Ferna Sandra María Jessen er markahæst í Bestu deildinni.
Ferna Sandra María Jessen er markahæst í Bestu deildinni. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Sandra María Jessen, framherji og fyrirliði Þórs/KA, var besti leikmaðurinn í annarri umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Sandra átti frábæran leik þegar Akureyrarliðið vann stórsigur á FH, 4:0, í Kaplakrika á laugardaginn …

Sandra María Jessen, framherji og fyrirliði Þórs/KA, var besti leikmaðurinn í annarri umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Sandra átti frábæran leik þegar Akureyrarliðið vann stórsigur á FH, 4:0, í Kaplakrika á laugardaginn en hún gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fjögur mörkin. Tvö í fyrri hálfleik og hin tvö á lokakafla leiksins.

Fyrir þessa frammistöðu fékk Sandra hæstu einkunn sem Morgunblaðið gefur, þrjú M, og er hún fyrsti leikmaðurinn í Bestu deildum kvenna og karla í ár til að fá þessa einkunn sem ekki er gefin oft á ári.

Sandra hefur skorað öll fimm mörk Þórs/KA í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar og er markahæst í deildinni.

Frá 16 ára aldri

Sandra er 29 ára gömul og hefur leikið allan sinn feril á Íslandi með Þór/KA, frá 16 ára aldri. Hún er markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 94 mörk og þriðja leikjahæst með 155 leiki. Hún varð Íslandsmeistari með liðinu 2012 og 2017 en árið 2012 skoraði hún 18 mörk í deildinni, þá 17 ára gömul, og varð markahæst ásamt Elínu Mettu Jensen, jafnöldru sinni úr Val.

Sandra lék með Leverkusen í Þýskalandi veturinn 2015-16 og var síðan aftur í röðum félagsins frá 2018 til 2021 en sneri aftur til Þórs/KA fyrir tímabilið 2022. Þá hefur Sandra leikið 40 landsleiki fyrir Íslands hönd, þrjá á þessu ári, og skorað í þeim sex mörk.

Þrjár fengu tvö M

Þrír leikmenn fengu tvö M fyrir frammistöðu sína í 2. umferð Bestu deildarinnar en það voru Katie Cousins úr Val, Sigdís Eva Bárðardóttir úr Víkingi og Hannah Sharts úr Stjörnunni. Þær eru allar ásamt Söndru Maríu í úrvalsliði Morgunblaðsins úr 2. umferð sem sjá má hér fyrir ofan.

Sigdís Eva og Amanda Andradóttir úr Val hafa báðar verið í úrvalsliði umferðarinnar í tveimur fyrstu umferðunum.