Það er full ástæða til að óska Valsmönnum til hamingju með magnaðan árangur í Evrópubikar karla í handbolta. Þeir eru komnir í sjálfa úrslitaleikina eftir að hafa unnið Minaur Baia Mare frá Rúmeníu með samtals 14 marka mun í undanúrslitunum

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Það er full ástæða til að óska Valsmönnum til hamingju með magnaðan árangur í Evrópubikar karla í handbolta.

Þeir eru komnir í sjálfa úrslitaleikina eftir að hafa unnið Minaur Baia Mare frá Rúmeníu með samtals 14 marka mun í undanúrslitunum.

Fyrir vikið fer úrslitaleikur í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta skipti fram á Íslandi en Valur mætir Olympiacos frá Grikklandi í tveimur úrslitaleikjum, heima og heiman, tvær síðustu helgarnar í maí.

Þar með feta Valsmenn dagsins í dag í fótspor gömlu hetjanna í „Mulningsvélinni“ sem komust í úrslitaleikinn í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980.

Reyndar er þetta þriðja Evrópukeppnin, á eftir Meistaradeildinni og Evrópudeildinni, en það dregur ekkert úr afreki Óskars Bjarna og drengjanna hans í vetur.

En það er áhugavert að bera saman úrslit leikjanna frá 1980 og 2024.

Valur vann Drott frá Svíþjóð 18:16 og samtals 35:34 í tveimur leikjum í átta liða úrslitum 1980.

Í undanúrslitum vann Valur eftirminnilegan heimaleikinn gegn Atlético Madrid 18:15 og samanlagt voru liðin jöfn eftir tvo leiki, 39:39.

Úrslitaleiknum gegn Grosswallstadt frá Þýskalandi töpuðu Valsmenn 21:12.

Núna er jafnmikið skorað í einum leik og skorað var í tveimur árið 1980. Það hefði dugað skammt í þessum Evrópubikar að skora 35 mörk í 8-liða úrslitum og 39 í undanúrslitum.

Svona hefur handboltinn breyst á 44 árum.