Sigurberg Einarsson fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1936 og ólst þar upp. Hann lést 22. mars 2024 á líknardeild Landspítala eftir langvarandi veikindi, umkringdur sínum nánustu.

Foreldrar Sigurbergs voru Einar Guðjónsson, f. 4.6. 1903, d. 27.11. 1992, járnsmíðameistari í Reykjavík, og Ingigerður Eggertsdóttir, f. 7.12. 1902, d. 8.6. 1991, húsmóðir.

Sigurberg var yngstur af þremur börnum, systur hans eru Guðborg, f. 29.3. 1930, maki Jónas Þórðarson, og Þuríður, f. 23.3. 1933, d. 5.3. 2024, maki Ólafur Vignir Albertsson.

Sigurberg kvæntist 8.11. 1958 Steinunni S. Sigurgeirsdóttur, f. 16.7. 1940, húsmóður. Hún er dóttir Sigurgeirs Friðrikssonar, bifreiðasmiðs í Kópavogi, og k.h., Lilju Vigfúsdóttur húsmóður.

Börn Sigurbergs og Steinunnar eru þrjú: 1) Einar Ingi, f. 7.6. 1958, maki Elín Helgadóttir, barn þeirra Sigurbjörg Líf. 2) Siggerður Lilja, f. 26.12. 1960, maki Róbert Gunnarsson og börn þeirra Ingunn og Friðrik Snær. 3) Eggert, f. 7.2. 1962, börn hans Líney, Óskar Eggert og Ellen Elma Ástrós.

Sigurberg lauk vélstjóraprófi frá Vélskóla Íslands 1959. Hann var vélstjóri til sjós og lands, m.a. á Gullfossi. Hann starfaði síðan hjá föður sínum í Vélsmiðjunni Bjargi til 1972 er hann hóf störf hjá Íslenska álfélaginu þar sem hann var flokksstjóri á vélaverkstæði í steypuskála.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna í Garðakirkju 4. apríl 2024.

Saman

Hamingjusöm

frá því þau hittust fyrst

ung að aldri.

Skemmtu sér svo

hlið við hlið.

Upplifðu nýja tegund

af ást

þegar börnin komu í heiminn.

Einnig þegar barnabörn

fóru að skjóta upp kollinum.

Vandamál

uxu upp úr engu.

En í sameiningu

var þeim útrýmt.

Saman eru þau enn.

Njóta samveru

hvort annars

Með bros á vör.

Svo sætt þegar þau

stríða hvort öðru

á sinn skemmtilega máta.

Þetta er það sem kallast

sönn ást.

(Ingunn)

Ingunn.