[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki Daðason bjargaði stigi fyrir Fram þegar liðið heimsótti Val í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í gær. Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Viktor Bjarki jafnaði metin fyrir Framara á 90

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Hinn 15 ára gamli Viktor Bjarki Daðason bjargaði stigi fyrir Fram þegar liðið heimsótti Val í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í gær. Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, en Viktor Bjarki jafnaði metin fyrir Framara á 90. mínútu og tryggði liði sínu dýrmætt stig.

Viktor Bjarki, sem er fæddur í júní árið 2008, er þriðji yngsti markaskorari efstu deildar frá upphafi og sá þriðji sem skorar 15 ára gamall. Eiður Smári Guðjohnsen er sá yngsti og Þórarinn Kristjánsson frá Keflavík næstyngstur.

Framarar eru með sjö stig í fjórða sæti deildarinnar og hafa fengið fjögur stig af sex mögulegum úr síðustu tveimur leikjum sínum gegn Val og KR. Valsmenn hafa hins vegar aðeins fengið eitt stig af níu mögulegum úr síðustu þremur leikjum gegn Fram, Stjörnunni og Fylki.

Þá reyndist Guðmundur Baldvin Nökkvason hetja Stjörnunnar þegar liðið heimsótti Fylki á Fylkisvöll í Árbænum.

Leiknum lauk með naumum sigri Stjörnunnar, 1:0, en Guðmundur Baldvin, sem er nýorðinn tvítugur, skoraði sigurmark leiksins þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Markið var hans fyrsta í efstu deild á tímabilinu en miðjumaðurinn á að baki 37 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað sjö mörk.

Stjarnan, sem tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum, hefur nú unnið tvo leiki í röð og er í sjöunda sætinu með sex stig. Á sama tíma bíða Fylkismenn ennþá eftir sínum fyrsta sigri í deildinni en liðið hefur gert eitt jafntefli og tapað þremur í fjórum fyrstu umferðunum. Eina stig Fylkismanna í deildinni til þessa kom gegn Val á heimavelli.