Einkenni „Vinátta, gleði og hlýja er einkennandi fyrir verk Ásrúnar.“
Einkenni „Vinátta, gleði og hlýja er einkennandi fyrir verk Ásrúnar.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Eftirpartí ★★★★· Danshöfundur: Ásrún Magnúsdóttir. Ljósmynd og vídeó: Björgvin Sigurðsson. Grafík: Rakel Tómasdóttir. Tækni: Owen Hindley. Tónlistarráðgjafi: Atli Bollason. Dansarar: Álfheiður Karlsdóttir, Bergþóra Sól Elliðadóttir, Diljá Þorbjargardóttir, Emma Eyþórsdóttir, Hafey Lipka Þormarsdóttir, Hekla Ýr Þorsteinsdóttir, Lára Stefanía Guðnadóttir, Melkorka Embla Hjartardóttir, Oliver Alí Magnússon og Sunna Mist Helgadóttir. Forward Youth Company frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 11. apríl 2024, en rýnir sá sýninguna á sama stað miðvikudaginn 17. apríl 2024.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Þegar farið er á danssýningu skapaða af Ásrúnu Magnúsdóttur er alveg öruggt að eitthvað sniðugt og skemmtilegt er að fara að gerast á sviðinu. Hún hefur þróað einstakan stíl sem danshöfundur sem felst ekki síst í vinnuaðferð þar sem hún, í samstarfi við flytjendur, breytir hversdagslegum þáttum mannlífsins í eitthvað alveg sérstakt. Þátttakendur í verkunum eru oftast ófaglærðir dansarar, venjulega ungt fólk og er efniviðurinn sóttur í þeirra líf. Í verkinu Hlustunarpartý fá áhorfendur til dæmis að hlusta á uppáhaldslög krakkanna. Í Leyndarmál ljóstra þátttakendurnir upp leyndarmálum sínum litlum og stórum og verkið Grrrrls var óður til kraftsins sem býr í ungum konum. Ásrún hefur með þessari vinnuaðferð gert fjölbreyttari gerðir líkama sýnilega á danssviðinu og raddir hópa sem annars myndu ekki heyrast ná til okkar áhorfenda. Þetta verður ekki síst sýnilegt í dansverkinu Dúettar sem sýnt verður á Listahátíð í vor, en þar mætast einstaklingar með mismikla líkamlega færni og segja okkur frá tengslum sínum. Markmið hennar er enda að eigin sögn að „útvíkka hugmyndir okkar um dans, kórografíu og sviðslistir“.

Í Eftirpartí fáum við að fara á djammið með danshópnum Forward Youth Company. Hér vinnur Ásrún aldrei þessu vant með menntuðum dönsurum, eitthvað sem skilar sér í því að verkið er mun líkamlegra og meira dansandi en fyrri verk. Kvöldið byrjar með látum. Kröftug tónlist fyllir salinn, tónlist sem miðaldra kona kannast ekki við, og dansararnir dansa af miklum móð. Eftir því sem á líður fer að draga af mannskapnum en áfram er haldið. Tónlistin stýrir vel stemningunni eins og á góðu djammi og eftir kraftinn í byrjun róast andrúmsloftið í salnum smátt og smátt. Atli Bollason er skráður sem tónlistarráðgjafi sýningarinnar og veit greinilega hvað hann er að gera. Hreyfingar dansaranna, oft á tíðum leikrænar, fylgja tónlistinni og endurspegla vel hvar á kvöldinu við erum stödd, þarna eru kelið, flökurleikinn, áfengisdauðinn/svefninn, ástarsorgin/reiðin þegar horft er upp á einhvern kyssa „ranga“ manneskju, víman, þreytan, trúnóið, röðin á kvennaklósettið, óboðnu gestirnir í eftirpartíinu, samkenndin, samhjálpin, vináttan … Umgjörðin, lýsing og búningar, styður mjög sannfærandi við stemninguna. Það fer ekki á milli mála hvað er í gangi.

Kóreógrafían í verkinu er einstaklega vel heppnuð. Áhorfandinn fær sterka tilfinningu fyrir efninu og líður eins og flugu á vegg, inni á skemmtistað eða í eftirpartíi í stórri stofu á óskilgreindum stað í bænum, á sama tíma og kóreógrafískt handbragð Ásrúnar gerir þennan venjulega viðburð, djamm og eftirpartí, að áhugaverðum listviðburði. Sú faglega vinna sem liggur að baki svona uppsetningu er greinileg því að það er ekki einfalt að láta „hversdagslegar“ athafnir lifna við sem listaverk á sviði á sama tíma og það heldur sínum sanna tóni. Það væri frábært að sjá Eftirpartí lifa lengur en bara þessar tvær sýningar sem lokið er. Það er algjörlega sniðið fyrir unga djammara og ekki síður foreldra þeirra sem einu sinni voru þarna. Svo er það bara stórskemmtilegt fyrir alla hina sem voru og mögulega eru djammarar í eðli sínu.

Dansflokkurinn Forward Youth Company hefur fengið þónokkur verkefni undanfarin misseri. Fyrir utan sínar eigin sýningar þá tók flokkurinn þátt í sýningu Íslenska dansflokksins er nefnist Árstíðirnar eftir Völu Rúnarsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur og sást á skjánum á dagskránni Sprettfiskur á kvikmyndahátíðinni Stockfish. Eftir að hafa séð margar af sýningum hans þá stendur þetta samstarf við Ásrúnu upp úr. Eins og á alvöru djammi dansaði hver dansari á sinn hátt mikinn hluta sýningarinnar og ýtt var undir einkenni hvers og eins með vali á búningum. Þetta gaf dansverkinu sannfærandi tón. Þannig fékk hver og einn að njóta sín innan danssmíðinnar á sama tíma og hópurinn virkaði vel sem heild bæði í frjálsari senum og sameiginlegum dansatriðum. Krafturinn og gleðin hjá dönsurum var aðdáunarverð enda heldur maður ekki út djamm og dansa í partíi heilt kvöld og í eftirpartíi á eftir fram á morgun nema að vera í sæmilegu formi. Samspilið þeirra á milli var líka fallegt, það var greinilega góður andi í hópnum.

Vinátta, gleði og hlýja er einkennandi fyrir verk Ásrúnar þrátt fyrir að þau birti áhorfendum oft á tíðum erfið mál. Henni tekst að setja viðfangsefni verkanna fram af virðingu og kærleika, ekki ofsa, árásargirni og ofbeldi og sendir áhorfendur heim, glaða, hugsi, snortna og stundum sorgmædda en þó alltaf með hlýju í hjarta.