Bráðefnilegur Karl Sölvi hafði umsjón með Füzz.
Bráðefnilegur Karl Sölvi hafði umsjón með Füzz. — Ljósmynd/RÚV
Ólafur Páll Gunnarsson hefur tekið upp á því í seinni tíð að útvista annað slagið umsjón með rokkþættinum Füzz á Rás 2 og síðasta föstudagskvöld settist bráðefnilegur maður í þetta hásæti íslensks útvarps, Karl Sölvi að nafni

Orri Páll Ormarsson

Ólafur Páll Gunnarsson hefur tekið upp á því í seinni tíð að útvista annað slagið umsjón með rokkþættinum Füzz á Rás 2 og síðasta föstudagskvöld settist bráðefnilegur maður í þetta hásæti íslensks útvarps, Karl Sölvi að nafni. Sá er heldur en ekki með sitt rokk á hreinu og hlóð í mikla málmhátíð í tilefni af 49 ára fæðingarafmæli Joeys Jordisons sem lést eins og við munum 2021. Viðtækið bókstaflega orgaði á mig í tvær og hálfa klukkustund og sjö mínútum betur. Þvílík veisla! Það var ekki bara Slipknot heldur fór Karl Sölvi með okkur í gædaðan túr um málmsöguna, fyrr og nú. Hafi hann mikla þökk fyrir!

Eitt má Karl Sölvi þó læra af meistara Ólafi Páli; að hafa kynningar sínar aðeins fjölbreyttari. Hann kynnir öll lög með nákvæmlega sama hætti: Þetta er þriðji síngullinn af fimmtu plötu sveitarinnar frá árinu 1989. Þið skiljið hvað ég er að fara. Fínar upplýsingar en ekki myndi skemma fyrir að krydda þetta aðeins betur. Þetta minnti mig svolítið á okkar allra besta mann Sigurbjörn Árna þegar hann fer að segja manni að viðkomandi langstökkvari hafi orðið sjötti á heimsmeistaramóti unglinga innanhúss og án atrennu árið 2016.

Það er svo sem ekki leiðum að líkjast!