Magni Reynir Magnússon fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1935. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 16. apríl 2024.

Hann var sonur Hjörnýjar Tómasdóttur, f. í Reykjavík 3.1. 1916, og Magnúsar Guðmundssonar, f. 29.4. 1912 í Vestmannaeyjum. Magni var elstur sammæðra systkina. Næst komu Ellen Helgadóttir, f. 27.6. 1942, gift Eiríki Hannessyni. Arndís Helgadóttir, f. 16.9. 1944, látin, gift Sigurði Þorlákssyni. Sverrir Helgason, 15.5. 1946, giftur Eileen Rose Helgason. Inga Helgadóttir, f. 8.12. 1947, látin, gift Gísla Guðmundssyni. Hjalti Valur Helgason, f. 14.2. 1949, giftur Margréti Bragadóttur. Anna Helgadóttir, f. 14.6. 1955, gift Jóhanni Erni Skaftasyni. Samfeðra systkini hans eru Kolbrún Bergmann, f. 21.6. 1947, fyrri eiginmaður Sigfús Smári Viggósson, síðari eiginmaður Björn Björnsson, látinn, og Margrét Bergmann Magnúsdóttir, f. 4.1. 1946, látin.

Magni kynntist ungur sinni heittelskuðu Steinunni Guðlaugsdóttur, f. 9.5. 1942, og giftu þau sig í kirkjunni á Eyrarbakka 11.7. 1964. Börn þeirra eru Oddný Elín, f. 29.12. 1964, gift Hilmari Hanssyni, dóttir Sól Hilmarsdóttir. Fyrir átti Oddný Magna Reyni Sigurðsson, giftur Ingu Helgu Sveinsdóttir, eiga þau þrjú börn, Sigurð Svavar, Heklu Ýr og Björgvin Elí. Guðmundur Haukur, f. 14.9. 1969, giftur Aline Teixeira Soares, börn Mikael Magni Soares. Fyrir á Guðmundur þrjú uppkomin börn: Köru, Árna Reyni Hassell og Evu Dröfn Hassell. Ingibjörg Magnadóttir, f. 12.10. 1974, maki Karl Gauti Steingrímsson.

Magni ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Oddnýju og Guðmundi, og byrjar mjög snemma að sjá fyrir sér í þröngu búi. Hann gekk í Samvinnuskólann og eftir námið hóf hann störf hjá Loftleiðum og var síðar hjá Landsbankanum. Árið 1964 stofnar hann Frímerkjamiðstöðina á Skólavörðustíg ásamt tveimur vinum og ráku þeir fyrirtækið til ársins 1979. Magni og Steinunn opnuðu þá verslunina Hjá Magna. Þar bættu þau borð- og handspilum við safnmunina og síðar meir tölvuspilum og leikjum. Verslunina ráku þau þangað til Magni varð sjötugur eða til ársins 2005. Magni kom að uppbyggingu margra merkra safna þjóðarinnar, meðal annars seðlasafns Seðlabanka Íslands og einstaks safns Indriða Pálssonar heitins. Hann færði heim til Íslands þýðingamiklar fornminjar, gömul landakort, frímerkt póstkort og aðra dýrgripi sem höfðu farið úr landi og varðveitast nú á Þjóðminjasafni Íslands og í verðlaunasöfnum. Hann sýslaði með og veitti ráðgjöf varðandi sölu safnmuna fram á síðasta dag.

Magni verður jarðsunginn í dag, 30. apríl 2024, í Áskirkju klukkan 13.

Nú er jarðvist elskulega Magna bróður lokið en ég veit að það verður tekið vel á móti honum í sólarlandinu. Þar dvelja margir kærir ættingjar og vinir og bíða hans með opinn faðminn. Minningarnar koma margar ósjálfrátt upp í hugann núna þegar ég hugsa til Magna. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég var lítil stelpa trítlandi með pabba okkar til afa og ömmu í heimsókn á Laugaveginn þar sem Magni ólst upp. Þar kynntist ég bróður mínum sem ungum og fallegum manni sem alltaf var á kafi í frímerkjum og svo góður við mig frá fyrstu stundu. Þegar heimsóknunum lauk hafði ég yfirleitt með mér teiknimyndablöð heim sem Magni gaf mér og ég hafði einstaklega gaman af. Önnur bernskuminning sem er mér ljóslifandi eru steiktu kóteletturnar hennar ömmu. Magni vildi alltaf hafa þær vel brúnaðar og meira að segja smá brenndar að mig minnir og ég naut góðs af. Enn í dag eru kótelettur eitt af því besta sem ég smakka. Á fullorðinsárum hélt ég áfram að eiga gott samband við Magna og heimsótti þau Steinunni reglulega. Ég leitaði oft til þeirra ef mig vantaði aðstoð og þar var mér tekið vel. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja með svo góða nærveru á þeirra fallega heimili. Síðasta samtal okkar Magna var í síma daginn fyrir andlátið. Það símtal var einkennandi af þeirri hlýju sem hann sýndi mér alltaf. Hann byrjaði símtalið á að segja elsku systir og sagði mér frá draumi um fugla sem svifu í kringum hann og fylgdu honum. Hann var rólegur eins og honum einum var lagið og tók því sem beið hans með einstöku æðruleysi.

Megi allar góðar vættir gefa þínum nánustu ástvinum styrk elsku bróðir núna þegar þú ert farinn. Þín verður sárt saknað. Takk fyrir allt.

Þín einlæg systir,

Kolbrún.

Magni Reynir frændi minn og vinur er allur eftir stutt veikindi. Á kveðjustundu ætla ég að minnast frænda míns og rifja upp minningar frá liðnum áratugum.

Við Magni vorum bræðrasynir frá Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum. Hann ólst upp frá þriggja ára aldri hjá föðurforeldrum okkar, Guðmundi Gíslasyni (1883-1969) og Oddnýju Elínu Jónasdóttur (1878-1967). Þau áttu heima á Norðurstíg 5 í Vesturbænum í Reykjavík, en frá 1947 á Laugavegi 70b. Magni reyndist þeim vel í ellinni. Ég er viss um að afi og amma litu á Magna sem yngsta son sinn. Eins reyndist Magni vel foreldrum mínum og Oddnýju systur minni. Pabbi og Magni voru líkir í lund og áttu það sameiginlegt, að fátt haggaði þeim í erli dagsins. Amma hafði líka þann hæfileika.

Magni var orðheppinn með afbrigðum, með gott skopskyn og gat verið kaldhæðinn og háðskur, þegar honum þótti það eiga við! Hann var líka kurteis maður, og það var eins og allar dyr opnuðust fyrir honum, alltaf ráðagóður. Einhvern tíma sagði Magni við mig, að hann hefði snemma áttað sig á því, að menn færu lengra á lipurðinni en frekjunni! Magni var mikill málamaður og gat bjargað sér á mörgum tungumálum. Hann spilaði bridge með félögum sínum í áratugi.

Gott minni er ættarfylgja í fjölskyldunni. Magni var minnugur og hafði einstakt sjónminni. Enginn í fjölskyldunni var jafningi hans þar.

Þegar ég man fyrst eftir vann Magni í Landsbanka Íslands í Austurstræti. Hann var hópi fyrstu gjaldkera, þegar Austurbæjarútibú var opnað 28. maí 1960 á Laugavegi 77. Samstarfsmaður hans sagði mér, að ekki hefðu aðrir verið jafningjar hans í hraða og öryggi í afgreiðslu. Hann vann síðast á skrifstofu Loftleiða hf. á Reykjavíkurflugvelli, áður en hann gerðist frímerkjakaupmaður.

Magni var landskunnur safnari, sérfræðingur í íslenskum frímerkjum. Einnig var hann vel heima í íslenskri mynt og peningaseðlum, brauðpeningum, póstkortum, póststimplum og spilum. Safnarar í Danmörku og Svíþjóð þekktu auðvitað Herra Magnusson. Hann fór oft utan.

Hann reyndi snemma að vekja áhuga minn á söfnun frímerkja, en það gekk ekki. Betur tókst til með að kenna mér að safna mynt og seðlum.

Laugardaginn 4. apríl 1964 opnaði Frímerkjamiðstöðin dyr sínar á Týsgötu 1. Magni, Finnur Kolbeinsson (1935-2019) og Haraldur Sæmundsson (1929-2021) voru eigendur og samstarfsmenn. Frímerkjamiðstöðin var til húsa á Skólavörðustíg 21a frá því í lok ágúst 1968.

Laugardaginn 6. janúar (á þrettándanum) 1979 opnaði Magni verslunina Hjá Magna í húsi Ludvigs Storr á Laugavegi 15. Steinunn, hin ágæta kona Magna, vann með honum í afgreiðslunni. Í verslunina var ætíð gott að koma. Góðvild þeirra hjóna var í fyrirrúmi og þau lögðu áherslu á að hafa vörur sem safnarar vildu eiga. Í desember ár hvert var salan mest í spilum. Þau ráku verslunina til ársloka 2005. Eftir að Magni fór á eftirlaun leituðu margir ráða hjá honum vegna frímerkja.

Ég er afar þakklátur Magna fyrir samfylgdina. Ég og fjölskylda mín vottum Steinunni og öllum aðstandendum innilega samúð. Guð blessi minningu Magna R. Magnússonar.

Þorgils Jónasson.

Verslun Magna á Laugaveginum lét ekki mikið yfir sér. Gólfplássið framan við afgreiðsluborðið rúmaði bara fáeina viðskiptavini. Að baki voru hillur með varningi, sem yfirfylltust af spilum og púsluspilum fyrir hver jól. Þegar frá leið kom í ljós að lagerinn leyndist á efri hæð í húsinu.

Andrúmsloftið í búðinni var stórbrotnara en húsakynnin. Einstakt viðmót Magna mætti hverjum þeim sem þar steig inn fyrir þröskuldinn óháð aldri, kyni, þjóðerni eða öðru. Smitandi gleði hans og snögg hugsun gerði staðinn að skemmtistað þar sem kankvísi og hnyttni Magna litaði orðræðuna. Grínið var jafnan græskulaust og beindist oft að honum sjálfum.

Sértæk þekking Magna á öllum þeim kimum sem íslenskir safnarar hafa skapað sér; mynt, frímerkjum, orðum, sígarettumyndum, póstkortum, spilum og hverju einu, var reidd fram eins og sjálfsagt væri. Fólk gerði sér ekki bara erindi í búðina til að eiga viðskipti heldur líka til að spyrjast fyrir og fræðast eða bara til að líta inn.

Um árabil lá leið mín til Magna til að skoða margvíslegt myndefni sem þangað hafði ratað úr ýmsum áttum innanlands og utan. Hefði eitthvað sérstakt rekið á fjöru hóaði hann í mig. Þessar heimsóknir voru sannar skemmtiferðir og hjá Magna leyndist margt merkilegt sem hlaut trygga varðveislu fyrir hans milligöngu í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni.

Inga Lára Baldvinsdóttir.

Við erum ekki mörg eftir, komin hátt á níræðisaldur. Flest okkar hafa þekkst í marga áratugi og bundist órjúfandi vinaböndum. Einn af þeim er vinur minn Magni R. Magnússon frímerkjakaupmaður til áratuga, þekktur maður í þjóðlífinu sem nú er genginn til feðra sinna.

Við Magni kynntumst fyrst rétt um 1960 þegar við unnum báðir í Landsbankanum á Laugavegi 77. Þetta voru góðir dagar, samstarfsfólkið skemmtilegt og glaðlegt, margt á okkar aldri; ég rúmlega tvítugur, Magni fjórum árum eldri. Við áttum báðir kærustur og fórum óspart út að skemmta okkur. Þá voru dansstaðir fjölbreyttir: Borgin, Loftleiðir, Klúbburinn, Lídó, Glaumbær … nefndu þá bara. Við stunduðum staðina óspart, dönsuðum eins og enginn væri morgundagurinn og nutum lífsins áhyggjulausir. Magni var svo skotinn í kærustunni sinni að hann kvæntist henni 1964, henni Steinunni Guðlaugsdóttur, sem stóð við hlið hans ávallt síðan.

Ég man vel eftir brúðkaupi þeirra í Eyrarbakkakirkju sumarið 1964. Þegar þau komu út úr kirkjunni flaug vinur Magna yfir kirkjuna og kastaði rósum út úr flugvélinni yfir brúðhjónin. Rósirnar áttu að dreifast, en það gerðist ekki svo rósavöndurinn lenti í einu búnti á jörðinni.

En það fall varð þeirra fararheill, því hjónabandið þeirra entist allt til æviloka hans; þau hefðu átt 60 ára brúðkaupsafmæli í sumar ef honum hefði enst aldur til.

Árin liðu, og Magni gerðist frímerkjakaupmaður á Laugaveginum, eiginlega eins konar tákn götunnar fyrir sjálfstæða kaupmennsku. Hann verslaði með gömul frímerki, leikföng, myntir, spil, gamlar orður og allt annað sem aðrir kaupmenn gátu ekki sérhæft sig í. Það gátu allir komið við í búðinni hjá Magna, keypt og spjallað, helst hið síðarnefnda, því Magni var alltaf til í spjall um daginn og veginn, sama hvernig á stóð. Og alltaf var hann jafnglaðlegur og góður heim að sækja. Verst var hvað hann var vinsæll, því ávallt var einhver í búðinni hjá honum, ekki til að versla, heldur að spjalla. Ég hitti þar marga þjóðkunna framámenn, sem áttu ekkert erindi nema að ganga að ljúfmennsku Magna vísri, gera sér glaðan dag með stuttu samtali og halda síðan göngu sinni áfram um Laugaveginn.

En svo kom að því að kempan fór að draga sig í hlé. Seldi búðina, sem skömmu síðar lagðist af. Hann, eins og nágrannakaupmenn hans í götunni, hætti á Laugaveginum og lundabúðir tóku við. Nú er hún Snorrabúð stekkur, stóð einhvers staðar. Magni dró viðskipti sín heim á heimili sitt og hélt áfram með frímerkjaviðskipti sín, enda var hann fremstur meðal jafningja í þeirri grein. Hann var alltaf ráðagóður í þeim viðskiptum, og nú síðast í fyrra gaf hann mér góð ráð þegar ég þurfti að koma gömlu frímerkjasafni í verð.

Nú er Magni kominn yfir móðuna miklu. Þaðan sér hann til okkar sem eftir eru, sendir okkur góða strauma og óskir um gæfu. Ég votta Steinunni og börnum þeirra þremur innilegustu samúð mína.

Björn Matthíasson.