Þingið vestra tók loks við sér, en tíminn fór og kemur ekki aftur

Á þessum vettvangi og fleirum og víðar gátu menn sér þess til, þegar Úkraínustríðið hafði staðið í eitt og hálft ár eða svo, að margvísleg þreyta yrði farin að gera vart við sig, áður en langt um liði. Auðvitað fyrst og fremst hjá heimavarnarliðinu sjálfu í Úkraínu, sem hafði ótrúlega lengi sýnt bæði hetjulund, staðfestu og bardagavilja.

Það þurfti svo sem ekki mikla speki til slíkra getgátna, en hún blandaðist við ótta og samúð í garð þeirra sem börðust fyrir hinn góða málstað. En það var annað sem var lakara og í rauninni miklu verra. Ríkin, sem ein gátu undirbyggt vonina og gert hana raunsæja, með því að færa hetjunum sem börðust þau vopn sem dygðu, og væru af öflugustu gerð og nýjustu tækni. Því þetta tvennt var algjör forsenda þess, að varnarliðið ætti raunhæfan kost gegn ofureflinu úr austri. Vissulega hafði vel og hlýlega verið talað hvarvetna, en það voru ekki nærri öll vestrænu ríkin sem létu fé og búnað fylgja heimsóknum æðstu manna til Kænugarðs, þótt enginn skortur væri á myndum af viðkomandi með Selenskí forseta. Ýmsir gerðu þó allt sem þeir gátu og í sumum tilvikum meira en það.

Eystrasaltslöndin þrjú gerðu þannig það sem þau gátu af örlæti og raunsæi og Pólverjar voru öflugir og viljugir til stuðnings, enda stutt í Rússland. En mestu munaði þó, eins og vant er, um Bandaríkin og Bretland og þótt Þýskaland færi óþægilega hægt af stað var farið að muna töluvert um aðstoð Þjóðverja þegar á leið. Frakkar létu einatt líklega og forsetinn átti í símtölum og heimsóknum, með tilheyrandi myndum, en minna varð um að vopnabúnaður fylgdi í kjölfarið sem verulega munaði um.

Því var spáð hér og víðar, að hefði ekki rofað til í Úkraínu, þegar rúmt ár væri eftir í forsetakosningu í Bandaríkjunum, þá hefðu áhugamálin þar vestra breyst mikið, og efasemdir um Úkraínu yrðu þá ræddar þar opinberlega. Og því miður hafa döprustu spár í þessa átt gengið eftir og rúmlega það. Eftir margra mánaða þóf um fé og búnað tókst loks í sumarbyrjun, þegar einungis var rúmlega hálft ár til kosninga vestra, að hlunka myndarlegum ákvörðunum í gegnum þingdeildirnar í Washington. En nú var svo komið að Úkraína keppti ekki lengur eitt um stuðning og styrki og hversu mikils magns vopna mætti vænta. Þeir í Kænugarði höfðu fengið keppinauta af ýmsu tagi! Önnur áhugamál höfðu vaknað, sem slegist var um, sem sum komust núna í fyrsta sætið í keppninni um fé og vígatól. Það var ekki lengur bara Úkraína. Nú var það Ísrael, sem varðist eitt gegn útsendurum Írana í líki Hamas-hryðjuverkamanna, Hesbollah í Líbanon og Sýrlandi og Húta í Jemen, allt ógnvekjandi brúður í snúrum sem hnýttar voru um lipra fingur klerkanna í Teheran. Svo var það Taívan, sem Kínverjar ógna við hvert tækifæri, og svo flækir hið ömurlega ástand við suðurlandamæri Bandaríkjanna, sem Joe Biden forseti hefur náð að koma í algjört klúður, svo helst minnir á íslensk stjórnvöld, og vita fæstir hvernig í ósköpunum honum og þeim tókst það.

En þreftíminn langi í bandaríska þinginu veikti ekki aðeins varnargetu Úkraínu. Pútín í Kreml er ekki heyrnarlaus. Hann hefur notað tímann vel og lagt undir Rússland viðbótarlönd og -skika í Úkraínu sem verður ekki létt að vinna á nýjan leik. Gagnárásin mikla gekk ekki upp og veikti stöðu Selenskís. Þótt fé og vopn hafi losnað úr læðingi glataðist tími, sem verður ekki heimtur aftur.