Flug Krían býr yfir mikilli flugfærni eins og þekkt er.
Flug Krían býr yfir mikilli flugfærni eins og þekkt er. — Morgunblaðið/Ómar
Sést hefur til kríunnar hér á landi undanfarið og alla vega í þremur tilfellum eftir því sem Morgunblaðið kemst næst. Blaðið forvitnaðist um gang mála hjá Brynjúlfi Brynjólfssyni hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði en hann segir algengt að kríunnar verði vart í kringum 21

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Sést hefur til kríunnar hér á landi undanfarið og alla vega í þremur tilfellum eftir því sem Morgunblaðið kemst næst. Blaðið forvitnaðist um gang mála hjá Brynjúlfi Brynjólfssyni hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði en hann segir algengt að kríunnar verði vart í kringum 21. til 24. apríl.

„Fyrsta tilfellið var 23. apríl en þá sást kría úti við ósinn hérna í Hornafirði. 25. apríl sást önnur og í morgun [gærmorgun] sást sú þriðja. Þetta er heldur seinna en mörg síðustu ár,“ segir Brynjúlfur og á þá við staka fugla. Í fyrra hafi fyrsta krían til að mynda sést 18. apríl. Ekki hefur enn sést hópur af kríum á þessu ári.

Brynjúlfur segir að komur farfuglanna hafi færst framar með árunum. Krían haldi sig á Íslandi fram í september og má sjá kríuna hringinn í kringum landið. Ekki sé óalgengt að krían fari frá Hornafirði til vetursetu eftir fyrstu tíu dagana í september þótt nokkur dæmi séu um að þær síðustu fari ekki fyrr en í október.

Krían hefur geysilega mikið flugþrek og Brynjúlfur segir vísbendingar um að fuglinn geti flogið 100 þúsund kílómetra á ári. „Mælir var festur við breska kríu og var hann tekinn af henni eftir tíu mánuði en þá hafði hún flogið um 90 þúsund kílómetra,“ segir Brynjúlfur sem er býsna fróður um kríuna en hann og samstarfsfólk hans hafa merkt tæplega 10.500 kríur á 19 árum.