski fjárhundurinn. Svo gleymist nú oft að stórtónskáldið okkar, Valgeir Sigurðsson, vann ákaflega flotta vinnu sem Danirnir voru alveg rosalega ánægðir með. Hann er algjör snillingur.“

Grímar nefnir líka Jörund Rafn Arnarson sem sérhæfir sig í sjónbrellum, „visual effects“ eins og þær heita á ensku, skammstafað VFX. „Hann er að vinna mjög náið með Dönunum,“ segir Grímar um Jörund og að myndin sé mjög þung hvað VFX varðar en um þær brellur sá fyrirtækið Reykjavík Visuals sem tengt er dönsku fyrirtæki, Copenhagen Visuals. „Þeir vinna mikið saman og voru með þetta verkefni þannig að mikið af þessari VFX-vinnu var unnin á Íslandi,“ segir Grímar.

Fórnar ást fyrir frama

„Þetta er ástarsaga og hún kjarnast svolítið í þessari setningu „hvað ef ég hefði?“,“ segir Grímar um For evigt. Myndin fjalli um eftirsjá, aðrar víddir og mikla sprungu sem myndist á hafsbotni við strendur
Íslands. Segir af ungum vísindamanni sem fórnar ástinni fyrir starfsframa og að bjarga jörðinni því sprungan veldur miklum og neikvæðum loftslagsbreytingum.

„Það er smá hamfaravinkill, mikil ástarsaga og hún er líka pínu fyndin og falleg. Ég myndi segja að þetta væri mjög vönduð mynd og ég er mjög ánægður og stoltur af okkar þátttöku í henni. En þetta er ekki einhver sci-fi-mynd út í gegn eða ástarsaga út í gegn heldur meira svona „hybrid“ og ótrúlega flott verk,“ segir Grímar.

Kynngimögnuð landkynning

Leikstjórinn Ulaa Salim stundaði nám við danska kvikmyndaskólann, Den danske filmskole, sem er hátt skrifaður í heimi kvikmyndanna. „Hann er næmur,“ segir Grímar um leikstjórann, „og þetta var eitt af þessum verkefnum sem ég vissi aldrei hvernig myndi verða, ekki fyrr en ég sá myndina. Bæði er svo mikið af „visual effects“ og svo er þessi ástarsaga svolítið lúmsk, þetta „ef ég hefði“-dæmi. Það var mjög þakklátt og gefandi upplifun að sjá myndina loksins eftir að hafa lesið handritið svona oft. Ég hef ekki upplifað þetta svona sterkt áður, að vita ekki nákvæmlega hvað ég er að fara að sjá áður en ég sé það.“

Grímar segir Ísland koma ákaflega vel út í kvikmyndinni. „Myndin hefst í Drangeyjarvita með Pálma Gests, íslenskum fjárhundi og miklum jarðskjálfta. Þetta er kynngimögnuð landkynning, svo við förum í klisjurnar, enn og aftur,“ segir Grímar sposkur.

Eldarnir næstir

En hvað er næst á dagskrá hjá Grímari? „Það eru Eldarnir eftir Sigríði Hagalín í leikstjórn Uglu Hauksdóttur,“ svarar Grímar og á þar við kvikmyndaða útgáfu samnefndrar bókar Sigríðar. Verður það fyrsta kvikmynd Uglu í fullri lengd og þó nokkuð um brellur.

„Þetta er mjög náið samspil á milli „visual effects“ og „special effects“,“ segir Grímar og á þar við brellur unnar með ólíkum hætti, þær sem kallast „visual“ eru að öllu leyti gerðar í tölvu, þ.e. tölvuteiknaðar.

„Hvað getum við búið til? Verður eldgos í gangi þegar við byrjum tökur?“ segir Grímar um þá óvissu sem fylgi verkefninu. „Eitthvað verðum við búin að skjóta, verðum náttúrlega búin að mynda þetta eldgos vel en á sama tíma verðum við með handrit og þurfum að fylgja því. Þannig að miklu af þessu verðum við að stilla upp og búa til, þá bæði með hjálp náttúrunnar og þess sem er til staðar og líka hjálp tölvutækninnar, „visual effects“,“ útskýrir hann.

Tökur á myndinni eiga að hefjast í september og er hún nú í forframleiðslu eða „pre-production“ eins og það kallast á ensku. „Ég er náttúrlega alveg hræðilega spenntur fyrir þessu. Ugla er í mínum huga okkar verðandi stórstjarna,“ segir Grímar að lokum og á þar við leikstjórann Uglu Hauksdóttur.