Við Persaflóa Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna á ráðherrafundi Persaflóaríkja í Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, í gær.
Við Persaflóa Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna á ráðherrafundi Persaflóaríkja í Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, í gær. — AFP/Evelyn Hockstein
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagðist í gær vongóður um að Hamas-samtökin myndu fallast á nýjustu tillögur um vopnahlé á Gasasvæðinu og að gíslar sem þar eru yrðu leystir úr haldi. Stjórnvöld í Egyptalandi, Katar og Bandaríkjunum…

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagðist í gær vongóður um að Hamas-samtökin myndu fallast á nýjustu tillögur um vopnahlé á Gasasvæðinu og að gíslar sem þar eru yrðu leystir úr haldi.

Stjórnvöld í Egyptalandi, Katar og Bandaríkjunum hafa undanfarna mánuði reynt að koma á samkomulagi milli Hamas og Ísraels. Sendinefnd frá Hamas kom til Kaíró í Egyptalandi í gær og haft var eftir háttsettum liðsmanni Hamas að samtökin gætu fallist á meginatriði þeirra tillagna sem nú eru til umræðu.

Vopnahlé og fangaskipti

David Cameron utanríkisráðherra Bretlands sagði á ráðstefnu Alþjóðaviðskiptaráðsins í Sádi-Arabíu í gær, að tilboðið gerði ráð fyrir 40 daga vopnahléi og hugsanlega yrðu þúsundir Palestínumanna, sem sitja í fangelsum í Ísrael, látnar lausar gegn því að Hamas leysi úr haldi á annað hundrað gísla sem eru á valdi samtakanna og fleiri samtaka á Gasasvæðinu.

Cameron sagði einnig að grundvöllur tveggja ríkja lausnar, Ísraels og Palestínu, væri að þeir sem bæru ábyrgð á árásinni á Ísrael 7. október sl., leiðtogar Hamas-samtakanna, yfirgæfu Gasa og hryðjuverkainnviðirnir þar yrðu leystir upp.

Blinken, sem kom til Sádi-Arabíu í gær í sjöundu ferð sinni til Mið-Austurlanda frá því átökin á Gasasvæðinu hófust í október sl., sagði á sömu ráðstefnu að nýjasta vopnahléstillagan fæli í sér afar mikið örlæti af hálfu Ísraels. „Á þessari stundu eru Hamas það eina sem stendur í vegi fyrir vopnahléi í þágu íbúa á Gasa. Þeir verða að taka ákvörðun – og þeir verða að gera það fljótt,“ sagði Blinken. „Ég er vongóður um að þeir taki rétta ákvörðun.“

Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan Hamas sagði að samtökin vildu gjarnan ná samkomulagi sem tryggði varanlegt vopnahlé, að fólk sem væri á flótta innan Gasasvæðisins gæti snúið aftur til síns heima, lausn gísla og að umsátrinu um Gasa lyki. Sagði heimildarmaðurinn að í vopnahléstillögunni fælist að Ísraelsher drægi sig til baka frá tveimur helstu vegum gegnum Gasa svo fólk gæti snúið aftur til norðurhluta svæðisins.

Zaher Jabareen, einn af samningamönnum Hamas, sagði við AFP að samkomulag væri háð því að varanlegu vopnahléi yrði komið á og að fyrir lægju skýrar áætlanir um uppbyggingu á Gasasvæðinu. Axios-­fréttastofan hafði eftir ísraelskum embættismönnum að í nýjasta tilboði Ísraels væri lýst vilja til að ræða um að stillt verði varanlega til friðar eftir að gíslar hafa verið leystir úr haldi.

Ísraelsstjórn hefur ítrekað lýst því yfir að her landsins hafi í hyggju að ráðast inn í borgina Rafah syðst á Gasasvæðinu þangað sem mikill fjöldi fólks hefur leitað skjóls undan átökum. En Israel Katz utanríkisráðherra Ísraels sagði að ríkisstjórnin kynni að hætta við þau áform ef viðunandi samkomulag næst.

Blinken ítrekaði í ávarpi sínu í gær andstöðu Bandaríkjastjórnar við hugsanlega innrás Ísraelshers í Rafah. „Við höfum ekki enn séð áætlun sem við teljum tryggja vernd almennings með raunhæfum hætti,“ sagði hann.

Mikill hiti síðustu daga hefur gert lífið í bráðabirgðatjaldbúðum, sem reistar hafa verið úr plastdúkum, í Rafah nánast óbærilegt. Palestínu­aðstoð Sam­einuðu þjóðanna ­(UN­RWA) sagði í gær að með vaxandi hita ykist hættan á að sjúkdómar breiddust út á svæðinu.