Alvotech Róbert Wessman forstjóri Alvotech segir að fyrirtækið stefni á að setja 3-4 lyf á markað fyrir lok næsta árs.
Alvotech Róbert Wessman forstjóri Alvotech segir að fyrirtækið stefni á að setja 3-4 lyf á markað fyrir lok næsta árs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Bandaríska heilbrigðistryggingafélagið Cigna hyggst bjóða upp á líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech af gigtarlyfinu Humira án þess að viðskiptavinir þurfi að greiða sérstaklega fyrir það. Tilkynnt var um sölusamninga Alvotech í síðustu viku.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Bandaríska heilbrigðistryggingafélagið Cigna hyggst bjóða upp á líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech af gigtarlyfinu Humira án þess að viðskiptavinir þurfi að greiða sérstaklega fyrir það. Tilkynnt var um sölusamninga Alvotech í síðustu viku.

Cigna group er móðurfélag Cigna health, Quallent, Accredo, Express Scripts og Evernorth Health. Accredo er önnur stærsta sérhæfða apótekskeðjan í Bandaríkjunum, velta félagsins í fyrra var um 60 milljarðar bandaríkjadala.

Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech, segir að um sé að ræða stórtíðindi fyrir Alvotech enda hafi fyrirtækið unnið að þessum samningi um nokkurt skeið.

„Viðskiptavinir munu geta fengið okkar lyf í gegnum Accredo án þess að greiða neitt úr eigin vasa. Óski sjúklingar eftir að fá frumlyfið Humira þurfa þeir að greiða úr eigin vasa um 500.000 krónur á ári. Þetta er stórt skref sem tryggir okkur aðgang að markaðnum. Við erum eina fyrirtækið með líftæknilyfjahliðstæðu í því lyfjaformi sem flestir sjúklingar nota með útskiptanleika við frumlyfið Humira og höfum fengið einkaleyfi á útskiptanleikann í Bandaríkjunum í 12 mánuði. Það þýðir að skipta má Humira út fyrir okkar hliðstæðu án þess að fá samþykki læknis,“ segir Róbert í samtali við Morgunblaðið.

Hyggjast tvöfalda tekjurnar

Velta með Humira var í kringum 21 milljarður dala árið 2022, þar af 19 milljarðar í Bandaríkjunum. Um 85% af sölu á markaðnum eru í þeim styrkleika lyfsins sem Alvotech hefur fengið markaðsleyfi fyrir. Alvotech var með tekjumarkmið upp á 300-400 milljónir dollara í ár og Róbert segir að fyrirtækið hyggist tvöfalda tekjurnar fyrir árið 2025 sem eru 600-800 milljónir dollara.

„Þetta er stór áfangi hjá okkur og einn af nokkrum. Þetta setur okkur í góða stöðu þegar kemur að sölu líftæknilyfjahliðstæðna í Bandaríkjunum,“ bætir Róbert við.

„Þessi samningur styður við þau tekjumarkmið sem við höfum sett okkur fyrir árið í ár og næsta ár. Við reiknum með að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs verðum við með neikvæða EBITDU líkt og fram kom í kynningu á síðasta ársuppgjöri félagsins en á öðrum ársfjórðungi hyggjumst við skila jákvæðri EBITDU.“

Spurður um umfang samningsins segir Róbert að hann geti ekki gefið það upp en samkvæmt fréttatilkynningu frá Cigna er Acredo með yfir 100.000 sjúklinga á Humira í dag.

Róbert segir að ýmislegt sé fram undan hjá Alvotech, fyrirtækið er þegar með tvö lyf á markaði og hyggst setja fleiri lyf á markað á komandi misserum. Hann segir að vegferðin hafi verið frábær í 11 ár og fyrirtækið hafi nú þegar fjárfest myndarlega í rekstrinum.

„Við höfum fjárfest um 1,3 milljarða dollara í rekstrinum og erum eina fyrirtækið sem sérhæfir sig eingöngu í líftæknilyfjahliðstæðum sem skráð er á hlutabréfamarkað í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir Róbert og bætir við að stærsti keppinautur fyrirtækisins sé Samsung en samstæðan selji ekki einungis sjónvörp heldur sé líka á líftæknihliðstæðumarkaðnum. Samsung Biologics, sem skráð er á hlutabréfamarkað í Suður-Kóreu, hefur fjárfest gríðarlega í líftæknilyfjahliðstæðum og er vænt markaðsvirði á lyfjum í þróun hjá Samsung Biologics svipað og vænt virði lyfja í þróun hjá Alvotech.

„Það er gaman að segja frá því að við erum að byggja upp unga atvinnugrein á Íslandi og á heimsvísu. Í ár er Alvotech í fyrsta sinn að skila jákvæðri EBITDU á rekstri með því að markaðssetja hliðstæðu Humira á Bandaríkjamarkað og hliðstæðu Stelara á Kanadamarkað, Japansmarkað og Evrópumarkað. Stelara veltir um 12 milljörðum dollara árlega. Þá höfum við klárað klínískar rannsóknir á tveimur lyfjum sem við höfum verið að þróa í sjö ár.“

Alvotech verði eitt á markaði

Um er að ræða hliðstæðu af lyfinu Prolia/Xgeva og aðra af lyfinu Simponi sem verða komnar í sölu fyrir lok næsta árs. Alvotech verður fyrst á markað með Simponi-hliðstæðuna en um er að ræða lyf sem veltir um 4 milljörðum Bandaríkjadala árlega og aðeins eitt annað fyrirtæki, Biothera sem er með starfsemi í Kína, er að þróa hliðstæðu af lyfinu.

„Það eru því góðar líkur á að Alvotech verði eitt á markaði í einhvern tíma með líftæknilyfjahliðstæðu af Simponi. Við erum með tvö lyf á markaði í ár og setjum líklega 3-4 lyf til viðbótar á markað fyrir lok næsta árs. Við höfum byggt upp heimsklassaaðstöðu á Íslandi þar sem við höfum tryggt okkur næg afköst til að þróa og framleiða lyf fyrir okkur næstu 7-8 árin,“ segir Róbert og bætir við að það sé fjárfrekt að byggja upp svona starfsemi.

„Þetta er flókin starfsemi, og tímafrekt að byggja upp svona aðstöðu. Þannig að við öll sem komum að fyrirtækinu erum mjög stolt af því og spennt fyrir framhaldinu nú þegar við sjáum fleiri og fleiri lyf koma á markað,“ segir Róbert að lokum.